Geimtæknin gegn vám loftslagsbreytinga

Mynd: CASSINI

Mynd: CASSINI

Cassani Hackathonið mun fara fram í Háskóla Reykjavíkur dagana 5.-7. nóvember næstkomandi. Þátttakendur þess fá tækifæri til að nýta geimtækni frá Evrópsku geimferðastofnuninni til að leysa stórar áskoranir sem norðurskautið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga. CASSINI Hackathons and Mentoring er frumkvöðlahraðall Evrópusambandsins í málefnum sem tengjast geimtækni. Þetta er í annað skipti sem lausnamótið er haldið og nú  í 10 borgum samtímis, víðsvegar um Evrópu. Á lausnamótinu hafa þátttakendur aðgang að upplýsingum frá gervihnattakerfunum EGNOS, Copernicus og Galileo, ásamt leiðsögn frá sérfræðingum. Þátttakendur velja eina af þremur áskorunum sem settar eru fram, öryggi á hafi, líf á landi og verndun lífríkis. 

Með þessum áskorunum gefst þátttakendum tækifæri til að nýta geimtækni til að skapa vörur, tækni eða þjónustu, til að gera skipum kleift að sigla um norðurheimskautið á öruggari máta, auðvelda samfélögum og lífríki að aðlagast betur að loftslagsbreytingum og vernda líffræðilegan fjölbreytileika á norðurslóðum.

Áður en lausnamótið hefst munu þátttakendur fá tækifæri til að sitja fyrirlestra þar sem sérfræðingar útskýra áskoranirnar, læra meira um hverja áskorun fyrir sig og kafa dýpra í þau vandamál sem norðurheimskautið stendur frammi fyrir. Helgina 5.-7. nóvember munu þátttakendur svo mæta í Háskóla Reykjavíkur þar sem hugmyndavinnan fer fram. Þar munu sérfræðingar halda fyrirlestra og leiðbeinendur verða viðstaddir til að aðstoða hópana. Fjöldinn allur af faglærðum sérfræðingum verða viðstaddir sem leiðbeina þátttakendum í gegnum helgina. Þeirra á meðal Ari Kristinn Jónsson, forseti Háskóla Reykjavíkur og fyrrverandi vísindamaður NASA, Helgi Hrafn Gunnarsson, forritari og Pírati, Bala Kamallakharan, stofnandi Startup Iceland. 

Sigurvegarar hakkaþonsins munu hljóta 5000 evrur að launum ásamt því að fá boð í FutureCast hlaðvarpið á Youtube-rás Reykjavik Grapevine. Þátttakendur sem lenda í 2. og 3. sæti munu hvor um sig fá 2000 og 1000 evrur. Auk þess velja fulltrúar frá Evrópusambandinu þrjár bestu hugmyndirnar í Evrópu og þeir vinningshafar fá allt að 100 klukkustunda ráðgjöf frá sérfræðingum Evrópsku geimferðastofnunarinnar.

Skipuleggjandi viðburðarins, Startup Iceland, er fyrirtæki sem er ekki rekið í hagnaðarskyni en heldur reglulega viðburði sem tengjast nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Markmið Startup Iceland er að skapa öflugt vistkerfi sprotafyrirtækja hérlendis.

Ef þú hefur áhuga að taka þátt í þessum frábæra viðburði, getur þú farið á heimasíðu þeirra hackathons.cassini.eu til að skrá þig. Opið er fyrir umsóknir til 29. október og það er ekki gerð krafa um að einstaklingar séu hluti af hóp fyrir viðburðinn. Engin fyrri reynsla á sviði geimtækni er nauðsynleg og lausnamótið er opið öllum þeim sem hafa ástríðu fyrir frumkvöðlastarfi og geimtækni.


SjónarmiðStefán Ari Dahl