Hvað á að gera fyrir stúdenta á næsta kjörtímabili?

Nú þegar kosningar til Alþingis eru yfirstaðnar og ný ríkisstjórn í bígerð er um fátt annað talað en það hver muni skipa hana og hvað málefni verði höfð í fyrirrúmi  á næsta kjörtímabili. Stúdentablaðið fór á stúfana og tók saman þau málefni sem stjórnmálaflokkarnir hafa sett á dagskrá hjá sér fyrir næsta kjörtímabil og varða stúdenta.

Í umfjölluninni hér að neðan er einungis einblínt á þau málefni sem varða hagsmunamál stúdenta beint. Samantektin er unnin út frá stefnuskrám stjórnmálaflokkanna en tekur þó fyrst og fremst mið af þeim svörum sem við fengum frá forsvarsmönnum flokkanna við spurningunni: Hvað á að gera fyrir stúdenta á næsta kjörtímabili?

Listinn er auðvitað ekki tæmandi og vel má vera að stjórnmálaflokkarnir hyggist setja fleiri mál er varða stúdenta á dagskrá.

Greinin er skrifuð þegar vika er liðin frá Alþingiskosningum.

Stefnumál Sjálfstæðisflokksins á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Auka fjölbreytni í menntakerfinu. 

  • Sjálfstætt starfandi skólar njóti jafnræðis.

  • Hið opinbera greiði það sama með hverjum nema, óháð rekstrarformi skólans sem hann sækir.

  • Tryggja aðgang að stafrænu háskólanámi á Íslandi.

  • Styrkja háskólanám um allt land og tryggja gæði þess.

  • Hækka fæðingarstyrk til að styðja við námsmenn og foreldra utan vinnumarkaðar.


Stefnumál Framsóknarflokksins á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Hækka grunnframfærslu námsmanna. 

  • Hækka frítekjumarkið.

  • Sjá til þess að hvatar verði nýttir til að fjölga námsmönnum í greinum þar sem skortur er á fagmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði og í brothættum byggðum.


Stefnumál Vinstri grænna á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Halda gjaldtöku í lágmarki til að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi.

  • Leggja af sérstök skólagjöld í listnámi á háskólastigi. 

  • Halda áfram að bæta fjármögnun háskólakerfisins og tryggja að háskólarnir geti verið aflstöðvar um land allt.

  • Tryggja fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám háskóla.

  • Fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.

  • Meta reynsluna af Menntasjóði námsmanna og kanna hvernig breytingar á kerfinu hafa tryggt betur jafnrétti til náms.


Stefnumál Samfylkingarinnar á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Opinber fjárframlög á hvern háskólanema skuli ná meðaltali norrænu ríkjanna þannig að fjármögnun háskóla standist alþjóðlegan samanburð.

  • Efla fjárhagslegt stuðningskerfi námsfólks, húsnæðiskerfi og þjónustu við nemendur innan háskólanna. 

  • Tryggja að fólk af erlendum uppruna með háskólamenntun geti fengið menntun sína metna og sömuleiðis að nemendum með annað móðurmál bjóðist fjölbreytt háskólanám á Íslandi. Þeim nemendum skuli einnig bjóðast íslenskukennslu, á öllum skólastigum, og aukin aðstoð við móðurmálsnám.

  • Veita menntastofnunum fjármagn og faglegan stuðning til þess að verða inngildandi og aðgengilegar.

  • Auka þekkingu kennara og kennaranema, með menntun og endurmenntun, á inngildandi kennsluaðferðum og sérhæfni hvað varðar fatlaða nemendur.

  • Gera ríkar kröfur um framþróun í kennsluháttum og kennslumötum háskóla.

  • Styðja við uppbyggingu á landsvísu þar sem atvinnulíf og menntastofnanir mætist með gagnkvæmum ávinningi.

  • Vinna áfram að uppbyggingu Vísindagarða í Vatnsmýri í samstarfi ríkisins við Reykjavíkurborg, Landspítala, háskólana, stúdentahreyfingarnar og þekkingarfyrirtæki.

  • Fyrirbyggja að styrkjakerfi lánasjóðsins gagnist fyrst og fremst þeim sem betur eru settir á kostnað þeirra sem helst þurfa á styrk að halda.

  • Styðja með sanngjörnum hætti við nemendur sem stunda nám innanlands eða erlendis.

  • Sá hluti námsstyrkja sem eru lán eigi að hafa tveggja prósenta vaxtaþak, lágmarksnámsframvindukröfur verði 18 ECTS-einingar, alfarið verði fallið frá hugmyndum um markaðsvexti á námslán og áfram byggt á tekjutengingu afborgana.

  • Hækka frítekjumark námsmanna og tryggja að það haldist í við launaþróun í landinu

  • Miða grunnframfærslu námslána við dæmigert neysluviðmið velferðarráðuneytisins.

  • Tryggja aðgengi námsfólks að atvinnuleysistryggingakerfinu.

  • Tryggja húsnæðisöryggi og fjölbreytt framboð á húsnæðismarkaði.

  • Vera leiðandi á sveitarstjórnarstiginu með m.a. uppbyggingu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og byggingafélög á vegum stúdenta og eldri borgara.

  • Auka stofnframlög til uppbyggingar og hækka tekju- og eignamörk.

  • Byggja áfram hefðbundið félagslegt húsnæði, íbúðir fyrir fatlað fólk og sérstök búsetuúrræði fyrir heimilislausa

  • Bæta aðgengi og fylgja eftir nýjum lögum um greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu.

  • Bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf og annars sambærilegs stuðnings í skólum og stuðla áfram að aukinni umræðu og fræðslu um andlega heilsu.


Stefnumál Flokks fólksins á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Veita námsfólki frelsi til að afla aukatekna án lánaskerðinga.

  • Hækka námslán.

Stefnumál Pírata á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Nemandinn verði miðpunktur menntakerfisins.

  • Auka sveigjanleika og frjálsræði í kerfinu.

  • Auka áherslu á færni sem nýtist í sjálfvirknivæddu samfélagi á upplýsingaöld.

  • Menntasjóður námsmanna þróist áfram í átt að styrkja- frekar en lánakerfi.

  • Hækka grunnframfærslu nemenda.

  • Hefja vinnu við tillögur að úrbótum á lánasjóðskerfinu fyrir þá endurskoðun sem á að eiga sér stað á lögum um Menntasjóð námsmanna á haustþingi 2023.

  • Áhersla verði lögð á meira samráð við stúdenta þegar kemur að úrbótum á lánasjóðskerfinu.

  • Afnema frítekjumarkið þannig tekjur skerði ekki námslán eða styrki.

  • Sjá til þess að stúdentar geti fengið styrki eða lán 12 mánuði ársins.

  • Tryggja að stúdentar fái atvinnuleysisbætur.

  • Tryggja að styrkir og námslán taki mið af raunverulegum aðstæðum stúdenta.

  • Ráðast í uppbyggingu íbúða í samstarfi við Félagsstofnun stúdenta. 

  • Hærri útgreiðanlegur persónuafsláttur.

  • Hærri námsstyrkir.

  • Hærri barnabætur.

  • Sveigjanlegra fæðingarorlof. 

  • Aukin áhersla á nýsköpun. 

  • Sálfræðingar verði til taks á öllum skólastigum.

  • Sálfræðiþjónusta verði niðurgreidd.

Stefnumál Viðreisnar á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Miða grunnframfærslu við almenn framfærsluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

  • Afnema frítekjumarkið. 

  • Veita námsmönnum mánaðarlega styrki að norrænni fyrirmynd, sem öll hafa aðgang að.

  • Auðvelda námsmönnum það að sinna námi sínu og komast þannig fyrr á vinnumarkað.

  • Innleiða blandað styrkja- og lánakerfi.

  • Umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi að hafa rétt á námslánum.


Stefnumál Miðflokksins á næsta kjörtímabili er varða stúdenta 

  • Tryggja jafna stöðu allra nemenda, hvar sem er á landinu.

  • Efla iðn- og tækninám.

  • Bæta stöðu drengja í skólakerfinu með því að horfa til þarfa þeirra.