Prjónað af ást

Þýðing: Þórunn Halldórsdóttir

„Hatturinn passar höfuðið,“ segir gamalt Króatíst orðatiltæki, en af hverju að hætta á hattinum? Það er gamaldags hefð sem er hægt og rólega að komast aftur í tísku og getur klætt þig frá toppi til táar. Íslensk tíska hefur um langa hríð haft í hávegum langlífa hefð sína á handgerðum lopapeysum, án nokkurra merkja um undanhald, aðallega vegna veðurfars og samfélagslegrar sýnar sem er oftast jákvæð gagnvart verkinu. Talsmenn þessa lífsstíls eiga það til að tala um nútíma samfélag í neikvæðum tón og einblína á sterkar neysluvenjur sem kunna ekki að meta (betri) gæði handverks. En allar breytingar, þeirra á meðal sú sem tekur okkur til baka, þarf tíma til að ná gripi; tíma og fólk sem er viljugt til að skuldbinda sig algerlega eða að hluta til að þessum einstaka lífshætti.

Mynd: Marta Raljević

Gömul tíska, ný miðlun

Ekki aðeins býr Marta Raljević ekki á Íslandi, heldur er hún líka frá landi sem er mun hlýrra í suðri - Króatíu. Hattinn sem passar höfuð hennar gerði hún sjálf með umhverfisvænni ull úr nærumhverfinu. Hún vinnur núna í opinberri þjónustu sem lokkaði hana til að finna sér meira skapandi áhugamál til að eyða tíma sínum í. Hún fann hið fullkomna áhugamál fyrir 5 árum síðan.

„Vinkona mín kom eitt sinn til mín með einhvers konar heimagerðan trefil. Hún hafði verið að vinna sem leiðsögumaður og einn af ferðamönnunum í rútunni hennar gerði fyrir hana trefil á leið þeirra um Króatíu. Mér fannst það góð nýting á tíma, svo ég ákvað að prófa (alveg sjálf, með YouTube á skjánum), jafnvel þó fólki í kringum mig fyndist það skrítið, af því að handverk í Króatíu er jafnan álitið frumstætt, hefðbundið og nokkuð óaðlaðandi tómstundagaman.“

Nokkur undarleg augnatillit frá ókunnugum trufluðu Mörtu ekki því að kostir prjónaskaps og hekls vógu mun þyngra en ókostirnir, sem hún fann sérstaklega fyrir í móðurhlutverkinu. Þar sem Marta er mjög félagslynd manneskja fannst henni ferlið við að laga líf sitt að því að þjónusta einhvern annan krefjandi, en hún komst fljótt að því að það að „leika sér með prik“ er frábær dægrastytting fyrir hana á milli annasamra dagskrárliða barnsins. Með hjálp samfélagsmiðla náði hún að stækka félagshring sinn.

„Ég hitti svo mikið af nýju fólki og við eigum margar góðar stundir saman. Við höfum búið til hópspjall þar sem við ræðum ný verkefni og skipuleggjum kaup á nýjum efnum, sem er það sem við erum hvað spenntust fyrir. Allur hópurinn er stórkostlegur.“

Haldið áfram 

Þó að Marta álíti hekl enn sem áhugamál hefur færni hennar, áhugi og metnaður til viðskipta vaxið jafnt og þétt, ár frá ári. Einmitt núna er hún með langan lista af pöntunum fyrir veturinn: trefla, húfur, vesti, hanska og jólaskraut. Þrátt fyrir ofsafenginn faraldur sem, satt best að segja, truflaði takt hennar, vonast Marta til að hún geti fljótlega haldið áfram að skipuleggja vinnustofur bæði fyrir börn og fullorðna, og mætt reglulega á alls kyns hátíðir víðsvegar um Zagreb og aðra bæi í Króatíu. 

„Síðasta sumar fylgdi ég ráðleggingu félaga míns og sendi eitthvað af vörum mínum (strandtöskur og húfur) til gallerís í bænum Komiža og sölur á þeim eru stöðugar. Í bænum Samobor eru nokkrar búðir sem vinna náið með fólki sem skapar handverk og ég stefni á að ganga til liðs við þau, jafnvel í vetur. En talandi um nærsamfélagið, Zagreb og aðrir bæir í Króatíu hafa síðasta árið boðið upp á hátíðir þar sem man getur boðið vörur sínar til stærri hópa viðskiptavina. Þar eru oft á milli 200-300 sýningaraðilar að selja alls kyns hluti á borð við keramik, skartgripi, saumuð verk, lituð efni, plöntur og svo framvegis. Ég tek aðallega eftir áhuga frá eldri kynslóðinni, en það er vaxandi forvitni á handverki hjá ungmennum líka.“

Mynd: Marta Raljević

Prjónað með YuStitch

Á pappír er velgengni Mörtu hennar eigin (aðallega vegna seiglu hennar og sköpunargáfu), en hún á mikið að þakka stórum fylgjendahóp YuStitchKolektiv, sem er samfélag fólks frá löndum fyrrum Júgóslavíu sem deila ást hennar á prjónaskap, hekli og, í raun, ull.

„Það var prjónari frá Serbíu sem byrjaði þennan hóp á netinu og leitaði þar að svipað þenkjandi fólki frá nágranalöndunum. Þegar hópurinn taldi um 50 meðlimi myndaðist áhugi á að skapa vettvang sem gæti verið notaður til að breyta skilgreiningunni á hvað “handverk” í raun þýðir, auk þess að draga fram kosti þessa lífstíls í umhverfinu, tískunni og svo framvegis. Úr öllum hópnum vorum við 10 (frá Berlín, Austurríki, Serbíu, Hollandi, Króatíu og Bosníu-Hersegóvínu) sem virkilega vildum halda áfram að kynna þennan “hæga lífstíl” í gegnum vefsíðu okkar og samfélagsmiðla. Við tökum viðtöl við viðskiptakonur, búum til myndbandasögur frá ýmsum hátíðum, kynnum spennandi nýja hönnuði, deilum prjóna- og hekl munstrum ókeypis, … Og við gerum það allt í sjálfboðavinnu. “

YuStitchKolektiv hefur stórar áætlanir fyrir 2022 þar sem þau eru núþegar komin langt á leið með að framleiða tískurit fyrir janúar. Það mun fjalla um einstaklinga úr félaginu, sambönd þeirra og innblástur í gegnum persónulegar sögur þeirra og reynslur. Marta er mjög spennt fyrir þessu.

Ástarkveðja frá Mörtu

Þegar Marta horfir til baka til síðustu 5 ára tekur hún eftir miklum framförum og persónulegum þroska. Aðallega í framþróun á þolinmæði og seiglu, þar sem hún lærði að trúa á eitthvað og halda því til streitu þrátt fyrir að það gæti verið erfitt. Þetta er allt gert mögulegt með ást hennar: ást hennar til sonar síns, ást hennar á skapandi vinnu, ást hennar á ull og síðast, en ekki síst, ást hennar á hekli.

„Allt sem ég geri er fallegt, nothæft og hagnýtt. Það er sagt að manneskja sé hamingjusömust þegar hún er ástfangin og ég myndi lýsa athöfninni sem hekl er sem stöðugri tilfinningu að vera ástfangin. “

Og við vonum að þú hættir því aldrei.

 

Ef þú vilt læra meira um Mörtu og Kolektiv kíktu þá á vefsíðu þeirra (yustitchkolektiv.com), ef þú hefur áhuga á nýjustu sköpunarverkum Mörtu geturðu fundið fullt af þeim á persónulegu Instagram síðu hennar: @crnaocica.

UPPSKRIFTAHORN

  1. Slétt || Knit ||Prava očica

  1. Brugðið ||Purl ||Kriva očica 

  1. Fitja upp ||Cast on ||Namicanje

  1. Fella af ||Bind off ||Završavanje

  1. Lykkja ||Stitch ||Očica  

  1. Uppskrift ||Recipe/Pattern ||Mustra/shema 

LífstíllDino Ðula