Það má alltaf gera betur
Hlutverk háskóla, hvort sem okkur líkar betur eða verr, markast að einhverju leyti af því að undirbúa nemendur sína undir vinnumarkaðinn. Háskóli getur ekki varað að eilífu og á einhverjum tímapunkti kemur að því að nemandinn flýgur úr hreiðrinu, ef svo má að orði komast.
Samfélagið í heild sinni hefur tekið örum og stórtækum breytingum með skjótri þróun tækni og vinnumarkaðurinn hefur breyst í takt við það. Kröfurnar sem nú eru gerðar hafa gjörbreyst og til að teljast hæfur til að ganga inn á vinnumarkað þarf nemandi að búa yfir hæfni á sviðum sem áður reyndi minna á. Háskólinn þarf því að þróast í takt við kröfur samfélagsins. Það er þörf á fjölþættum einstaklingum með yfirgripsmikla þekkingu sem einskorðast ekki við námsbraut þeirra; einstaklingum sem lært hafa samskiptahæfni og treysta á eigin getu. Þar að auki hafa örar tækniþróanir gert það að verkum að heimurinn utan landsteinanna er aðgengilegri en nokkru sinni áður og því hljótum við öll að vera sammála um að hver sú þróun sem háskólinn ræðst í þurfi að markast af alþjóðavæðingu.
Kennsla eftir Covid
Háskóli Íslands er flaggskip æðri menntunar á Íslandi og hefur þjónað Íslendingum vel í 110 ár. Skólinn hefur alla tíð verið virkur í alþjóðlegu samstarfi og hefur sannarlega verið að stíga skref í rétta átt þegar kemur að þróun kennsluhátta. Að hluta til hefur sú þróun átt sér stað af illri nauðsyn og þó fátt gott hafi komið til vegna Covid má segja það með sanni að heimsfaraldurinn hafi neytt okkur til að skoða breytta kennsluhætti af meiri þunga en áður. Að sjálfsögðu gekk misvel að aðlagast breyttum aðstæðum og fjarkennsla er ekki alltaf ákjósanlegur kostur enda er enginn að leggja til að Háskóli Íslands færi sig alfarið yfir í fjarnám; við erum, jú, í grunninn staðnámsskóli. Það má þó nýta þetta tækifæri, sem heimsfaraldurinn veitti okkur, til að fara í enn frekari naflaskoðun á kennsluháttum innan háskólans og líta gagnrýnum augum á það hvar tækifæri til þróunar sé að finna.
Alþjóðlegt samstarf og áframhaldandi þróun
Fyrr á þessu ári setti Háskóli Íslands sér yfirgripsmikla og háleita stefnu til næstu fimm ára. Þar er mælst til að háskólinn styðji við þverfaglegt samstarf í kennslu, rannsóknum og öllu öðru starfi sínu. Lækki veggi innanhúss og auki samstarf þvert á námsleiðir og deildir, fjölgi sameiginlegum námsleiðum með erlendum háskólum og auki tækifæri til skiptináms. Allt spilar þetta lykilhlutverk þegar að kemur að því að styrkja hæfni nemenda til að takast á við þær áskoranir og þau verkefni sem mæta okkur eftir útskrift.
Þegar er byrjað að stíga skref í áttina að þessu og þar spilar alþjóðlega háskólasamstarfið Aurora lykilhlutverk. Aurora eru samtök 11 háskóla innan Evrópu og stefna samtakanna endurspeglar ýmis grunn gildi sem sjá má í nýrri stefnu háskólans. Aurora leggur ríka áherslu á þátttöku nemenda á öllum stigum ákvarðanatöku og framkvæmdar. Í gegnum Aurora hefur háskólinn nú þegar hafið framboð á fjölbreyttari tækifærum til skiptináms og bauð nemendum til að mynda upp á að skrá sig í tvo áfanga sem kenndir eru af Universität Innsbruck núna í vetur. Þar að auki voru svokölluð „student schemes“ á vegum Aurora auglýst fyrr í haust en þau bjóða upp á tækifæri fyrir nemendur að vinna sjálfstætt, sem og í alþjóðlegu samstarfi milli skóla, að ýmsum verkefnum sem hægt er að móta að eigin áhugasviði. Slík vinna er ómetanleg, hún gefur nemendum tækifæri til að standa á eigin fótum og býður upp á beina reynslu af alþjóðasamstarfi, fyrir utan það hvað hún lítur vel út á ferilskrá.
Breyting á kennsluháttum getur þó tekið langan tíma og til að alvöru breyting og þróun geti átt sér stað þarf að vera einhugur um markmið okkar innan háskólans. Öll þurfum við að leggja hönd á plóg, hvort sem við kennum við háskólann, störfum innan stjórnsýslunnar eða stundum nám við skólann. Það má ekki vanmeta framlag nemenda þegar það kemur að alþjóðavæðingu menntastofnunar svo sem Háskóla Íslands. Það er framtíð nemendanna sem um ræðir svo það er mikilvægt að þeir láti í sér heyra og vinni samhliða starfsfólki háskólans að sameiginlegu markmiði okkar.
Allir þurfa sæti við borðið
Auðvitað skiptir miklu að sú rödd nemenda endurspegli fjölbreyttan nemendahóp háskólans. Háskóli Íslands er alhliðaskóli og nemendur skólans eru í fjölbreyttu námi sem felur í sér mismunandi áskoranir. Sömuleiðis er nemendahópur háskólans mun alþjóðlegri en álykta mætti ef einungis er litið er á formlega þátttöku stúdenta í bæði stúdentapólitík og nemendafélagsstjórnum. Því er mikilvægt að við sköpum starfsumhverfi sem er aðgengilegt alþjóðanemum því það fer ekki allt alþjóðasamstarf fram á erlendri grundu. Það þarf að auglýsa viðburði bæði á íslensku og ensku, hvort sem þeir eru haldnir af háskólanum sjálfum, nemendafélögum eða öðrum aðilum innan skólans. Nemendafélög, nefndir, félagsstörf og annað þarf sömuleiðis að vera auglýst með skilvirkari hætti til alþjóðanema. Háskólinn er heppinn að búa að svo fjölbreyttum hópi nemenda og ætti að nýta sér styrkinn sem það veitir okkur til að knýja fram enn frekari breytingar og læra af nemendum sem hafa lært í öðrum skólum, í öðrum löndum, hvar við megum gera betur.
Því það má jú alltaf gera betur.