„Það er fjárfesting að fara í nám“: Viðtal við Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur
Mánudagskvöldið 27. september, tveimur dögum eftir kosningar, hitti ég Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, nýkjörna þingkonu Framsóknar í húsi flokksins að Hverfisgötu 33. Lilja er 25 ára tveggja barna móðir og kennaranemi, og flaug inn á þing í einhverjum flóknustu kosningum Íslandssögunnar. Við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, kosningabaráttuna, úrslitin sem enn eru ekki komin á hreint þegar þetta er ritað og það sem tekur við hjá þessari ungu stjórnmálakonu.
Nú ert þú bara að fara í nýtt og fullt starf?
Já, og fyrsta hálfa árið fer í rauninni í það að læra á þetta starf. Þetta er í rauninni formlegasta starfið sem þú getur fundið á Íslandi. Næstu vikur fara í það að nýir þingmenn fá námskeið og svo er bara fullt af málum sem við þurfum að koma okkur inn í. Við þurfum að raða okkur í nefndir og komast inn í allt það og það mun örugglega taka svona hálft ár því það er svo mikil endurnýjun og við þurfum að koma okkur af stað. Af því við viljum gera þetta rétt.
Þetta er náttúrulega búið að vera stærsta áhugamálið mitt síðan ég var svona 14 ára. Svo byrjaði ég að taka þátt af fullum krafti 17 ára. Ég skráði mig í Framsókn 16 ára. Ég var tiltölulega nýbyrjuð þegar allt fór í háaloft, þá var ég nýkomin í framkvæmdastjórn ungliðahreyfingarinnar. Og þá kom út ákveðið Kastljósviðtal þannig að fyrsta hálfa árið sem ég var í þessu af fullum krafti var allt í háalofti.
Nú var jómfrúarræðan þín, þegar þú varst varaþingmaður á síðasta kjörtímabili, um heimavistir í Reykjavík fyrir framhaldsskólanema utan af landi. Ætlarðu að halda áfram að berjast fyrir því og námsfólki yfir höfuð?
Ég hef verið að stýra starfshópi þar sem við tókum þetta fyrir og lögðum könnun fyrir alla 10. bekkinga og foreldra þeirra. En starfshópurinn fór af stað í mars 2020, og það kom svolítið annað fyrir á þeim tíma. Þannig að út af COVID þá í rauninni voru allir fundir rafrænir hjá okkur. Þannig við höfum ekki enn þá náð að vinna úr gögnunum, en þau eru tilbúin. Við þurfum líklega aukasvör frá öðrum stöðum og annað, því dreifingin var ekki nægilega góð. En þetta er í vinnslu og ég ætla að fara strax í það að vinna með þetta af því að mér finnst jafnrétti til náms skipta svakalegu máli. Fólk á að geta stundað nám á sínum forsendum, sama hvort það vill flytja eða vera heima hjá sér og búa þá út um allt land. Og þá þarf fjarnámið að vera til staðar á öllum stigum.
Það fór auðvitað svolítið í gang út af COVID en það er spurning hvort það gangi svo til baka?
Ég fundaði með rektor Háskóla Íslands núna í sumar þar sem ég nefndi það við hann að það þyrfti að gæta að því að þetta gengi ekki til baka. En svo eru bara ýmis svið í Háskólanum á því að það eigi ekki að vera að taka upp fyrirlestra. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að þeir fyrirlestrar sem eru bóklegir, bara fyrirlestrar og engin verkleg kennsla, að það eigi að taka þá upp. Og ég vil beita mér fyrir því að ef fjarnám er möguleiki að þar sé fjarnám. Af því það léttir á stúdentagörðunum, það hjálpar til við uppbyggingu svæða úti á landi. Fólk kannski bíður með það þangað til það er kannski orðið aðeins eldra til að flytja í bæinn til að fara í nám sem það þarf ekki að flytja fyrir. Ég byrjaði í stjórnmálafræðinni og þar voru yfirfullar stofur. Svo fór ég í Kennaraháskólann þar sem er bara fjarnám og ég bý úti á landi og það munaði mjög miklu. Það eru rosalega margir sem búa úti á landi í kennaranámi af því það er í rauninni eina fjarnámið í HÍ.
En þetta hefur ekki bara með búsetu að gera, svo kemur líka svo margt upp á. Ef maður er veikur heima, ef maður er með veikt barn heima, ef maður er veðurtepptur eða eitthvað - þá á það ekki að þurfa að bitna á náminu manns. Af því þetta er hægt, við höfum tæknina í þetta. Ef kennarar eru á því að nemendur muni ekki stunda námið eins vel, þá er það bara á nemendum sjálfum af því maður á að stunda nám á eigin forsendum. Það er alveg eins hægt að mæta í tíma og sofa þar. Kennarar eiga ekki að fá að ákveða okkar forsendur. Ég vil allavega vinna að því að styrkja fjarnám alls staðar og aðstoða skólana við það. Í mínu kjördæmi eru þrír háskólar með mjög sérhæfðar brautir. Og það þarf að sjá til þess að það sé allt í lagi hjá þeim með húsnæði og gæði.
Þessir háskólar eiga það líka svolítið til að gleymast, er það ekki?
Í kjördæminu mínu eru Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn og Bifröst. Bifröst og Landbúnaðarháskólinn eru meira að segja í mínu héraði. Og skólarnir hafa haft alveg rosaleg áhrif á uppbygginguna á svæðinu. Börnin mín eru á leikskólanum á Bifröst sem einfaldlega væri ekki ef það væri ekki fyrir háskólann. Þannig að það eru svo rosalega mikil margföldunaráhrif út frá þessum skólum. Og þeir hafa byggt upp þarna tvö heil þorp.
Svo við höldum okkur á svipuðum nótum og ræðum aðeins Menntasjóðinn.
Já, við erum mjög stolt af honum. En við vitum líka að það er margt sem á eftir að vinna að. Í rauninni var grunninum breytt. En nú tökum við þær athugasemdir sem hafa komið og förum í það að laga þetta. Það sem við getum gert og það er það sem við viljum vinna að. Af því að Menntasjóðurinn á að aðstoða fólk við það að vera í námi. En kerfið í heild þykir mér vera mjög gott.
Lesendur blaðsins horfa auðvitað mikið til þess hvað verður gert fyrir stúdenta á næsta kjörtímabili og helsta baráttumálið í kjölfar covid voru atvinnuleysisbæturnar.
Vinnumálastofnun er auðvitað sérstofnun. Og það sem ég hef aðallega verið að tala um í tengslum við þetta er þetta bil á milli sem fólk fellur ofan í. Það er allt of, allt of, allt of stórt. Það á helst ekki að vera neitt. Mér finnst að fólk eigi að geta tekið námslán þegar það er í námi. Það á ekki að vera með fjárhagsáhyggjur í námi, það er fjárfesting að fara í nám. En mér finnst atvinnuleysistryggingarnar ekki eiga að falla undir námið, þá erum við með Menntasjóðinn. Þá eigum við bara að vinna betur með Menntasjóðinn. Þegar Menntasjóðurinn var búinn til þá átti enginn von á [covid]. Þetta er einn af þeim hlutum sem við sjáum þá að þarf að laga, við þurfum að skoða þetta. Af því við viljum að fólk sé í námi, það skiptir mjög miklu máli að fólk fari í nám, og það á ekki að þurfa að hætta í námi út af fjárhagsáhyggjum.
En svo er það auðvitað annað sem unga fólkið sérstaklega hefur áhyggjur af: Umhverfismálin. Og ég veit að margir voru ósáttir með það hvað þið fenguð lága einkunn á Sól Ungra umhverfissinna. Fóruð þið í einhverja naflaskoðun eftir það?
Nei, við gerðum það ekki vegna þess að í stefnunni okkar vorum við ekki með mælanleg markmið og við vissum það. Af því við höfum talað fyrir því að fara í uppstokkun á ráðuneytum og hafa sérstakt Loftslagsráðuneyti. Sem í rauninni er að fjármagna rannsóknir og annað. Af því við vitum það að við höfum ekki lausnina á loftslagsvandanum. Og við höfum mjög fáar rannsóknir sem snúa að Íslandi. Og við viljum fá rannsóknir sem einblína á okkur þannig að við séum að gera hlutina rétt. Að það verði farið í þetta strax þannig að eftir fjögur ár getum við sagt: „Við fórum að vinna af krafti í loftslagsmálum.“ Af því við höfum ekki verið að gera það. Ég hef að mörgu leyti töluvert sterkari skoðanir á þessu en margir aðrir innan flokksins þannig ég held að það hafi mun meira að gera með kynslóðaskipti, ég sé meiri mun innan flokksins en milli annarra flokka.
Heldurðu að einkunnin hafi eitthvað að gera með meðalaldur frambjóðenda ykkar á móti t.d. frambjóðendum Pírata?
Ég held það hafi meira að gera með það að margir flokkanna voru með mjög ítarlegar stefnuskrár. Við vorum frekar með stefnumál sem voru ekki þröng. Af því stefnuskráin okkar var mun stærri eftir vinnu grasrótarinnar og hún var einfölduð mikið í kosningastefnuskránni til að koma sem mestu fyrir. En við höfðum enn grunninn frá grasrótinni hjá okkur til að vinna eftir. Og við minnkuðum þetta niður einfaldlega svo fólk gæti farið yfir þetta allt. Það sem við höfum [að baki hverrar setningu], þar eru öll mælanlegu markmiðin og stóru málin. Og við vorum ekki að senda það út af því það er í rauninni okkar, hvernig við ætlum að vinna á kjörtímabilinu. Ég held það hafi meira með það að gera hvað við vorum búin að minnka setningarnar mikið. Af því við vorum að reyna að taka alla málaflokka alls staðar. Mjög margir flokkar voru ekki að tala um ýmis málefni en við reyndum að taka allt.
Það sem fólk sá var kvarðinn frá Samtökunum ‘78 og Sólarkvarðinn en síðan voru fullt af hagsmunasamtökum sem komu ekki með kvarða þar sem við hefðum eflaust mælst hátt en ekki aðrir. En af því við vorum ekki með mælanleg markmið, og ég, persónulega, styð langflest málin sem komu þarna fram. Mjög stór hluti af ályktunum SUF [Samband ungra Framsóknarmanna] voru hinsegin mál af því við viljum að við séum fremst í hinseginmálum í heiminum. Og það sem hafði líka að gera með þessa kvarða var það að stefnurnar okkur gátu ekki verið samþykktar því við gátum ekki haldið flokksþing. Og við erum 105 ára gamall flokkur þannig að lögin okkar eru rosalega þröng. Það eru fullt af málum sem voru ekki formlega á stefnuskránni þó svo að flokksmenn hafi allir samþykkt þau. En af því að þau voru ekki formleg á okkar skala gátum við ekki sent þau út sem formlega stefnu. Það er líka ein af ástæðum þess að margt er svona opið í þessu, við eigum eftir að halda flokksþing þar sem er kosin forysta og öll málin okkar. Öll hinsegin málin frá okkur í SUF hefði farið inn á flokksþing og voru tilbúin í það en það er ekki í opinberri stefnu af því það er ekki farið í gegn. Við sjáum alls ekki fram á það að því verði hafnað.
Þannig það hefur svolítið haft slæm áhrif á ykkur að geta ekki haldið flokksþing.
Já, en það var alveg ofboðslega flott vinnan hjá þessum samtökum sem gerðu kvarðana. Alveg rosalega. En manni fannst mjög leiðinlegt að vera í þessari stöðu, að vilja berjast fyrir þessu en skora samt lágt. Ég hef sama loftslagskvíða og margir aðrir. Þess vegna skiptir það svo miklu máli að hafa loftslagsráðuneyti.
Mig langaði einmitt að koma aftur að því. Hvernig sjáið þið það fyrir ykkur?
Það eru skiptar skoðanir á því. Mjög. En ráðuneytin eiga að endurspegla það sem er í gangi í þjóðfélaginu hverju sinni. Við þurfum að vita hvað er í gangi á Íslandi. Við getum ekki bara treyst á rannsóknir að utan af því þar er einfaldlega öðruvísi loftslag, öðruvísi landslag, samfélag og neysluvenjur. Við þurfum að rannsaka hvernig við getum gert þetta á Íslandi og hvað við þurfum að laga. Bæði fyrir okkur persónulega og hvernig okkar hegðun gæti gagnast öllu samfélaginu í heiminum. Þar kemur Loftslagsráðuneytið inn í. Við þurfum að gera þetta rétt og við þurfum að gera þetta strax.