Brautarholtskirkja á Kjalarnesi

Mynd: Árni Pétur Árnason

Mynd: Árni Pétur Árnason

Brautarholtskirkja á Kjalarnesi var reist árið 1857 og er eitt af fegurstu mannvirkjum í nálægð við höfuðborgarsvæðið. Kirkjan er í Reynivallaprestakalli og er hluti af Kjalarnessprófastsdæmi. Innan þess myndar Brautarholtskirkja Brautarholtssókn ásamt Saurbæjarkirkju. Hún var friðuð árið 1990 eftir að endurgerð hennar lauk árið 1987 og er nú í svo gott sem upprunalegu ástandi. Kirkjan er í 30 mínútna göngufjarlægð frá byggðarkjarnanum Grundarhverfi og því er kjörið að taka sér spássitúr þar einhvern sunnudaginn (Grundarhverfi er hluti Reykjavíkurborgar en stendur hinumegin Kollafjarðar). Þó ber ávallt að hafa í huga að vindasamt getur verið á Kjalarnesinu og því mikilvægt að huga að veðurspánni fyrirfram. Kirkjan er tignarlegt timburhús og stendur á hæð svo fegurð hennar er sjáanleg úr fjarska. Í nálægð kirkjunnar eru fjörur sem kjörið er að skoða með börnum og gera sér þannig glaðan dag.

Mynd: ismus.is

Mynd: ismus.is

         Brautarholtskirkja á sér langa sögu en kirkjan er á vissan hátt arftaki kirkju sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti við Esjuberg stuttu fyrir árið 900. Sú kirkja var fyrsta íslenska kirkjan. Nú stendur við Esjuberg útialtari sem vígt var fyrr á þessu ári. Kirkjan hefur ekki reglulegan opnunartíma en ef vilji er fyrir hendi má skoða hana að innan ef hringt er í umsjónarmann kirkjunnar, Björn Jónsson, í síma 892-3042. Það er skemmtilegt að standa inni í kirkjunni þar sem hún er bæði falleg en einnig vegna þess að þjóðskáldið Matthías Jochumsson þjónaði í henni um tíma (1867-73). Skáldamjöðurinn drýpur því af hverjum grip inni í kirkjunni og fékk undirritaður til dæmis hugmynd að smásögu þegar hann heimsótti kirkjuna fyrir hálfum áratug síðan. Sé fólk þess hneigt má einnig sækja messur í kirkjunni en sóknarprestur er séra Anna Grétarsdóttir sem messar þar á þriggja til fjögurra vikna fresti. Tilkynningar um komandi messur má finna á Facebook-síðu kirkjunnar, https://www.facebook.com/brautarholtskirkja/.