Fyndnasti háskólaneminn 2020

Ljósmynd/Kjartan Magnússon

Ljósmynd/Kjartan Magnússon

Heimspekineminn og grínistinn Vigdís Hafliðadóttir vann keppnina Fyndnasti háskólaneminn sem haldin var í Stúdentakjallaranum núna í byrjun marsmánaðar. Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti Vigdísi og forvitnaðist um keppnina.

Fór í vísnaskóla í Svíþjóð

Vigdís kemur úr Laugardalnum og var í Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem hún tók virkan þátt í leiklistarlífinu. Hún fór svo eftir útskrift í vísnaskóla í Svíþjóð, en vísur eru lög með miklum texta sem hver og einn túlkar með sínum hætti. Einnig var Vigdís annar þáttarstjórnenda hlaðvarpsins Veistu hvað, sem framleitt var fyrir Rúv núll, og er nú í æfingahópi hjá spunahópnum Improv Ísland. „Þó ég sé búin að safna í sarpinn þá er ég alltaf eitthvað, nei ég fer nú ekki að gera eitthvað meira úr þessu, hver ætti svo sem að nenna að horfa á mig?“ segir Vigdís brosmild og hlær.

Að hika það sama og að tapa

Spurð út í hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að taka þátt í Fyndnasta háskólanemanum segir Vigdís að hún hafi lengi pælt í að taka þátt. „Ég hugsaði alltaf, æi ég tek þátt á næsta ári, og svo gerði ég það ekki.“ Það var svo núna í ár sem hún ákvað að láta til skarar skríða, en sá þá að fresturinn hafði runnið út deginum áður. „Þá kom upp í hugann, að hika er það sama og að tapa.“ Hún ákvað þó að senda póst á skipuleggjendur keppninnar sem tóku vel í beiðni hennar og fékk hún að taka þátt.

Setti dömubindi undir handarkrikana

„Settið mitt í Fyndnasta háskólanemanum voru sögur úr eigin lífi, nema kannski settar í léttari búning og með þægilegri uppbyggingu,“ segir Vigdís og bætir við að inn á milli laumi hún inn litlum bröndurum. „Ég var með svipað sett og í undankeppninni, nema það byrjaði aðeins skemmtilegra vegna þess að ég var í kjól og fattaði svo á leiðinni að heiman að liturinn á honum væri þannig að svitablettir myndu sjást mjög vel.“ Vigdís greip þá til sinna ráða og lét dömubindi inn í kjólinn, undir handarkrikana. Stuttu áður en hún steig á svið fann hún að dömubindin voru farin að losna og fór því inn á bað, en fann þá bara eitt. Hún sagði áhorfendum frá þessu öllu saman því ef þau sæju dömubindi detta undan kjólnum í miðju setti þá vissu þau að það kæmi allavega af handarkrikasvæðinu. „Það var fínt að byrja á þessu því þetta var spontant og ég fann áður en ég byrjaði á skrifaða efninu að salurinn var með mér í liði.“ Vigdísi segir að sér finnist best að vinna með efni út frá eigin upplifun og hugsunum. „Það er enginn annar sem hefur upplifað nákvæmlega það sama og ég.“

Með meira sjálfstraust en áður

Vigdís vonar að það að hafa unnið keppnina muni opna einhverjar dyr, enda hafi lengi blundað í henni löngun til að koma meira fram. „Þetta er hins vegar alveg glataður tími til að vera uppgötvuð því auðvitað er búið að hætta við alla viðburði sem var búið að bóka mig á.“ Hún bætir þó við að kannski geti hún komið sér á kortið seinna, enda með meira sjálfstraust en áður. „En ef draumurinn rætist ekki þá get ég allavega skellt skuldinni á Covid frekar en sjálfa mig,“ segir Vigdís og hlær.