Um nýja menntasjóðinn: Pistill frá lánasjóðsfulltrúa SHÍ
Þann 9. júní árið 2020 voru ný lög samþykkt á Alþingi. Vitaskuld er þetta ekki í frásögur færandi, enda er það meira og minna það sem gerist á Alþingi Íslands. Hinsvegar var 9. júní 2020 örlagaríkur dagur þegar stofnun, sem flokka mætti sem forngrip, var lögð niður. Lánasjóður íslenskra námsmanna varð með einu plaggi, örfáum orðaskiptum á pontu og einni undirskrift allur. Þess í stað reis Menntasjóður námsmanna og það úr ösku forvera síns að mati sumra. En markmið nýs menntasjóðs er mjög skýrt: Að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja. Nú rúmu ári frá setningu laganna góðu er tilvalið að líta til baka og spyrja sig hvort þessi Menntasjóður námsmanna sé að uppfylla markmið sitt, eða þá, hvort að einföld nafnabreyting á sömu stofnun hafi átt sér stað.
Styrkur í stað láns
Það sem grípur athygli hins góðlátlega en háværa hóps áhugafólks um námslánakerfi Íslands er vitaskuld hugtakið „styrkur“. Þetta er strax stórvægileg breyting frá fyrri námslánastofnun, þar sem styrkur er vissulega ekki það sama og lán og að mínu mati margfalt jákvæðra. Það undirstrikar þá sýn sem svo ánægjulegt var að sjá koma í umræðuna. Að menntasjóðurinn sé fremur styrkur til stúdenta frekar en lán færir okkur nær því umhverfi sem við berum okkur ætíð við á Norðurlöndunum. Þar með er fremur hugsað um námsferil sem fjárfestingu ríkisins í stúdentum frekar en kaup sömu stúdenta á framfærslu til náms. En hvernig er markmiði Menntasjóðs námsmanna um styrk til náms hrint í framkvæmd? Jú, í úthlutunarreglum sjóðsins má finna skilyrðin.
Í núverandi reglum kemur fram að ljúki námsmaður prófgráðu á tilsettum tíma eigi hann rétt á námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu á höfuðstól námslána skuldarinnar ásamt verðbótum á þeim degi sem skuldabréf er fært til innheimtu. Þetta er algjör lánahugtakalangloka en þetta þýðir í rauninni að ljúki stúdent námi á tilsettum tíma eigi sá sami rétt á að draga 30% af því sem skuldað er frá við lok náms. Þetta er vissulega mjög gott skref í átt að styrktarkerfi námsfólks. Hinsvegar voru aðrir þættir sem gáfu eftir þess í stað. Vaxtaþakið var til að mynda hækkað úr föstu 1% upp í 4% fyrir verðtryggð lán og 9% fyrir óverðtryggð lán. Fyrir lántaka þýðir þetta að það er dýrara að taka (eða réttara sagt: kaupa) lán við hærri vexti.
Önnur stór breyting sem aðskilur fyrrum lánasjóð frá hinum nýja er barnastyrkurinn. Lántakar með eitt eða fleiri börn á framfæri eiga rétt á framfærslustyrk. Þetta er mjög nauðsynlegt skref fyrir þau foreldri sem stunda nám. Stúdentaráð hefur í kröfum sínum bent á að barnastyrkurinn er aðeins aðgengilegur þeim foreldrum sem taka lán hjá sjóðnum. Það er nefnilega svo að foreldrar í námi verða fyrir auknum útgjöldum sem barnlausir nemendur þurfa ekki að sjá fyrir. Því væri unnt að foreldrar í námi fengju téðan styrk án þess að þurfa að taka lán fyrir honum.
Skipti á úrræðum
Það er ekki hægt að halda því fram að Menntasjóður námsmanna sé einfaldlega verri útgáfa af Lánasjóði íslenskra námsmanna. Á sama tíma er Menntasjóðurinn langt frá því að vera fullkominn. Breytingar sem þörf var á í lánasjóðskerfinu náðu í gegn, en þó á kostnað annarra úrræða. Það er því nauðsynlegt að berjast áfram fyrir námslánakerfi sem þjónar stúdentum betur. Á komandi kjörtímabili þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð hefur verið mun eiga sér stað gullið tækifæri til að heildarendurskoða menntasjóðinn. Við ætlum svo sannarlega að hafa hátt og láta í okkur heyra, svo að áfram megi bæta námslánin í hag allra nemenda.
Hérna voru tekin fyrir tvö dæmi um nýjung sem á að skilja Menntasjóðinn frá forvera sínum. En lánasjóðskerfið er flókið fyrirbæri og reynist oft frumskógur reglna og skilyrða sem geta valdið óþægindum fyrir bæði tilvonandi sem og núverandi lántaka. Þess vegna er ég til staðar, sem lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ykkur er ávallt velkomið að heyra í mér með spurningar og koma til mín með vafamál. Ég get ekki lofað því að koma á laggirnar nýrri lánasjóðs- stofnun með sama hætti og Alþingi, en get þó aðstoðað ykkur við að finna út úr þeirri stofnun sem er nú til staðar.