Út fyrir landsteinana: Háskólanám á tímum heimsfaraldurs

Þýðing: Melkorka Gunborg Briansdóttir

Í tæp tvö ár hafa háskólanemar út um allan heim mætt nýjum áskorunum í kjölfar heimsfaraldursins; breyttu námsfyrirkomulagi, félagslegri einangrun, andlegum þyngslum og óvissu. Til að setja reynslu íslenskra háskólanema í alþjóðlegt samhengi tók blaðamaður Stúdentablaðsins tvo nema tali, en þau stunda háskólanám sitt í hvorri heimsálfunni. 

Mynd: Amy Patel

Mynd: Amy Patel

Mynd: Ira Deshmukh

Mynd: Ira Deshmukh

Kuhelika Bisht

Indland

Mannfræði

The Symbiosis School for Liberal Arts

Junaid Hameed

Bretland

Læknisfræði

University of Oxford

Hvernig hefur heimsfaraldurinn haft áhrif á háskólaupplifunina ykkar?

JH: Persónulega fannst mér það að verja miklum tíma við vinnu í tölvunni í herberginu mínu gjörsamlega eyðileggja aðgreininguna milli vinnu og afslöppunar. Vinnan við námið var ekki jafn fullnægjandi og áður, ólíkt því þegar ég gat sótt fyrirlestra og kennt tíma. Dagana skorti allt skipulag, sem mér fannst magna upp óræðan kvíða og stress í kringum námið. Ég var þó heppinn að geta stunda námið heiman frá, hafði bæði þægilega aðstöðu og fullnægjandi tæknibúnað til þess.

KB: Í náminu mínu þurfum við að gera margar etnógrafíur, en vegna faraldursins neyddumst við til að kanna möguleika rafrænna etnógrafía. Vegna þess hve fólk er orðið vant því að nota fjarskiptabúnað gátum við skipulagt viðtöl við þátttakendur sem voru staddir í mikilli fjarlægð, jafnvel í Svíþjóð. Það hefur verið áskorun að vinna heima en vera samt afkastamikil. Heima eru mun fleiri truflanir sem þarf að útiloka, sérstaklega þar sem ég bý með þremur öðrum fjölskyldumeðlimum í íbúð þar sem herbergin eru nálægt hvert öðru. Jafnvel án þeirra truflana upplifði ég daga þar sem ég gat ekki fengið sjálfa mig til að vinna, eftir því sem aðgreining vinnu og heimilislífs varð sífellt óljósari og það varð erfiðara að skipta um gír. Þessar áskoranir fengu mig þó til að þroskast eftir því sem ég uppgötvaði ráð sem virkuðu fyrir mig, til dæmis vettvanginn Study Stream, að hafa lærdómsfélaga með mér á Zoom eða jafnvel að hafa kveikt á myndavélinni í tímum - bara til þess að axla svolitla ábyrgð. Ég hef alveg örugglega orðið betri nemandi, því ég held að útgöngubönn geri mann harkalega meðvitaðan um það hve langur dagurinn er, og hve marga klukkutíma ég get nýtt mér.

Hver eru almenn áhrif heimsfaraldursins á andlega líðan nemenda að ykkar mati? 

JH: Heimsfaraldurinn hefur óneitanlega haft neikvæð áhrif á andlega líðan nemenda við Oxford. Aðgengi nemenda að stuðningi á vegum háskólans (til dæmis sálfræðiráðgjöf) var takmarkað sökum langra biðlista. Það var nemendum mikil áskorun að aðlagast fjarnámi en viðhalda um leið sama námsárangri og áður, auk þess sem þeir óttuðust sífellt um að þurfa skyndilega að einangra sig og missa tengsl við vini sína, upplifðu gremju í garð annarra nemenda sem vanvirtu reglur og takmarkanir, stress varðandi refsiaðgerðir háskólans og húsnæðisvandræði. Svo virðist sem faraldrinum hafi fylgt ýmis siðferðileg álitamál sem juku ekki bara á fjarlægðina milli nemenda og starfsfólks, heldur einnig nemenda á milli.

KB: Það var upplifun flestra nemenda í kringum mig að háskólinn hefði aukið vinnuálagið eftir að faraldurinn hófst, kannski vegna þess að þau gerðu þau ráð fyrir því að við hefðum meiri frítíma þar sem við stunduðum námið heiman frá. Þetta var erfitt, í fyrsta lagi vegna þess að margir nemendur og fjölskyldumeðlimir þeirra urðu veikir af COVID. Aprílmánuður á þessu ári var sérstaklega hryllilegur tími, hámark annarrar bylgjunnar en líka tímabil lokaprófa. Við fengum dánarfregnir af ættingjum og sáum myndir af yfirfullum líkbrennslustöðum á öllum samfélagsmiðlum, en þurftum um leið að móta samhangandi rökleiðslur í ritgerðunum okkar. Í öðru lagi hafði faraldurinn áberandi áhrif á andlega heilsu nemenda sem búa við óöruggar heimilisaðstæður eða glíma við þunglyndi.

Til hvaða ráða hafið þið gripið til að gera þetta tímabil bærilegra? Getið þið deilt ráðum með öðrum háskólanemum í svipaðri stöðu?

JH: Það sem hjálpaði mér mest var að tala við aðra. Að skilja að þú sért ekki eitt í því sem þú ert að upplifa dregur úr einmanaleika og minnkar stundum samviskubitið yfir því að leggja ekki eins hart að þér og þú ,,ættir“ að vera að gera. Ef þörf krefur eiga nemendur heldur alls ekki að vera feimnir við að leita til fulltrúa nemenda og koma skoðunum sínum á framfæri við skólayfirvöld. Það er algengt að nemendur upplifi sig valdalausa, en það á að vera vettvangur til staðar sem tryggir að ákvarðanir og stefnumótun háskólans taki skoðanir nemenda með í reikninginn. 

KB: Ég fór að hlaupa, sem hefur reynst frábær leið til að auka endorfínframleiðsluna. Stundum hleyp ég bara í 15-20 mínútur, rétt svo til að fá hjartað til að slá hraðar. Ég hlusta oft á hlaupaleiðsagnir í Nike Running Club-appinu eða á hlaðvörp þar sem ég þarf ekki að fylgjast grannt með (Off Menu er í sérstöku uppáhaldi). Ég hef líka byrjað að lesa aftur, ekki sjálfshjálparbækur samt, heldur Hitchhiker's Guide to the Galaxy-seríu Douglas Adams. Á undarlegan hátt fannst mér einfaldar sögurnar og myndrænar lýsingar á vetrarbrautinni huggandi, og ég leita gjarnan í þær þegar það þyrmir yfir mig.

Hvernig hafa háskólarnir ykkar brugðist við þörfum nemenda á tímum faraldursins?

JH: Það hefur verið yfirþyrmandi að fylgjast með háskólanum breyta stöðugt fyrirkomulagi sínu varðandi kennslu, próf og stuðning við nemendur í takt við breytingar á eðli heimsfaraldursins. Prófafyrirkomulagið var umdeildast. Nemendur vildu prófaferli sem tæki tillit til þeirra fordæmalausu áskorana sem þeir hafa þurft að takast á við á meðan háskólinn lagði áherslu á að standa vörð um akademísk gæðaviðmið sín. Það var tilfinning nemenda að háskólinn legði áherslu á að halda hlutum eins ,,eðlilegum“ og hægt var í stað þess að koma til móts við þarfir nemenda. 

KB: Í upphafi útgöngubannsins jókst námsálagið mjög mikið, en háskólinn hlustaði þó á skoðanir nemenda. Núna, tveimur önnum síðar, erum við á betri stað. Ég er þakklát fyrir það að nemendur geti komið áhyggjum sínum á framfæri og átt von á sanngjarnri lausn. Margir vina minna í öðrum háskólum hafa ekki fengið að upplifa þetta, því þar er ekkert rými fyrir umræðu.

Junaid, hvernig finnst þér stjórnvöld hafa brugðist við þörfum stúdenta og/eða ungs fólks í faraldrinum?

JH: Að mínu mati er COVID-19 nýlegasta og umbúðalausasta dæmið um vanhæfni, spillingu og siðferðilegt gjaldþrot bresku ríkisstjórnarinnar. Svo virðist sem aðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldrinum hafi sett hagsmuni pólitísku elítunnar og auðugra fyrirtækjaeigenda í fyrsta sæti í stað þess að sækjast eftir því að hámarka lífsgæði fólks í landinu. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa jafnvel brotið í bága við álit sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins. Það er ríkjandi upplifun fólks í Bretlandi að ungt fólk njóti ekki stuðnings né hafi rödd þegar kemur að ákvarðanatöku yfirvalda.

Hverjar eru væntingar þínar til komandi skólaárs, Kuhelika?

KB: Þetta er lokaárið mitt, svo það verður erilsamt. Ég mun skila lokaritgerð og öðrum verkefnum og undirbúa umsóknir fyrir meistaranám. Ég vil ekki búa mér of miklar væntingar til þessa árs þar sem við gætum verið á barmi þriðju bylgjunnar. Það eina sem ég get er að halda mér upptekinni í dag, morgundagurinn er vandamál Kuheliku framtíðarinnar.