„Hey, gætum við staðið hlið við hlið?“ Umfjöllun um leiksýninguna Hlið við Hlið

Mynd: Stefanía Elín Linnet

Mynd: Stefanía Elín Linnet

Stúdentablaðið skellti sér á leiksýninguna Hlið við hlið sem sýnd er í Gamla bíó um þessar mundir. Hlið við hlið er annað verkefni sjálfstæðs sviðslistahóps og líkt og titill hennar gefur til kynna er sýningin samin í kringum lög þjóðþekkta listamannsins Friðriks Dórs Jónssonar, sem betur er þekktur undir nafninu Frikki Dór. Sviðslistahópurinn hefur áður sett upp sýninguna Ðe Lónlí Blú Bojs í Bæjarbíói í Hafnarfirði og hlaut sú sýning mikið lof. Við fengum að leggja nokkrar spurningar fyrir leikstjóra og höfund sýningarinnar, Höskuld Þór Jónsson. 

Sagan stendur alveg fyrir sínu

Höskuldur fékk þá flugu í höfuðið að setja upp söngleik byggða á lögum Frikka Dórs fyrir nokkrum árum þegar hann fór á tónleika með söngvaranum í Hörpu. „Þar mallaði hún og gerjaðist í einhvern tíma þar til ég ákvað að kýla á þetta,“ segir hann. Frikki Dór eigi, eins og alþjóð veit, ótrúlega mikið af góðum lögum og þegar Höskuldur fór að hugsa þetta nánar sá hann fyrir sér marga skemmtilega möguleika. „En það var vissulega krefjandi þar sem hann syngur jú mikið um ástina, eða já bara um ástina eiginlega.“ Hann telur þó að þeim hafi tekist að skapa bæði fallega og sanna sögu sem stendur fyrir sínu. 

Höskuldur segir að ferlið hafi gengið eins og í sögu. „Hópurinn var fljótur að smella vel saman og það myndaðist mjög snemma góð „kemestría“ sem skiptir miklu máli. Fyrir mína parta gekk vinnan mjög vel og við skemmtum okkur rosalega vel við að setja upp sýninguna.“ Hann segir að oftar en einu sinni hafi þau þurft að gæta sín á því að missa ekki einbeitinguna, svo mikið fjör hafi verið hjá þeim við undirbúning sýningarinnar.

Leikhópurinn fór ekki varhluta af heimsfaraldrinum og öllu því sem honum fylgdi. Það gekk þó ágætlega hjá þeim að undirbúa og setja upp sýninguna þrátt fyrir að stundum hafi reynst krefjandi að ná öllum leikhópnum saman. „Það er vissulega alltaf púsluspil að skipuleggja í kringum svona hæfileikaríkt fólk en það tekst alltaf að lokum. Það eru auðvitað forréttindi og er maður gríðarlega þakklátur fyrir hópinn sem stendur að þessari sýningu, það er ekkert betra en þegar ungt og hæfileikaríkt fólk kemur saman og fær pláss til að skapa eitthvað. Hvað þá að fá að eyða sumrinu með slíkum hóp sem vinnur saman að settu marki.“ 

Krefjandi að velja hvaða lög ættu að vera með

Við spurðum Höskuld hvort hefði komið á undan, lagavalið eða söguþráðurinn. „Ég held ég geti sagt að við höfum samið söguþráðinn út frá lögunum, en auðvitað er alltaf smá samspil sem liggur þarna,“ segir Höskuldur. „Þegar ég hóf vinnuna á þessu verki þá hlustaði ég náttúrulega lon og don á katalógin hans Frikka, pikkaði út þau lög sem mér fannst eiga vel við og skapaði svo einhvern rauðan þráð í gegnum þau.“ Sagan hafi því að mestu leyti orðið til út frá lögunum. „En líka, eins og ég kom aðeins inn á, þá var það vissulega mjög krefjandi verkefni að velja hvaða lög ættu að vera með og raða þeim svo í einhverja sögu.“ Við lagavalið hafi hann haft það í huga að sýningin yrði sem fjölbreyttust. „Ég vildi ekki að hún yrði of einhæf.“ 

Leikritið hefur fengið virkilega góðar viðtökur og segir Höskuldur hópinn vera í skýjunum yfir þeim. „Fólk virðist vera mjög ánægt með sýninguna og við erum að sjá fólk sem er að koma aftur, og það er oft og tíðum eitt besta hrós sem maður getur fengið.“ Miðasalan hefur gengið einstaklega vel og Höskuldur segist finna fyrir því að fólk sé farið að þyrsta í að komast út og sjá lifandi sýningar, „ekki bara á flötum skjá heima í stofu.“ 

Veit ekkert hvað hann er að gera en fer ávallt eftir eigin sannfæringu

Höskuldur segir að hann sé alltaf með einhverjar hugmyndir í kollinum. „Þá er bara spennandi að sjá hvað maður lætur vaða á næst.“ Þau ráð sem hann gefur ungum sviðslistarhöfundum sem eru að stíga sín fyrstu spor innan leikhússins er að hafa trú á því sem þau eru að gera: „Ef maður hefur ekki trú á verkefninu sjálfur þá mun enginn annar hafa trú á því. Svo er það auðvitað að leggja inn vinnuna,“ bætir hann við, „hún kemur heldur ekki af sjálfu sér, það er enginn að fara gera þetta fyrir mann.“ 

Mynd: Stefanía Elín Linnet

Mynd: Stefanía Elín Linnet

Umfram allt snúist þetta um að hafa gaman af því sem man er að fást við og njóta þess á meðan. „Annars er svo sem lítill tilgangur í því að gera hlutina, er það nokkuð?“ Kjörorð Höskuldar hvað þetta varðar eigi hér vel við: „Ég veit ekkert hvað ég er að gera, ég er bara að fara eftir minni eigin sannfæringu.“ Sjálfur trúir hann því að besti skólinn sé einfaldlega sá að láta á hlutina reyna. „Kasta sér út í djúpu laugina og rekast á veggina sem mæta manni, það er held ég ekkert sem kennir manni meira en að láta vaða og standa í miðjum storminum.“

Mörg úr leikhópnum eru fyrrum nemendur úr Verzlunarskóla Íslands. Aðspurður hvort það hafi verið ásetningur að kinka kolli til skólans í verkinu segist Höskuldur ekki alveg geta sagt það, en að það sé vissulega skemmtilegt hvað tengingin við Verzló sé sterk: „Litla Verzlóhjartað hefur alltaf gaman af því.“ Hann segir þó að tengingin sé fyrst og fremst komin af því að hann kynntist persónulega flestum þeim sem koma að sýningunni þegar þau voru saman í Verzló. „Áhugasömu fólki sem brennur fyrir það að gera eitthvað eins og þessa sýningu - og það mun auðvitað enginn skila verkefninu betur af sér en sá sem brennur fyrir því sem hann er að fást við.“

Ástríðan drífur verkefnið áfram

Að lokum spurðum við Höskuld hvaða ráð hann gæti gefið ungu fólki sem langaði að stofna sjálfstæðan sviðslistahóp. Hann er ekki lengi að hugsa sig um: „Að kynnast fólki sem hefur áhuga á verkefninu, og þetta á held ég við um hvað sem er. Að finna góðan hóp af fólki sem langar að vinna í átt að sama markmiði.“ Sjálfum þykir honum afar vænt um hópinn sem mótaði leiksýninguna saman. „​​Það er auðvitað rosalega gaman að líta á hóp eins og þennan sem nær svona vel saman og að mínu mati er að blómstra svona fallega.“ Hann hugsar til þess þegar hann fékk hugmyndina í kollinn fyrst: „Það hefði vissulega verið auðveldara að hugsa bara með sér ‘Já, þetta er svosem fín hugmynd’ og gera svo aldrei neitt við hana. En það sem drífur verkefni líkt og þetta áfram er ástríðan - það er hún sem skilar sýningunni á þann stað sem hún er á.“