Kosningaloforð sem gengu ekki eftir á síðasta kjörtímabili

40Artboard 1.png

Ætla má að faraldur kórónaveirunnar hafi sett fyrri forgangsröðun úr skorðum, en hér að neðan verður farið yfir nokkur kosningaloforð einstakra flokka sem gefin voru fyrir alþingiskosningar 2017 sem að gengu ekki eftir. Flokkarnir sem mynduðu ríkisstjórn 2017-2021 voru Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn. Nokkur þeirra mála sem hafði verið lofað og mikið fór fyrir í fjölmiðlum og samfélagslegri umræðu voru stofnun hálendisþjóðgarðs, uppbygging hjúkrunarrýma, móttaka fleiri flóttamanna, endurskoðun stjórnarskrárinnar, úrbætur í meðferð kynferðisbrota ásamt fleiri málum. Í ágúst 2021 var 73% aðgerða lokið, það er 138 aðgerðum af 189 sem komu fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á tímabilinu 2017-2021.

Ein af kosningaáherslum Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2017 var að veita námsmönnum styrk til náms að norrænni fyrirmynd. Þá átti að styrkja námsmenn hér á landi um 65.000 krónur á mánuði. Í lögum um Menntasjóð námsmanna sem tóku gildi 26. júní 2020 er hvergi minnst á hið fyrirhugaða námsstyrkjakerfi og einu styrkirnir sem standa námsmönnum til boða nú eru niðurfelling á hluta námslána við námslok og styrkur vegna framfærslu barna. Ekkert bólar á hinum lofaða styrk til námsmanna í þeim lögum. Það má þó nefna að á kjörtímabilinu var lögfest að fella niður 30% af höfuðstól láns ljúki námsmaður námi á réttum tíma. Ástæða þess að norræna styrkjakerfið var ekki tekið upp var að niðurfelling hluta höfuðstóls er hvatning til nema um að ílengjast ekki í námi, en það segir sig sjálft að þessi styrkur kemur einungis þeim nemum sem taka námslán að gagni. 

Vinstri græn vildu leggja áherslu á að taka á móti fleiri flóttamönnum. Þá átti að bæta aðstæður hælisleitenda og kvótaflóttamanna og fara eftir ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Því miður er staðan sú að mikið rúm er til úrbóta þegar að kemur að aðstæðum sem hælisleitendum og flóttamönnum er boðið upp á. Samkvæmt Hagstofu Íslands bárust 731 nýjar umsóknir um hæli árið 2018, 247 fengu það en 484 var brottvísað. Árið 2019 bárust 813 umsóknir, 345 var vísað á brott. Árið 2020 var ekki tekið á móti neinum flóttamönnum. Þrátt fyrir hærra hlutfall samþykktra umsókna 2019 samanborið við 2018 má ástæðu þess rekja til fjölda umsókna frá ríkisborgurum Venesúela, en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf það út að fólk þaðan væri í mikilli þörf fyrir vernd. Ekki tókst að taka á móti fleiri flóttamönnum á þessu kjörtímabili og óljóst er hvernig móttaka flóttamanna muni þróast á næsta kjörtímabili.

Í kafla um velferðarmál í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis kemur fram að áhersla skuli vera lögð á góða og og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Það verður að teljast huglægt mat hvað slík meðhöndlun felur í sér en stofnunin sem annast umsóknir um alþjóðlega vernd, Útlendingastofnun, hefur hlotið mikla gagnrýni undanfarið fyrir seinagang og silaleg vinnubrögð. Útlendingastofnun hefur einnig verið sökuð um ómannúðlega stefnu í brottflutningi umsækjenda um alþjóðlega vernd og að hún taki ekki tillit til né skoði allar hliðar mála og aðstæðna í þeim löndum sem umsækjendur eru sendir til frá Íslandi. Stjórnendur Útlendingastofnunar hafa í að minnsta kosti einu máli fengið að njóta vafans um hvort að aðgerðir þeirra hafi verið löglegar.

Ljóst er að mörg mál voru lofuð upp í ermi ríkisstjórnarinnar og það verður gríðarlega mikilvægt fyrir nýja ríkisstjórn að standa við orð sín, sér í lagi í þessum mikilvægu flokkum sem hér hafa verið taldir upp. Það myndi auka traust á stjórnvöld, og einstaka stjórnmálamenn, ef að kosningaloforð væru ekki notuð til þess að lokka kjósendur til sín, heldur staðið væri við loforðin.