RVK Feminist Film Festival heima í stofu

RVK Feminist Film Festival (RVK FFF) byrjar í dag og stendur til 17. janúar en hún er nú haldin í annað sinn. Í fyrra voru sýndar myndir eftir kvenkyns leikstjóra og handritshöfunda sem allar áttu það sameiginlegt að segja sögu sterkra kvenkyns aðalpersóna og fjölluðu um reynsluheim kvenna frá sjónarhorni sem karlmenn eiga erfiðara með að nálgast. Hátíðin leggur að þessu sinni áherslu á hinsegin málefni og hinsegin fólk í kvikmyndabransanum, ásamt því að vekja athygli á kvenleikstjórum. Það er gert í samstarfi við Trans Ísland og Samtökin ‘78.

RFFF-2021-LOGO-web.png

Orðið femínismi fjallar um svo margt annað en bara konur og réttindi þeirra, heldur jafnrétti fyrir alla. Það er það sem RVK FFF stendur fyrir, jafnrétti og umburðarlyndi gagnvart öllum.


Skipuleggjendur og hugmyndasmiðir hátíðarinnar eru María Lea Ævarsdóttir, kvikmyndaframleiðandi og Nara Walker, listakona. ,,Kvikmyndabransinn enn mjög karllægur og því þarf að breyta, en það er stór partur af því sem RVK FFF stendur fyrir,” segir Lea í fréttatilkynningu sem send var út fyrir hátíðina.

Að þessu sinni er hátíðin haldin á netinu og er aðgengileg öllum frítt heima í stofu en í gegnum hátíðina má nálgast kvikmyndir, viðtöl, panela og Q&A. Einnig verður boðið upp á Short Film Script Lab eða Fabúlera, undir stjórn handritshöfundarins og kvikmyndagerðarkonunnar Gabrielle Kelly sem starfar hjá American Film Institute.

Á hátíðinni verða veitt verðlaun í stuttmyndakeppninni Systir. Flokkarnir eru besta tilraunakennda myndin, besta heimildamyndin, besta leikna myndin, besta animation myndin og besta COVID-19 myndin (þ.e.a.s. mynd búin til í heimsfaraldrinum).

Femínismi er ekki barátta fárra, útvaldra, hvítra sís kvenna til að fá að vera til jafns við karla, heldur umbylting í átt að jafnréttissamfélagi fyrir alla. 

Með því að færa hátíðina yfir á netið hafa opnast auknir möguleikar á því að búa til pláss fyrir alla. Hægt er að nálgast hátíðina á heimasíðu þeirra hér.

Hér að ofan má sjá myndir frá fyrstu hátíðinni sem haldin var í Bíó Paradís 2020.

MenningRitstjórn