Er orðin nörd í pólfarafræðum: Viðtal við Veru Illugadóttur
Flestir lesendur Stúdentablaðsins ættu að kannast við Veru Illugadóttur, dagskrárgerðarmann á RÚV og stjórnanda þáttanna Í ljósi sögunnar og Gáfnaljós. Í ljósi sögunnar unnu sér fljótt sess í hjörtum landsmanna og nú hlusta þúsundir á hvern þátt. Margir kannast við þættina sem hlaðvarpsþætti en þeir eiga sér heimili á Rás 1. Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti Veru til að ræða hvernig þessi sérstaða hefur áhrif á framleiðsluferli þáttanna og stöðu þeirra í þjóðlífinu.
Skrifað í skýin að hún færi að vinna í útvarpi
En hvernig hófst þetta allt saman?
Minn ferill á RÚV byrjaði sem fréttamaður en ég hef alltaf haft taug til Rásar 1 af því að pabbi minn, afi og langafi unnu þar, þannig að það var kannski skrifað í skýin að ég myndi byrja að vinna þar líka. Ég byrjaði sem fréttamaður og svo var komið til máls við mig hvort ég vildi byrja með þætti á Rás 1. Það var „konsept“ sem dagskrárstjóri Rásar 1 var búinn að búa til, að koma með sagnfræðilegan bakgrunn á málefni líðandi stundar og það hljómaði vel fyrir mér.
Þættirnir áttu þó eftir að breytast nokkuð áður en þeir fóru í loftið. Vera rakti þróun þáttanna frá fyrstu hugmynd dagskrárstjórans og þar til fyrsti þátturinn fór í loftið.
Fyrsta „konseptið“ var í raun að þættirnir væru meira eins og History Hour á BBC þar sem eru mörg stutt item (ísl. umfjöllunarefni) um sagnfræðileg málefni. Mér gafst þetta tækifæri að móta þetta að sjálfri mér af því að ég var bara ein í þessu en ef þetta hefði verið BBC hefðu verið 20 manns að vinna að þáttunum. Ég fann mjög snemma, bara í fyrsta þættinum, að það sem hentaði mér var að koma með eina langa sögu, frekar en að reyna að gera mörgu skil á stuttum tíma.
Vera minnist einnig á að hún hafi snemma ákveðið að hafa engin viðtöl í þáttunum þar sem Ísland eigi of fáa sérfræðinga í alþjóðastjórnmálum og viðtölin yrðu því fljótt einsleit ef hún þyrfti að reiða sig á sömu stjórnmálaskýrendur í hverjum þætti. Því varð úr að hún læsi handrit þáttanna sjálf en fengi aðra til að lesa upp úr ritheimildum:
Þetta eru bara samstarfsmenn mínir sem ég pikka í til að lesa. Mamma mín (leikkonan Guðrún S. Gísladóttir) hafði tekjur af því þegar hún var yngri að koma upp í útvarp og lesa inn ljóð fyrir útvarpsþætti. En núna er Ríkisútvarpið búið að skera niður þennan útgjaldalið þannig að við bara svona pikkum í samstarfsmenn okkar, og sem betur fer á ég yndislega samstarfsmenn sem eru ótrúlega hæfileikaríkir á þessu sviði.
Fékk sjúklegan áhuga á pólförum
Efnisval þáttanna hefur líklega vakið athygli glöggra hlustenda en fjöldi þátta fjallar um málefni Miðausturlanda og sögur af pólförum. Ástæður efnisvalsins eru margar en Vera segir þær helstu vera að hún hafi fengið Miðausturlandadellu frá ömmu sinni, hún er með B.A-próf í Miðausturlandafræðum, og hafi þróað með sér sjúklegan áhuga á pólfarasögum á meðan hún vann að Í ljósi sögunnar.
Ég hef áhyggjur af því að ég sé orðin dálítið mikill nörd í þessum fræðum. Ég áttaði mig á því þegar ég var að gera þættina um Suðurskautskapphlaupið að ég var komin með obsessívan“ áhuga. Ég var farin að hugsa um ástarlíf allra mannanna og þetta var bara orðið of mikið. Núna á ég þrjár bækur eftir konu sem var ástkona Friðþjófs Nansens í eitt ár. En svo langar mig heldur ekki að festast í þessu, vera bara í einhverjum hrakfarasögum. Þetta er svo karllæg saga og ég á svolítið erfitt með það en ég dregst að þessum sögum. Og ég fæ svo mismunandi viðbrögð frá fólki en ef ég geri þátt þar sem öllum er rosalega kalt eða eitthvað skip ferst þá verða allir rosalega ánægðir. Fólk er svo ánægt með þetta þannig ég reyni [að halda áfram], en það er rosalega mikið af svona sögum. Þetta er eiginlega alveg endalaust.
Þegar efnið er endalaust virðist hinum óreynda kannski auðvelt að finna efnivið í næsta þátt en Vera segir að það sé fjarri sanni. Hún er með langan lista af mögulegum umfjöllunarefnum en það er allur gangur á því hvaða efni hún velur; stundum velur hún ferskt efni en stundum sækir hún í fyrri þáttaraðir.
Ég hef áhuga á hinu og þessu en það er líka svo gott að vera með einhverja seríu í gangi því stundum fæ ég ekki neinar geggjaðar hugmyndir og get þá bara sagt: „Heyrðu, nú tek ég bara næstu hundrað árin í sögu Tyrkjaveldis. Það hlýtur að vera eitthvað til að tala um þar.“
Þar vísar hún í lengstu þáttaröðina sem fjallar um vöxt og viðgang Ottómanveldisins. Þó hafi borið á því að áheyrendum líki illa við lengri seríurnar og Vera hefur þurft að koma til móts við það.
Það eru sumir sem fíla þá og sumir segja að þetta sé það leiðinlegasta sem þeir hafa á ævinni heyrt. Eitt sem ég hef verið að reyna að sætta mig við sjálf er að af því að ég er náttúrulega með þennan þátt þegar ég er að vinna, einu sinni í viku sem er alveg dálítið mikið, og ég er að reyna að sætta mig við að hver þáttur þarf ekki að vera meistaraverk, þeir þurfa ekki allir að vera fullkomnir. Það kemur hvort eð er nýr.
Og það kemur alltaf nýr, einn á viku.
Er „nojuð“ yfir málfarinu
Hver þáttur tekur um fjóra daga í framleiðslu en framleiðsluferlið hefst jafnan á sunnudagskvöldi og lýkur þegar þátturinn fer í loftið klukkan níu á föstudagsmorgni. Fyrir hvern þátt les hún allt frá einni bók og upp í fjórar, tugi blaðagreina og annað sem þarf. Vera áætlar að þessi hluti vinnunar sé um tveir þriðju hlutar hennar.
Ég ákveð efni á sunnudegi og byrja að skrifa á mánudagsmorgni og er að „researcha“ um leið; skrifa, skrifa, skrifa. Handritið er í þróun jafnóðum en mig langar alltaf til að hafa einhvern texta fyrir framan mig svo mér finnist eins og ég sé búin að vinna eitthvað. Ég reyni að hafa handrit þáttarins tilbúið klukkan níu á fimmtudagsmorgni, og stundum er það tilbúið klukkan fjögur á miðvikudegi og þá fer ég bara að sofa eða djamma, en stundum er ég að vinna mjög seint á miðvikudögum. Klukkan níu á fimmtudögum sendi ég handritið á málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins af því að ég er rosalega nojuð yfir því að beygja eitthvað vitlaust eða gera málfarsvillur. Þau senda mér síðan yfirlesið handrit og tek ég upp þáttinn alltaf klukkan ellefu á fimmtudögum með tæknimanni. Síðan er hann tilbúinn svona klukkan þrjú. Þá er ég laus allra mála í nokkra daga.
Reynir að hafa allt ekta
Hér er þó ekki öll sagan sögð því eins og hlustendur þáttanna þekkja eru þeir oft fullir af hljóðum sem Vera hefur valið til að brjóta upp einfaldan upplesturinn. Hver þáttur inniheldur tónlist sem tengist efni hans en Vera leggur mikla áherslu á að hafa hljóðumgjörðina sem raunverulegasta.
Ef ég hef örstutta klippu af stríðshljóðum í þætti um Bosníu vil ég hafa hljóð frá Bosníustríðinu en ekki einhverju öðru.
Það er síðan tækni- og hljóðmannanna að klippa þáttinn saman. Til að byrja með stóð Vera ein í því en nú er komin festa á ferlið
Ég fæ tíma með tæknimanni og hann klárar þetta fyrir mig. Það eru rosalega góðir hljóðmenn á Ríkisútvarpinu. Ég treysti þeim algerlega þannig ég mæti bara með öll hljóðin og hljóð-effecta sem ég er búin að tína til. Svo mæti ég í stúdíó og gef þeim bara fyrirmæli í handriti, hvað þeir eiga að gera og sendi þeim tónlistina og þeir bara redda þessu fyrir mig, það er magnað hvað það vinnur gott fólk á Ríkisútvarpinu.
Vera segir það helst vefjast fyrir henni að vera bundin við 40 mínútna tímamörk en til þess að leysa úr því hefur hún tvær leiðir: fylla upp í styttri þætti með löngu útgangslagi eða brjóta þáttinn upp í tvo. Hvorugt er þó fullkomin lausn og ef hún fengi sínu framgengt hefði hún teymi í kringum sig sem aðstoðaði við framleiðsluna.
Það væri geggjað að vera með fleiri starfsmenn. Ég hef lesið um hvernig fólk vinnur í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem fólk er með svona „researchers“ og ég held að það væri magnað að upplifa það. Ég væri geggjað til í það og ég held að þátturinn væri brjálæðislega góður ef ég væri með „producer“ og „researcher“ og þyrfti ekki að gera allt sjálf.
Í millitíðinni þurfa hlustendur þáttanna að sætta sig við að þeir séu „bara“ ofboðslega góðir. Í ljósi sögunnar eru fluttir klukkan níu á föstudagsmorgnum og einnig má nálgast þá á öllum helstu streymisveitum. Stúdentablaðið hvetur lesendur til að hlusta á þættina og kynna sér aðra þætti Veru, Leðurblökuna og Gáfnaljós, sem má finna á hinum sömu streymisveitum.