Hjálpar nemendum að leita réttar síns
Guðjón Björn Guðbjartsson gegnir starfi hagsmunafulltrúa á skrifstofu Stúdentaráðs skólaárið 2019-2020. Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti Guðjón á skrifstofu SHÍ á þriðju hæð Háskólatorgs og ræddu þau um starf hagsmunafulltrúans og mikilvægi hagsmunabaráttu stúdenta.
Hagsmunafulltrúi miðlar málum
„Starf hagsmunafulltrúa felst í því að tryggja að ekki sé brotið á réttindum nemenda. Ef það liggur einhver vafi á því koma nemendur oft til mín og ég tala fyrir þeirra hönd í samskiptum við deildir og kennara eða ráðlegg þeim í málum þar sem vafi leikur á hvort verið sé að uppfylla réttindi þeirra,“ segir Guðjón Björn aðspurður um hvað það þýði að sinna starfi hagsmunafulltrúa. Blaðamaður Stúdentablaðsins spyr Guðjón hvers vegna hann hafi ákveðið að bjóða sig fram í stöðu hagsmunafulltrúa en hann segir ástæðuna fyrir því vera að honum hafi fundist styrleikar sínir nýtast vel í slíku starfi. „Mér finnst ég flinkur í að miðla málum. Svo sé ég rautt þegar ég sé brotið á réttindum einhvers þannig mér fannst þetta kjörið fyrir mig,“ bætir hann við.
Guðjón segist oft fá ábendingar um slæmt skipulag á námskeiðum, til dæmis varðandi of mikið álag miðað við einingafjölda. „Svo er mikið um það að kennarar meini nemendum að sjá gömul próf og síðan er algengt að það stemmi ekki alveg hvað stendur í kennsluskrá eða kennsluáætlun og hvernig kennslu er síðan háttað. Þetta eru algeng stef en svo eru mjög mörg einstök mál sem koma ekki oft upp,“ segir Guðjón þegar blaðamaður spyr hann hver séu almennt helstu hagsmunamál stúdenta.
Nemendur fái aðgang að gömlum prófum
Aðspurður um hverja hann telji vera mikilvægustu þættina í hagsmunabaráttu stúdenta segir Guðjón að það sé að stúdentar þori að láta rödd sína heyrast og mótmæla mótlæti sem og óréttlæti. Hann bendir jafnframt á að það sé hægt að ná ótrúlega miklu í gegn með öflugri og háværri baráttu stúdenta.
Í kjölfarið spyr blaðamaður Stúdentablaðsins hvort Guðjón telji háskólann gera nóg til að koma til móts við hagsmunamál stúdenta. Guðjóni finnst margir kennarar vera tilbúnir til að koma til móts við nemendur þó hann fái kannski að heyra meira af hinum málunum. „En það eru oft sömu málin að koma upp og oft í sömu deildum þannig að mögulega þyrfti að tryggja eitthvað meira eftirlit svo þessi mál væru ekki alltaf að koma upp. Það er hægt að gera mun betur, til dæmis varðandi rétt nemenda til að fá aðgang að gömlum prófum. Það eru þónokkrir kennarar sem framfylgja því ekki þó það sé kominn úrskurður frá umboðsmanni Alþingis sem segir að þeir eigi að gera það. Það kemur líka reglulega upp að nemendum sé gert að velja um að sjá gömul próf en í staðinn sé prófið þyngt eða uppsetningu þess breytt eða að þau fái ekki aðgang að gömlum prófum og þá verði prófið sambærilegt og undanfarin ár. Það mætti vera meiri eftirfylgni og skólinn mætti taka harðar á þessu. Það er óþolandi að það sé verið að meina nemendum um rétt sinn eða stýra þeim í að nota hann ekki,“ segir Guðjón.
Mikilvægt að tryggja réttindi stúdenta
Guðjón segir mikilvægt að Stúdentaráð hafi starfandi hagsmunafulltrúa á skrifstofu sinni og segir málum sem komi inn á borð hagsmunafulltrúa hafa farið fjölgandi með árunum. „Það er ótrúlega mikið af reglum og lögum sem nemendur hafa oft á tíðum ekki tök á að kynna sér til hlítar. Þess vegna er mjög mikilvægt að geta leitað til einhvers fyrir ráðgjöf sem er með sérþekkingu á þessu. Kennarar vita hvað þeir mega og hvað þeir mega ekki en stúdentar eru ekki eins mikið með það á hreinu sem er mjög skiljanlegt. Sjálfur þekkti ég ekki svona vel inn á reglurnar og lögin sem háskólinn starfar eftir og kennarar þurfa að fara eftir þegar ég var í námi. Þess vegna er mjög mikilvægt að Stúdentaráð bjóði upp á þessa þjónustu til að tryggja réttindi stúdenta og að þeim sé haldið til haga.“ Guðjón bætir því við að helstu verkefni hagsmunafulltrúans felist í því að gefa nemendum ráð og jafnvel vera í samskiptum við deildir eða einstaka kennara til að leysa mál.
Aðspurður um hvað komi honum mest á óvart í starfinu segir Guðjón alls konar mál koma upp, mál sem hann hefði ekki órað fyrir. „En það er svo sem skiljanlegt, það eru um 13.000 nemendur og 4000 starfsmenn við háskólann. Það má búast við að upp komi alls konar mál á svona stórum vinnustað. Það er samt ánægjulegt að yfirleitt vilja allir hlutaðeigandi aðilar mála leysa þau svo allir geti verið sáttir við niðurstöðuna.“ Guðjón segir jafnframt að það skemmtilegasta við starf hagsmunafulltrúans sé að geta hjálpað nemendum að leita réttar síns. „Ef það er verið að brjóta á réttindum nemenda, að nemendur fái staðfestingu á því og að deildir viðurkenni sín mistök og fari í einhvers konar úrbætur. Það er ótrúlega gott þegar mál enda með þeim hætti. Að mál komist í réttan og góðan farveg og hægt sé að vinna úr því þannig að hlutirnir breytist til hins betra. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með því.“