„Minningar geta verið huggun eða hryllingur“ Viðtal við metsöluhöfundinn Saša Stanišic
Þýðing: Snædís Björnsdóttir
Dagana 8.-11. september flykktust bókaunnendur og heimsþekktir rithöfundar á Bókmenntahátíð í Reykjavík þar sem tekist var á við hin ýmsu viðfangsefni skáldskapar, svo sem stríð og frið, minningar og pólitík, umhverfismál, vísindaskáldskap og húmor. Fjöldi stjarna skein skært á hátíðinni sem var formlega sett með opnunarávarpi Barböru Demick og náði hápunkti sínum með fyrirlestri Chimamöndu Ngozi Adichie og verðlaunaafhendingu Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness sem metsöluhöfundurinn Elif Shafak hlaut þetta árið. Hátíðinni lauk með pompi og prakt á Bókaballi í Iðnó þar sem gestum hátíðarinnar var boðið upp í dans með sínum uppáhalds höfundum og djammað var fram á rauðanótt.
Meðal hinna mörgu rithöfunda, fræðifólks og ljóðskálda sem mættu á Bókmenntahátíð í Reykjavík þetta árið var Saša Stanišic, höfundur metsölubókanna Wie der Soldat das Grammofon repariert (2006; gefin út í íslenskri þýðing undir titlinum Hermaður gerir við grammafón) og Herkunft (2019; gefin út í íslenskri þýðingu undir titlinum Uppruni) sem hann hlaut þýsku bókmenntaverðlaunin fyrir. Bækur Stanišics hafa hlotið mikið lof og hafa verið þýddar yfir á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku.
Stanišic fæddist í borginni Višegrad í Bosníu-Hersegóvínu og á bosníska móður og serbneskan föður. Vorið 1992, þegar Stanišić var fjórtán ára, flúði hann Bosníustríðið ásamt fjölskyldu sinni og settist að í Þýskalandi þar sem hann hefur verið búsettur síðan. Í verkum sínum hefur Stanišić skrifað um minningar sínar af Bosníustríðinu og reynslu fjölskyldunnar af flóttanum og komunni til Þýskalands.
Við hittum Saša Stanišić á meðan á hátíðinni stóð og fengum að leggja fyrir hann nokkrar spurningar um rithöfundaferilinn og mörkin á milli skáldskapar og veruleika. Stanišić er brosmildur og léttur í bragði og þegar við hittum hann á hátíðinni var hann iðulega umkringdur aðdáendum og niðursokkinn í líflegar samræður um allt milli himins og jarðar.
Hvað varð til þess að þú gerðist rithöfundur? Gætirðu sagt okkur aðeins frá því hvernig - eða af hverju - þú byrjaðir að skrifa?
Ég var – líkt og margir rithöfundar – óðfús lesandi í gegnum barnæsku mína og ungdóm. Sögur gáfu mér mikið, og á einhverjum tímapunkti á unga aldri fór ég sjálfur að segja sögur og hef ekki hætt því síðan þá.
Nú þegar þú ert orðinn metsöluhöfundur, finnur þú fyrir aukinni pressu að skrifa? Hefur frægðin haft áhrif á það hvernig þú nálgast skrifin?
Sem betur fer er bókaormurinn í mér ennþá jafn sprækur og hann var þegar ég var barn og ég er alltaf jafn áhugasamur um að skapa ný orð, nýja heima, nýjar krókaleiðir um skáldskapinn. Vissulega fylgir starfinu þrýstingur af hversdagslegum toga, þegar kemur að því að ljúka verkefni – sem stúdentar eigið þið sama fjandvin og ég: skilafrestinn!
Skáldsögur þínar eru að hluta til sjálfsævisögulegar, og þú hefur fjallað þó nokkuð um minningar þínar og fjölskyldu þinnar og um upplifun ykkar af Bosníustríðinu og komunni til Þýskalands. Hvar liggja mörkin á milli skáldskapar og veruleika í þínum huga? Hverjir eru kostirnir eða lestirnir við það að skrifa á svo persónulegan hátt?
Að skrifa texta sem svipar svo mjög til eigin ævisögu krefst mun meiri aga heldur en það þegar hægt er að leyfa sér að reika frjáls um ímyndunaraflið og sköpunina. Með aga á ég við lauslegar „reglur“ sem segja til um það hvort eitthvað sé of persónulegt til þess að skrifa um það og hvað gæti verið ósanngjarnt gagnvart lesandanum í því þegar ég breyti staðreyndum til þess að gera þær læsilegri. Einnig hvað gæti verið of mikill siðferðisboðskapur þegar ég vef mína eigin ævisögu inn í skrifin og mála um leið upp ákveðinn reynsluheim og varpa þannig ljósi á pólitíska og samfélagslega þætti.
Í hreinum skáldskap eru engar reglur, að minnsta kosti ekki í mínum huga. Svo rannsóknarvinnan, ferli ímyndunarinnar og skrifin sjálf eiga það til að virka meira eins og tölvuleikur í opnum heimi; þú getur reikað frjálst um tungumálið og þarft einungis að gæta þess að þegar komið er á leiðarenda standir þú uppi með góða sögu.
Þú skrifar mikið um minningar og tengsl tungumáls, staðar og minninga. Gætir þú sagt okkur frá því í stuttu máli hvaða þýðingu minnið - og skrif um skáldskap og minningar - hefur fyrir þig?
Minningar eru það sem við byggjum líf okkar á - sér í lagi þegar við förum að eldast. Þær eru grundvallareiginleiki okkar, ótta okkar, ástar okkar og þess að elska, gleði okkar og jafnvel þrár okkar. Þær geta verið huggun eða hryllingur. Þær geta hjálpað okkur að vaxa eða hindrað okkur í því. Þær eru vitorðsmenn okkar og byrði. Og svo margt fleira. Þegar ég skrifa út frá eigin minningum neyði ég sjálfan mig til að „díla við þetta,“ takast á við það sem var, til þess að geta betur skilið hver ég er í dag. Og það sem meira er, að uppgötva búta úr fortíð minni sem eru þess virði að þeim sé deilt með öðrum og þeir endursagðir: ekki vegna þess að ég telji þá eina og sér „þess virði“ að frá þeim sé sagt, heldur af því að ég finn oft hluti innra með mér sem eru „stærri en mitt eigið líf“ - eitthvað sem ég myndi vilja vita hvernig aðrir upplifa. Að breyta minningum í sögur sem hægt er að deila með öðrum er ákveðið samskiptaform og ævisagan er mjög verðmætur gjaldmiðill.
Þú skrifar skáldsögur þínar á þýsku. Var það ákvörðun sem þú þurftir að taka á einhverjum tímapunkti, eða lá það alltaf fyrir? Kom það einhvern tíman til greina að skrifa á bosnísku eða serbnesku?
Þýskan mín er, kalt á litið, það tungumál sem ég kann best. Fyrir mig sem rithöfund er þýska það verkfæri sem ég þarf á að halda til að skapa besta mögulega textann á hverri stundu.
Þú ert með gráðu í bæði slavneskum fræðum og þýsku - finnst þér að þær námsgreinar sem þú lagðir stund á í háskóla hafi haft áhrif á skrifin þín, og ef svo er, á hvaða hátt?
Ég las mikið af rússneskum bókmenntum á meðan ég var í námi og það hjálpaði mér án nokkurs vafa að tileinka mér skáldskap á fagurfræðilegan hátt, og það sama má segja um nokkra þýska rithöfunda sem ég kynntist fyrst í náminu. Svo, já, það var einhver skapandi núningur sem átti sér stað, og jafnvel þó að ég ég trúi því að ég hafi fundið og skapað mér minn eigin stíl, þá er ég sannfærður um að það hafi hjálpað mér og verið nærandi fyrir mig sem rithöfund að vita „hvaða aðrir möguleikar væru í boði“.
Ég veit að þú hefur verið gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík áður. Áttu einhverjar skemmtilegar sögur af hátíðinni sem þú myndir vilja deila með okkur? Kynntistu einhverjum höfundum eða skáldsögum á hátíðinni sem þú þekktir ekki fyrir? Var eitthvað sérstakt sem kom þér á óvart?
Ef ég mætti ráða þá myndi ég bjóða sjálfum mér á Bókmenntahátíð í Reykjavík í hvert sinn sem hún er haldin. Ég hef ferðast um gjörvallan heiminn með bækurnar mínar, en hvergi annars staðar hef verið jafn hugfanginn, hef skemmt mér jafn vel og hef þurft að takast á við bæði vitsmunalegar (sem og fótboltalegar) áskoranir og hér. [Sasa spilaði með fótboltaliði höfunda á móti útgefendum á Bókmenntahátíð] Sögurnar, þær eru margar. Sumar hverjar ætti aldrei að segja! Þær bestu!
Áttu nokkur ráð fyrir stúdenta og ungskáld sem eru að stíga sín fyrstu skref í skrifum og útgáfu?
Lestu, lestu, lestu. Rannsakaðu, rannsakaðu, rannsakaðu. Taktu þér þinn tíma. Skrifaðu, skrifaðu, skrifaðu. (Og vertu viss um að hafa plan B því varla nokkur getur lifað á skrifum einum saman).