Alþingiskosningar á mannamáli
Síðastliðna mánuði hefur flestum reynst erfitt að komast hjá hvers konar umfjöllun um Alþingiskosningarnar sem áttu sér stað 25. september síðastliðinn. Hvort heldur sem þið vöktuð langt fram á rauða kosninganótt og rýnduð í nýjustu tölur, hristuð hausinn yfir æsingnum og fóruð snemma að sofa eða sátuð á sófanum og klóruðuð ykkur í hausnum yfir þessu öllu saman, þá eru hér nokkrar spurningar og svör um kosningarnar sem öll hafa gott af að vita.
Hvað er Alþingi?
Alþingi er löggjafarþing Íslands. Það hefur aðsetur í Alþingishúsinu í miðbæ Reykjavíkur. Alþingi var fyrst stofnað á Þingvöllum árið 930, þó í allt annarri mynd en sést í dag. Í þá daga var Alþingi haldið einu sinni á ári að sumri til og þar komu saman helstu höfðingjar landsins, ræddu sameiginleg mál og settu lög. Alþingi í dag er í grunninn ekki svo ólíkt Alþingi til forna, það er helsta hlutverk þess er ennþá að ræða mál líðandi stundar og setja lög. Hins vegar er stór munur á starfsemi og ásýnd Alþingis í dag, en mun meiri fjölbreytni má sjá í röðum þingmanna og starfsemin byggir á lögmálum lýðræðis, sem þýðir að þingmenn þingsins starfa í þágu og umboði íslensku þjóðarinnar.
Hvað gerir Alþingi?
Eins og fram hefur komið er helsta hlutverk Alþingis að setja lög. Í því felst meðal annars að samþykkja ný lög, lagfæra gömul lög eða ógilda þau sem úrelt eru. Það er þó ekki eina hlutverk þingsins. Þingmenn eiga að vera fulltrúar almennings gagnvart stjórnvöldum og tjá þeim hagsmuni og hugmyndir þjóðarinnar. Þeim ber að upplýsa stjórnvöld um stöðu íbúa landsins og krefjast aðgerða í samræmi við það. Þetta gera þingmenn meðal annars með því að fara í pontu þegar Alþingi kemur saman. Líklega hefur enginn tekið þessu hlutverki eins alvarlega og Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún sat í ræðustól Alþingis í rúmar tólf klukkustundir og mótmælti frumvarpi sem hún taldi vera í óhag almennings. Alþingi hefur líka eftirlitshlutverk með stjórnvöldum og sér til þess að þau séu ábyrg gjörða sinna. Þingið getur þannig lýst yfir vantrausti á ríkisstjórn og kallað eftir nýjum Alþingiskosningum en einnig, í alvarlegustu málunum, kært ríkisstjórnir eða ráðherra fyrir brot á stjórnarskránni. Það hefur einu sinni verði dæmt í slíku máli, en það var í kjölfar hrunsins 2008 þegar Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, var dæmdur fyrir að uppfylla ekki skyldur sínar í embætti.
Hvað er ríkisstjórn?
Ráðherrar sitja í ríkisstjórn og þeir eru skipaðir í hana úr röðum þingmanna í kjölfar Alþingiskosninga. Þegar úrslit kosninganna liggja fyrir úthlutar forseti Íslands stjórnarmyndunarumboði til þess flokks sem líklegastur er til að mynda starftæka ríkisstjórn. Í langflestum tilvikum er það sá flokkur sem fékk flest sæti á þingi. Sætin eru 63 talsins og skiptast milli kjördæma nokkurn veginn í hlutfalli við íbúafjölda. Til að stjórn geti talist starftæk þurfa þeir flokkar sem eiga aðild að henni að hafa meirihluta sæta á þingi. Þetta er eina formlega skilyrðið fyrir myndun ríkisstjórnar en flokkar geta sett sínar eigin kröfur um hvers lags stjórnarsamstarf þeir eru tilbúnir að ganga í. Þetta getur flækt stjórnarmyndunarviðræður. Árið 2017 var til dæmis svo hart í ári að stjórnarmyndunarumboðið flakkaði milli nokkurra flokka og ekki tókst að mynda ríkisstjórn fyrr en tveimur og hálfum mánuði eftir kosningar.
Hvað gerir ríkisstjórn?
Ríkisstjórnin fer með framkvæmdarvald ríkisins og alla jafna, þegar vitnað er í stjórnvöld, er átt við ríkisstjórnina. Framkvæmdarvaldið gerir ríkisstjórninni kleift að innleiða lög, stefnur og áætlanir. Á Íslandi deila ráðherrar framkvæmdarvaldinu á milli sín þannig að hver og einn ráðherra hefur yfirumsjón yfir ákveðnu sviði stjórnsýslunnar. Þessi svið eru kölluð ráðuneyti og þau eru jafn misjöfn og ráðherrarnir eru margir. Þau ráðuneyti sem gjarnan teljast áhrifamest eru forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Þau ráða miklu um hvaða mál komast á dagskrá stjórnarinnar og hve miklum fjármunum er varið í þau. Þetta tvennt getur skipt sköpum, því mál sem ekki fá umfjöllun eða fjármagn ríkisstjórnarinnar komast ekki í farveg. Dæmi um mál sem komst á dagskrá stjórnvalda en strandaði svo er frumvarp um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Frumvarpið var samþykkt á þingi sumarið 2020 en þrátt fyrir að hafa verið fært í lög ber ekkert á niðurgreiðslunni sjálfri, því ekki var gert ráð fyrir henni í fjárlögum.
Hvernig virka Alþingiskosningar?
Alþingiskosningar eru að jafnaði haldnar á fjögurra ára fresti, nema þing sé rofið áður en kjörtímabilinu lýkur. Slíkt hefur gerst nokkuð oft í sögu Íslands, en nýlegasta dæmið er ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem sprakk árið 2017 eftir átta mánaða samstarf. Á Íslandi fara fram svokallaðar listakosningar þegar kosið er til Alþingis. Þá útbúa þeir stjórnmálaflokkar sem eru í framboði lista yfir frambjóðendur sína í hverju kjördæmi, sem eru alls sex á landinu. Á kjördag velja kjósendur síðan þann lista sem þeim líst best á. Þegar talningu atkvæða er lokið er þingsætum úthlutað til flokka í samræmi við fjölda atkvæða sem þeir fengu í hverju kjördæmi fyrir sig. Nokkur þingsæti eru ekki bundin kjördæmum, svokölluð uppbótarþingsæti, sem gera minni flokkum kleift að fá sæti á þingi. Þessi regla hefur nú í seinni tíð verið vel nýtt, en fjöldi flokka á þingi hefur næstum tvöfaldast frá því fyrir hrun.
Til hvers eru Alþingiskosningar?
Ein helsta undirstaða lýðræðis eru kosningar. Þær eiga að tryggja að yfirvöld og þing starfi í þágu almennings. Hér áður fyrr hafði almenningur takmarkaða möguleika á að lýsa yfir áhyggjum, ánægju eða vandræðum sínum við stjórnvöld. Þetta olli því að allt vald safnaðist fyrir hjá fámennri „valdaelítu“ sem hafði litla hvatningu til að beita því í þágu heildarinnar. Þökk sé talsverðum samfélagslegum breytingum í gegnum tíðina hefur almenningur í dag mun meiri möguleika á að láta í sér heyra. Einn mikilvægasti möguleikinn er að kjósa til Alþingis. Þau sem sitja á þingi og í ríkisstjórn móta stefnu og stjórn landsins til fjögurra ára, sem er nægur tími til að breyta því til hins betra eða til að keyra það í jörðina.