Óreiða og efnahagslegur ójöfnuður
Þýðing: Hallberg Brynjar Guðmundsson
Í okkar ófullkomna samfélagi er ójöfnuður töluverður. Á seinustu árum hefur efnahagslegur ójöfnuður aukist skuggalega hratt og eðlilega hafa margir efast um réttmæti dreifingar auðsins. Nýlegar efnahagskreppur, lofslagsváin, og COVID-19 faraldurinn hafa skekið eina grunnstoð nútímasamfélagsins, þ.e. frjálsa markaðinn [1,2]. Stendur nútímasamfélagið nú frammi fyrir hinu erfiða verkefni að sigrast á efnahagslegum ójöfnuði. Meginvandinn liggur í því hvort vaxandi efnahagslegur ójöfnuður sé óhjákvæmileg afleiðing framþróunar samfélagsins og tækninýjunga eða hvort hægt sé að halda vandanum í skefjum með því að hægja á hagvexti án þess að hefta tækniþróunarstarf. Það viðhorf er ríkjandi að á hinum frjálsa markaði verði til að efnahagslegur ójöfnuður vegna náttúrulegra drifkrafta, sem breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes kallaði „dýrslega krafta,“ t.d. metnaðar, frægðar, innsæis, neysluútgjalda, samkeppni og hagnaðar. Artur Schopenhauser færði rök fyrir því að alheimurinn væri birtingarmynd óseðjandi og órökrétts afls, viljans sem birtist í öllum lífverum sem „Wille zum leben”, eða Lífsviljinn.
Þessir undirliggjandi kraftar mynda það sem Adam Smith, faðir nútímahagfræðinnar, kallaði „ósýnilegu höndina“, aðalsveiflukraft nútímasamfélags. Smith gagnrýndi samfélag síns tíma, og með því setti hann fram þá kenningu að sjálfselskir hagsmunaseggir gætu hjálpað til við framþróun samfélags. Svo vitnað sé beint í Smith: „Það er ekki væntumþykju slátrarans, bruggarans, eða bakarans að þakka að við eigum salt í grautinn, heldur eru það þeirra eiginhagsmunir sem ráða för [3].” Samkvæmt Adam Smith ræður vinnuveitandi ekki til sín fólk vegna góðmennsku sinnar, heldur vegna þess hagnaðar sem ráðning starfsfólks hefur í för með sér. Á sama hátt mætir starfskrafturinn ekki til vinnu með það að markmiði að hjálpa yfirmanni sínum heldur til að eiga fyrir lífsnauðsynjum.
Beita mætti lögmálum eðlisfræðinnar á drifkrafta hagfræðinnar til þess að búa til módel sem getur hjálpað manni að skilja þetta flókna fyrirbæri sem hagkerfið er. Raunar hefur verið sýnt fram á tengsl hagkerfisins, umbreytingarorku og óreiðu og hafa þessi tengsl umbreytt skilningi á hefðbundinni hagfræði. Á síðustu árum hefur nýtt rannsóknarsvið litið dagsins ljós innan hagfræðinnar, hageðlisfræði (e. econophysics) [4], sem sameinar hagfræði og eðlisfræði. Fræðimenn þessa sviðs líta á hina mannlegu veru sem gaskennt frumefni sem skoppar um inni í boxi. Þannig má líta á peningaskipti fyrir vörur eða þjónustu sem árekstur þessara gasfrumefna í boxinu. Í stað þess að nota stærðfræðijöfnur sem gera ráð fyrir rökhugsun einstaklingsins til að meta áætlanir er lítið á heilu samfélögin sem stór varmafræðikerfi. Þau eru skilin sem heildarbirting hagfræðilegra hvata sem bundnir eru af höftum, t.d. sparnaði sem er aftur er metinn af lögmálum varmafræðinnar og verkfærum tölfræðigreiningar. Í hageðlisfræði er dreifing hráefna sett í samhengi við hámark óreiðu, en í tölfræði er óreiða skilgreind sem mælieining mismunandi þátta sem kerfið getur verið sett upp innan. Því fleiri möguleikar, því meiri er óreiðan. Samkvæmt þessu á náttúruleg þróun sér stað þegar mögulegum útkomum fjölgar og óreiða eykst í kjölfarið.
Ef litið er til tölfræðilegrar skilgreiningar á efnahagslegri óreiðu er jöfn dreifing auðs ólíkleg. Hvað varðar skilgreiningu á jafnrétti má álykta sem svo að það sé bara ein lausn, þ.e. stæða sem gerir ráð fyrir að allir einstaklingar eigi jafn mikið af auðlindum, hins vegar á ójöfn dreifing auðs sér rætur í fleiri þáttum. Með því að hámarka óreiðuna sem fylgir dreifingu auðs með Lagrange aðferðinni komust Drăgulescu og Yakovenko að því að líkindi jafnrar skiptingar auðs má skýra með eftirfarandi reglu:
Líkurnar á peningum dreift (P(m)) eru gefnar upp með Boltzman-Gibbs dreifingunni P(m)=Ce^(-m/T) [5]. M þýðir staða á peningum gefinn stafninum, T eða peningahiti (e. Money temperature), sem samsvarar auðs fyrir hvern fulltrúa efnahags samfélagsins. C er normaliseraður fasti (constant).
Eins og við sjáum í töflu 1 lýsir Boltzman-Gibbs dreifingin ósanngjörnum heimi þar sem fjöldi fátækra er meiri en fjöldi ríkra. Nedjeljka Petric hefur haldið því fram að þegar varmafræði er notuð til þess að skoða samfélag þá helst óreiðan í hendur við frelsi einstaklingsins [6]. Ef engin lög eru til staðar til þess að vernda verkalýðinn mun kapítalistinn arðræna hann eins og unnt er, til þess að hámarka hagnað.
Það er viðtekinn skilningur að kapítalismi geti ekki brugðist vegna þess að það eina sem hann krefst er að mannskepnan fylgi eigin hagsmunum, löstum og verstu eðlisávísunum. Eins og Luigi Pirandello sagði í The Pleasure of Honesty: „við förum í gegnum lífið á þeirri skepnu sem býr innra með okkur. Þú getur tamið hana en þú getur ekki látið hana hugsa.” Öllum kommúnistastjórnum, sem reynt hafa að temja dýrið, hefur mistekist og margir trúa því að kommúnismi muni aldrei heppnast.
Þrátt fyrir að Adam Smith hafi fært rök fyrir því, í bókinni The Theory of Moral Sentiments, að eiginhagsmunasemi geti hjálpað hagkerfinu, lagði hann mikla áherslu á dyggð, skynsemi, réttlæti og velgjörðasemi. Stefna má að eins miklum hagnaði og mögulegt er en ekki má neyða starfsfólk sitt til þess að pissa í flöskur[7].
Heimildir
1. https://time.com/5956255/free-market-is-dead/
2. https://www.theguardian.com/commentisfree/2019/apr/25/capitalism-economic-system-survival-earth
3. A. Smith, An Inquiry into the Nature & Causes of the Wealth of Nations, Vol 1.
4. V. M. Yakovenko, Econophysics, Statistical Mechanics Approach to, In: Meyers R. (eds) Encyclopedia of Complexity and Systems Science. Springer, New York, NY (2009).
5. A. Drăgulescu and V.M. Yakovenko, Statistical mechanics of money, Eur. Phys. J. B 17, 723–729 (2000).
6. N. Pertic, Application of Thermodynamic theory to social events, Int. Rev. Mod. Sociol. Vol. 21 (1991, Spring).