Ný viðbygging: Gamla Garðs Saga fyrstu stúdentagarðanna dýpkar

1934.Gamli.gardur.jpg

Það lítur bara vel út með lífið hér á Garði,

Þótt langt sé enn ei starfið né dvölin okkar hér.

Oss fór að þykja vænt um hann fyr en nokkurn varði

og finnst hann vera huggulegur, - sem hann líka er.

(Úr Lífið á Garði eftir Ragnar Jóhannesson, birt í Stúdentablaðinu 1935).


Alla tíð hafa stúdentar beitt sér fyrir byggingu stúdentagarða. Árið 1934 reis fyrsti garðurinn sem fékk heitið Gamli Garður og var teiknaður af Sigurði Guðmundssyni húsameistara ríkisins. Í dag, 87 árum og fjölmörgum stúdentagörðum síðar, hefur hið sögufræga hús fengið glæsilega viðbyggingu sem komandi kynslóðir mega fagna. Þann 14. október síðastliðinn var ný viðbygging hússins vígð og nýr kafli í sögu Gamla garðs þar með hafinn.


Lúxusgarðar hernumdir 

Bygging Gamla Garðs hófst árið 1930 fyrir frjáls framlög ýmissa aðila og er skemmtilegt að segja frá því að hver sá sem lagði til fékk að nefna eitt svefnherbergi fyrir. Öll svefnherbergin bera því heiti og má þar nefna Ísafjörð, Brjánslæk, Siglufjörð, Akureyri og fleiri staði. Á sínum tíma þótti Gamli Garður sérlega íburðarmikill, með handlaugar í hverju herbergi sem var mikill lúxus. Með tilkomu garðsins breyttust hagir nemenda verulega því auk svefnherbergja var þar samkomusalur og mötuneyti. 

Þegar breska hernámsliðið gekk hér á land í heimsstyrjöldinni síðari sló það upp tjöldum á háskólasvæðinu. Gamli Garður var meðal þeirra bygginga sem teknar voru hernámi í byrjun stríðs og var hann ekki látinn af hendi fyrr en í stríðslok. Háskólayfirvöld, stúdentar, fréttamiðlar og stjórnvöld gagnrýndu herinn harðlega og báðu um að byggingunni yrði skilað en allt kom fyrir ekki, Gamli Garður þjónaði sem hersjúkrahús. 

Ófremdarástand skapaðist í Aðalbyggingunni enda hírðist þar fjöldi stúdenta við slæmar aðstæður og varð hernám Gamla Garðs til þess að flýtt var fyrir ákvörðun um byggingu nýs garðs. Leit Nýi Garður því dagsins ljós árið 1943 og við tók jöfn og þétt uppbygging stúdentagarða sem sameinaðist loks undir stjórn Félagsstofnunar stúdenta. 

Mynd: Félagsstofnun Stúdenta

Mynd: Félagsstofnun Stúdenta

Ósætti varðandi hönnun 

Borgarráð Reykjavíkur hélt hönnunarsamkeppni fyrir viðbyggingu Gamla Garðs en ósætti skapaðist vegna vinningstillögunnar. Vorið 2017 var tilkynnt að Ydda arkitektar og Dagný Design höfðu farið með sigur af hólmi í keppninni en tillagan mætti harðri gagnrýni því skyggja þótti um of á gömlu bygginguna. Meðal þeirra sem gagnrýndu tillöguna voru Minjastofnun, Húsfriðunarnefnd og Háskólaráð og var því ákveðið haustið 2017 að staldra við og endurskoða verkefnið. 

Stúdentaráð mótmælti því að viðbyggingunni yrði frestað og kvörtuðu undan húsnæðisvanda, enda eru biðlistar eftir stúdentaíbúðum óralangir. Árið 2019 tilkynnti svo borgarráðið að tillaga Andrúms arkitekta, sem hafnaði í öðru sæti í hönnunarsamkeppninni, yrði aðlöguð og valin. 

Hönnun Andrúms arkitekta gerir ráð fyrir að viðbygging Gamla Garðs falli vel að núverandi byggingum háskóskólasvæðisins sem og Þjóðminjasafni. Í greinargerð þeirra segir: „Í því sambandi skiptir mestu máli að álmurnar tvær með herbergjum nemenda liggja samsíða meginálmu Gamla Garðs og Þjóðminjasafnsins og styrkja með því þá formheild og hrynjandi sem einkennir þessar tvær byggingar í götumynd Hringbrautar.“ 

Nú, tveimur árum eftir að byggingaframkvæmdir hófust, hefur viðbygging Gamla Garðs loks verið vígð. Við stúdentagarðinn bætast tvær þriggja hæða viðbyggingar með tengigangi og kjallara. Þá eru 69 ný herbergi með sér salernum, sameiginleg eldhúsaðstaða, setustofur, samkomusalur, geymslur og þvottaaðstaða. 

Rýmið er hreinast sagt glæsilegt með nýmóðins, skandinavískri innanhússhönnun og mega þeir stúdentar sem þar fá pláss telja sig heppna.