Ritstjórn mælir með: Bækur til að lesa í haustlægðinni
Íslenskar bækur
Eldarnir svipar um margt til heimsendabókmennta sem hafa orðið æ meira áberandi á síðustu árum en er um leið krúttleg fjölskyldusaga sem vermir hjarta lesenda framanaf. Sigríður Hagalín Björnsdóttir sýnir að hún hefur góða þekkingu á efninu og skilar henni frá sér í listilega skrifuðum texta sem heldur athygli lesanda spjaldanna á milli. Bókin á sérstaklega vel við nú þegar eldgos stendur yfir í nálægð við höfuðborgarsvæðið.
10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp er gamansaga eins og þær gerast bestar. Kolsvört og hótfyndin allt frá byrjun til enda. Hvað gerist þegar stríðsglæpamaður úr Bosníustríðinu flytur til New York og byggir sér líf þar sem mafíósi? Hvað ef hann neyðist síðan til að flýja land og endar einn og auralaus á Íslandi? Í 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp svarar Hallgrímur Helgason þessum spurningum eins og honum einum er lagið.
Erlendar bækur:
Menntuð eftir Töru Westover (í þýðingu Ingunnar Snædal) er ævisaga Töru og umfjöllun um óhefðbundna leið hennar að menntun. Tara fæddist árið 1986 í Idaho, Bandaríkjunum, og ólst upp í miklu trúarofstæki meðal mormóna á heimili þar sem ofsafengnar ranghugmyndir um ríkisstofnanir og yfirvofandi heimsendi réðu ríkjum. Tara var því algjörlega ótengd nútímanum og raunveruleikanum þar til hún braust út úr erfiðum aðstæðum sínum, algjörlega upp á eigin spýtur. Það er magnað að lesa um óbilandi seiglu og ósérhlífni ungrar konu þrátt fyrir þær hindranir sem standa í vegi fyrir henni, og fylgjast með henni brjóta sér leið til menntunar.
Istanbul Istanbul eftir Burhan Sönmez (í þýðingu Ingunnar Snædal) er falleg en jafnframt tragísk skáldsaga. Fjórir pólitískir fangar segja hver öðrum sögur af borginni fyrir ofan dýflissurnar þar sem þeir dúsa milli þess sem miskunnarlausir verðir pynta þá. Þeir þurfa að gæta sín á því að í sögunum leynist engin leyndarmál, enda alltaf hætta á því að klefafélagar þeirra brotni saman undir pyntingunum og leysi frá skjóðinni. Bókin minnir um margt á 1001 nótt, en ævintýralegar sögurnar af Istanbúl fléttast á hugljúfan hátt við harðneskjulegar aðstæður fanganna.