Aukin sálfræðiþjónusta fyrir stúdenta

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Nýverið hefur þriðji sálfræðingur Háskóla Íslands tekið til starfa, Guðlaug Friðgeirsdóttir, en fyrir voru Ásta Rún Valgerðardóttir og Katrín Sverrisdóttir. Blaðamaður Stúdentablaðsins hitti þríeykið yfir kaffibolla á Litla torgi til þess að ræða ráðningu þriðja sálfræðingsins. Nemendum við Háskóla Íslands býðst ókeypis sálfræðiþjónusta hjá Náms- og starfsráðgjöf HÍ (NSHÍ). Hægt er að bóka viðtalstíma með því að koma við á skrifstofu NSHÍ á 3. hæð Háskólatorgs. Einnig er hægt að senda póst á salfraedingar@hi.is. Nemendur eru hvattir til að nýta sér þjónustuna sem NSHÍ býður upp á fyrr en síðar.

 

Hvaða úrræði í geðheilbrigðismálum standa háskólanemum til boða almennt?

Það eru einstaklingsviðtölin sem við veitum, ásamt HAM-hópmeðferðum við lágu sjálfsmati, streitustjórnun og prófkvíða (sem náms- og starfsráðgjafar sinna). Einnig eru upptökur af ýmsum fræðsluerindum ásamt slökunaræfingum og núvitundaræfingum sem eru aðgengilegar öllum. Svo er geðfræðslufélagið Hugrún, hugleiðsluhópur háskólanema og síðast en ekki síst sálfræðiráðgjöf sálfræðinema á fimmta ári. Þar líður til dæmis ekki jafnlangur tími á milli einstaklingsviðtala og hjá okkur, en einnig eru í boði hópmeðferðir og það er líka hægt að fá aðstoð fyrir nemendur og börn þeirra. Þá er einnig hópmeðferðin Sálrækt sem doktorsnemar stýra.

 

Hvað annað getur háskólinn gert til að stuðla að betri líðan námsmanna? 

Nú erum við hluti af geðteymi (stýrihópi) og erum þar í samstarfi við fulltrúa Stúdentaráðs ásamt fulltrúa frá læknadeild og kennslusviði. Við hittumst reglulega og erum einmitt sérstaklega að fá ábendingar frá Stúdentaráði og skoða hvað er raunverulega að fara að nýtast nemendum þar sem við teljum fulltrúa Stúdentaráðs nánasta tengilið háskólanema. Þá er einnig fulltrúi úr sálfræðiráðgjöf sálfræðinema á fimmta ári sem er forstöðumaður handleiðslu þar. Það sem við erum að velta fyrir okkur núna sem næsta skrefi eða nýjung er að skoða hlaðvarp sem möguleika til að ná almennri hópfræðslu. Fólk gæti því verið að hlusta á það í sínum frítíma og þegar því hentar. Vandamálið við hópmeðferðir er einmitt að finna tíma sem hentar öllum þar sem fólk er laust á mismunandi tímum.

 

Hvað felst í sálfræðiþjónustunni sem þið bjóðið upp á?

Það eru einstaklingsviðtölin og hópnámskeiðin. Við vinnum út frá aðferðum HAM í þessum einstaklingsviðtölum. Aðaláherslan er þessi stuðningur við að haldast í námi, stuðningur við að bæta líðan og draga úr eða létta undir tímabundnu álagi. Þegar fólk kemur í fyrsta viðtalið er vandamál einstaklingsins kortlagt og skoðað hvort líklegt sé að hann geti notfært sér þessa þjónustu. En oftast er kvíði, depurð eða sjálfsmatsvandi ástæðan fyrir því að fólk leitar til okkar. Stundum er fólk búið að fá einhverjar slæmar fréttir eða verða fyrir áföllum, t.d. fyrsta ástarsorgin eða skilnaður, sem getur haft veruleg áhrif á námið. Við erum einnig partur af NSHÍ, svo við erum oft ekki að vinna þessi mál á eigin spýtur, heldur er þetta oft í samstarfi við náms- og starfsráðgjafana sem eru líka að veita þennan daglega stuðning og ráðgjöf. Okkur finnst mjög nemendavænt að vinna þetta saman. Til dæmis kemur kvíðinn nemandi sem hefur ekki getað skilað einhverjum verkefnum, ekki lagt í það að mæta í tíma, ekki lagt í það að hafa samband við kennara og þarna getur náms- og starfsráðgjafi verið góður stuðningur við það á meðan við værum kannski að fylgjast með kvíðaeinkennum og fara yfir hjálplegar leiðir.

 

Rannsóknir sýna fram á að geðheilsa íslenskra námsmanna hafi farið versnandi. Hvað veldur því?

Stórt er spurt! Það er í raun og veru enginn sem veit nákvæmlega svarið. Almennt séð virðist geðheilsa líka fara versnandi meðal almennings þannig þetta er ekki bara bundið við háskólanema. Þetta er eitthvað sem við erum mjög mikið að velta fyrir okkur. En það er meiri vitundarvakning um geðvanda, þannig fleiri eru að koma fram og tjá sig. Fólk er orðið meðvitaðra og farið að ná að tala meira um kvíða heldur en fyrir einhverjum árum síðan. Fólk er orðið betur fært að lýsa vandanum og átta sig á því að það sé með einhvern vanda. Svo eru vangaveltur um alla þessa tækni, við erum kannski í minni virkni en við vorum áður. Fólk er meira að pæla í tölvunni eða símanum sem getur haft mikil áhrif á líðan. Líka þessi samanburður sem verður oft þegar fólk er á samfélagsmiðlum. Áður fyrr fór fólk kannski í frí, kom heim og sagði að það hefði verið í fríi og maður hugsaði með sér: „Allt í lagi, frábært!“ En núna sér maður bara nákvæmlega að þarna liggur þessi á ströndinni með kokteil í hendinni en ég er bara hérna heima í basli í snjónum. Þetta er öðruvísi samanburður sem er meira áþreifanlegur og reynist mörgum erfiður. Við sjáum einmitt bara þessa glansmynd á samfélagsmiðlum. En varðandi almenna versnandi geðheilsu væri mikilvægt að kafa dýpra í hvað er að valda þessu. Heildartölur sýna fram á þetta en það vantar kannski betri greiningu á því hvað er að valda þessu. Við erum með vangaveltur en því miður ekki með svörin.

 

Hvaða hlutverk spilaði Stúdentaráð í fjölgun sálfræðinga?

Það voru einmitt þessar sláandi niðurstöður rannsókna sem helstu dagblöð slógu upp, að það væri aukinn kvíði og streita meðal háskólanema. Svo er það þannig að sálfræðiþjónusta er ekki inni í sjúkratryggingum. Hver tími hjá sálfræðingi á stofu úti í bæ er dýr og ekki endilega eitthvað sem hinn almenni háskólanemi hefur efni á. Þar af leiðandi var aukin krafa bæði í samfélaginu almennt en einnig frá Stúdentaráði. Það kom aukinn þrýstingur frá Stúdentaráði og í einhvern tíma var þetta eitt af þeirra helstu baráttumálum, að bæta þessa þjónustu sem þau náðu að lokum í gegn. Það fékkst aukinn styrkur til að bæta þjónustuna og þarna hefur stýrihópurinn með fulltrúa Stúdentaráðs tekið ákveðin skref og það var ákveðið að fjölga sálfræðingum. Það var gert árið 2018 og þá var Ásta Rún ráðin og svo núna í janúar bættist Guðlaug við. En þetta er ekki alveg nýtt. Það er búin að vera ókeypis sálfræðiþjónusta við NSHÍ í rúm 30 ár. En út frá þessum breytingum, aukinni vitundarvakningu og nýjustu tölum í rannsóknum þá þótti það nokkuð ljóst að þörf var á að bæta við. En það er ótrúlega dýrmætt að heyra frá stúdentum hvað þeir vilja og ef það eru einhver úrræði sem við erum ekki að bjóða upp á þá myndum við taka öllum ábendingum fagnandi. En annars erum við í samráði við Stúdentaráð og í góðu samstarfi við þau.

HáskólinnRitstjórn