Gerum bara eitthvað gott og gerum það saman: Leikdómur um Hlið við hlið
Hvað eiga ABBA, Elvis Presley, Queen og Friðrik Dór sameiginlegt? Jú, það hafa verið gerðir söngleikir eftir lögum þeirra allra þar sem textarnir eru tvinnaðir inn í tilbúinn söguþráð. Söngleikurinn Hlið við hlið var frumsýndur í Gamla bíói þann 27. ágúst síðastliðinn. Hann er byggður á lögum tónlistarmannsins Friðriks Dórs en þau Höskuldur Þór Jónsson og Berglind Alda Ástþórsdóttir skrifuðu handritið. Sami sviðslistahópur var einnig á bak við annan vinsælan söngleik, Ðe lónlí blú bojs, sem var sýndur í Bæjarbíói í Hafnarfirði árið 2019. Hann byggðist á lögum samnefndrar hljómsveitar en þá skrifaði Höskuldur Þór handritið einsamall.
Hlið við hlið gerist á litlu íslensku sveitahóteli þar sem ungur maður, Dagur, fær sumarvinnu. Starfsfólk hótelsins er samansafn skrautlegra persóna sem hefur þekkst í áraraðir. Eftir komu Dags færast hlutirnir smám saman úr skorðum og storkar atburðarásin einkum vina- og ástarsamböndum fólksins á hótelinu.
Kristinn Óli Haraldsson, betur er þekktur sem tónlistarmaðurinn Króli, fer með hlutverk Dags og gerir það prýðisvel. Dagur er mjög stressaður ungur maður og Kristinn kemur því vel til skila. Framan af þótti mér leikurinn þó stundum fullyfirdrifinn, en eftir því sem leið á sýninguna vandist það því ýktur persónuleiki fólksins á hótelinu er stór hluti heildarmyndarinnar. Leikararnir skiluðu sínu skilmerkilega, hvort sem það var í túlkun persónanna, dansi eða söng. Þó stóð Berglind Alda upp úr í hlutverki sínu sem móttökustýran Halla, færni hennar í gamanleik er ótrúlega mikil miðað við ungan aldur, en Berglind er 22 ára. Hún kom svo líka skemmtilega á óvart í lokaatriðinu þar sem hún söng dúett með kokkinum Rikka sem Kolbeinn Sveinsson túlkar af miklum krafti og öryggi.
Sönghæfileikar leikaranna fóru ekki á milli mála enda liggur bakgrunnur hluta þeirra í tónlistinni. Agla Bríet Bárudóttir, sem fer með hlutverk borgarstúlkunnar Sísíar, er til að mynda aðalsöngkona hljómsveitarinnar Karma Brigade og Jón Svavar Jósefsson, sem leikur hótelstjórann Grím, er menntaður í klassískum óperusöng. Snorri Beck Magnússon útsetti lög Friðriks Dórs á nýja vegu fyrir sýninguna, en það var einnig áhugavert að sjá hvernig textarnir og lögin voru fléttuð inn í söguþráð handritshöfundanna Berglindar og Höskuldar. Reyndar fannst mér Kristinn fá helst til of margar ballöður í hlutverki Dags; það hefði verið í góðu lagi að fækka þeim um eina eða tvær. Hljóðkerfið í Gamla bíói var líka þannig að við sem sátum á svölunum heyrðum ekki nógu vel í söngvurunum því tónlistin barst betur upp til okkar en söngurinn sjálfur, sem var mikil synd því hann var afbragðsgóður.
Sagan sjálf er einföld ástarsaga, það eru átök og sættir, fléttur og óvæntar uppákomur en að lokum endar allt vel. Mér hefði að vísu þótt til bóta ef eitthvert paranna hefði verið hinsegin og á einum tímapunkti hélt ég að svo væri. Niðurstaðan var þó sú að pörin, sem í heildina voru um fimm, voru öll gagnkynja. Textar Friðriks voru lagaðir að framvindu sögunnar á nokkrum stöðum og það hefði verið lítið mál að auka fjölbreytileika paranna á þann hátt einhvern tímann í sýningunni. Sýnileiki hinsegin fólks hefur orðið sífellt meiri með árunum og hér hefði verið tækifæri til að brjóta upp heterónormatívu leikhúsanna.
Leikmynd Höskuldar Þórs var einföld, annars vegar móttaka, bar og veitingastaður hótelsins og hins vegar herbergi þeirra Dags og Hvata (Ingi Þór Þórhallsson) sem stóð fremst á hægri væng sviðsins. Tímalausir búningar Heklu Nínu Hafliðadóttur og gamaldags leikmyndin voru álíka látlaus og því beindist öll athygli áhorfenda að leikurunum, lögunum, gríninu og gleðinni.
Upplifun mín af sýningunni var í heildina mjög góð og þó eitt og annað hefði mátt betur fara er hér á ferðinni stórskemmtileg fjölskyldusýning.