Jafnréttismál í stjórnmálum: Viðtal við Sóleyju Tómasdóttur
Sóley Tómasdóttir, uppeldis-, kynja- og fjölbreytileikafræðingur og femínisti, er fyrrum oddviti Vinstri Grænna og var einnig forseti borgarstjórnar um nokkurt skeið. Hún hefur í áraraðir verið áberandi í samfélagsumræðunni um femínisma og jafnréttismál, og finnst stjórnmálafólk enn eiga langt í land með að taka raunverulega á kynbundnu ofbeldi og tileinka sér feminíska hugmyndafræði í stjórnmálum.
Sóley segist oft hafa heyrt að hún sé með jafnréttismál á heilanum, og að svo margt annað skipti máli en kynjajafnrétti, en að hún hafi aldrei almennilega ráðið við ástríðu sína fyrir málaflokknum.
Ég held að ég hafi verið tíu ára þegar ég labbaði inn á Hótel Vík og skráði mig í Kvennalistann sem þá var. Seinna meir tvístraðist Kvennalistinn í Vinstri Græna og Samfylkinguna, og ég varð að pólitískum munaðarleysingja.
Við stofnun femínistafélagsins upp úr aldamótunum 2000 segist Sóley hafa ákveðið að gefa fjórflokknum tækifæri, og fannst Vinstri Græn hafa mestan möguleika á að knýja fram raunverulegar breytingar í jafnréttismálum.
Þau voru mjög ánægð með að fá konu sem hefði svona skýra og beitta sýn í jafnréttismálum, en alveg frá upphafi var stöðugt reynt að ala mig upp – ef ég ætlaði að verða alvöru pólitíkus yrði ég að tala um stóru málin; orkumál, efnahagsmál og menntamál, ekki jaðarmál eins og jafnréttismálin eru. Í öllu mínu starfi heyrði ég sífellt að ég þyrfti að breikka mig.
Á sama tíma var ég ein þeirra innan flokksins sem var að reyna að fá stjórnmálafólk til þess að breikka sig, og gera jafnréttismál að alvöru stefnumáli, en það var alltaf barátta. Þau tóku það til sín, en aldrei nema svo að það var haldin ræða um aðalmálin, svo minnst í lokin á jafnréttismál og að þau væru mikilvæg. Mér fannst alltaf skorta svolítið þessa einlægni og sannfæringu, og þannig líður mér enn varðandi stjórnmál. Ég upplifi pínu gaslýsingu í því þegar maður reynir að tala um jafnréttismál, það er alltaf verið að segja manni að slaka og bíða, og að það sé annað sem skiptir meira máli. Mér fannst hlutverk mitt innan Vinstri Grænna vera varan sem talar um jafnréttismál, sem hitt fólkið gat svo hvítþvegið sig af, og haldið fylginu. Ég held að það sé ennþá talsverður ótti varðandi það að tala um óvinsæla umræðuefnið femínisma, enda sjáum við skýrt þá holskeflu af andstöðu sem konur mæta á internetinu þegar þær hafa hátt.
Við ræddum þau tímamót sem leiddu til þess að við gengum til kosninga árið 2017, en leynd aðkoma föður þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, að uppreist æru dæmds kynferðisbrotamanns komst upp, þing var rofið, og boðað var til kosninga. Í kjölfar þessarar atburðarásar varð bylting á samfélagsmiðlum. Henni var hrundið af stað af þolendum og aktívistum sem vildu ekki þegja lengur yfir því karllæga kerfi sem verndar ofbeldismenn og hunsar þolendur. Undir myllumerkinu #höfumhátt deildi fólk – konur í miklum meirihluta – reynslusögum sínum af kynferðisofbeldi.
Þarna á sér stað risastór skandall og raunverulegt stjórnmálahneyksli, en svo sjáum við að kosningabaráttan hefst og hún snýst ekkert um þessi mál – það þarf ekkert að laga, það er ekkert í okkar menningu eða vinnubrögðum sem þarf að breyta, og stjórnmálafólk heldur sig við sín viðteknu viðfangsefni. Í dag er enn ein #metoo-bylgjan nýafstaðin, risastór aðgerð þar sem við erum aftur að rífa upp gömul sár. Þessu standa þolendur og aktívistar fyrir með ólýsanlega mikilli vinnu og ósérhlífni til þess að vekja athygli á því hvað vandamálið er útbreitt og kerfislægt – en stjórnmálafólk heldur bara áfram að tala um efnahagsmál og ESB eins og ekkert hafi í skorist.
Síðan 2015 hefur bylgja eftir bylgju af sögum um kynferðisofbeldi riðið yfir á samfélagsmiðlum, undir ótal myllumerkjum. #konurtala. #þöggun. #metoo. #höfumhátt. #freethenipple. Við höfum séð hvernig hallar á kvenkyns þingmenn og hvernig um þær er rætt í einrúmi. En þrátt fyrir þá vitundarvakningu sem er vissulega að eiga sér stað er afraksturinn enn sem komið er örfáar setningar í lok ræðna sem einkennast af tali um starfshópa, verkferla, og mikilvægi jafnréttismála, án þess að farið sé nánar út í efnislega þætti.
Meira að segja þegar jafnréttismál rata inn í stjórnmálaumræðuna, eins og í formannsumræðum Kastljóss um daginn þar sem Katrín Jakobsdóttir hét því í lokaræðu sinni að ræða jafnréttismál í hverjum einasta þætti sem hún mætir í, eru þau samt varla rædd. Hún fór ekkert efnislega í það sem hún vildi stefna að eða hygðist gera, og mér finnst það einkennandi fyrir stöðuna sem við erum í – fólk er búið að átta sig á því að það þarf að minnast á þetta, en engar lausnir eru boðaðar eða einu sinni ræddar.
Sóleyju finnst vanta fleiri beittar ræður frá þing- og stjórnmálafólki til þess að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi, og tekur sem dæmi eftirminnilega, feminíska ræðu Andrésar Inga, sem nú skipar 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir hönd Pírata, en hann flutti fyrrnefnda ræðu í kjölfar #freethenipple byltingarinnar.
Slíkar ræður koma yfirleitt frá ákveðnum jaðareinstaklingum, og þetta er þá viðfangsefnið sem þeir hafa ákveðið að taka fyrir í þetta skiptið. Ef önnur eins bylting hefði átt sér stað í kringum efnahagsmál, eða ef orðið hefði kvótabylting, hefðu allir þingmenn talað með þessum hætti. En Andrés var einn á þessum tímapunkti, því jafnréttismálin ná ekki inn í aðalumræðuna. Ég held að stjórnmálafólk geri sér grein fyrir því að þegar þau koma inn á þennan málaflokk eru þau ekki einungis að mæta kröfum femínista, heldur líka að vekja óánægju meðal þeirra sem skilja ekki femínisma og mikilvægi hans, og eru því að vega og meta hagsmuni sína – ætla þau að afla sér fylgi femínistanna, þó að þau missi atkvæði annarra í kjölfarið? Mér finnst þetta ótrúlegt kjarkleysi, og til marks um það að hugsjónin sé ekki raunveruleg. Ef þú ert ekki tilbúin(n/ð) til að hrista af þér gamaldags kjósendur, þá ertu ekki að fara að breyta neinu.
Til þess að gera jafnréttismál að einhverju meira en jaðarmáli í íslenskum stjórnmálum og uppræta rótgróna og karllæga hugmyndafræði þarf áframhaldandi umræðu og þrýsting. Þrýsting frá samfélaginu, umfjöllun af hálfu fjölmiðla, og raunverulegar aðgerðir frá stjórnmálaflokkum til þess að sporna gegn kynbundnu ofbeldi. Krefjumst jafnréttis og femínískra gilda í stjórnmálum. Höldum áfram að hlusta á þolendur. Höldum áfram að hafa hátt.