„Já, ég þori, get og vil!“

Rauðsokkur syngja baráttusöng Ljósmynd/Kvennasögusafn Íslands

Rauðsokkur syngja baráttusöng Ljósmynd/Kvennasögusafn Íslands

Allir eru jafnir, sumir eru bara jafnari en aðrir.

„All (animals) are equal but some (animals) are more equal than others.“

George Orwell, Animal Farm

 

Jafnrétti ætti að vera sjálfsagt og unga fólkið í dag hefur upplifað meira jafnrétti en margar kynslóðir á undan. Þetta á jafnt við um jafnrétti kynjanna og almennan jöfnuð milli þjóðfélagshópa og kynþátta. Þó er jafnrétti alls ekki náð.  

Ég ólst upp við að karlmenn væru rétthærri en konur. Það þótti sjálfsagt að karlar fengju hærri laun og betri störf. En þetta var að breytast. Ég bjó í sveit og við systurnar og mamma sáum um inniverkin en stukkum líka í útiverkin þegar við átti. Í hádeginu hvíldu pabbi og strákarnir sig á meðan við sáum um að koma matnum á borðið og ganga frá. Það var hins vegar ekki ætlast til að við fengjum hvíld heldur þurftum við oft að fara beint út í búverkin. Ég man líka eftir að hafa verið látin strauja skyrtur og pússa skó strákanna áður en þeir fóru á sveitaball. Mér fannst þetta aldrei réttlátt en það var til lítils að mótmæla. Það var oft talað um að það væri eðlilegt að karlmenn fengju hærri laun því þeir væru sterkari og gætu því gert fleira. Við systur fengum sjaldan að vera á vélunum þegar við höfðum aldur til þó að við gætum auðvitað alveg eins keyrt traktor eins og strákarnir. Ég man að stelpurnar í bekknum óskuðu þess oft að þær væru strákar því þá myndu þær fá miklu skemmtilegri verkefni á búinu. Ég sagði hins vegar alltaf: „Ég vil ekkert vera strákur, ég vil bara fá að gera það sem þeir gera.“

 

Rauðsokkur

Yngsti bróðir minn var samt fyrsta rauðsokkan sem ég þekkti. Hann keypti blaðið „Forvitin rauð“ sem Rauðsokkuhreyfingin gaf út og breytti svo ýmsu á heimilinu. T.d. ákvað hann að þeir pabbi gætu alveg búið til kaffið og tekið til morgunmat áður en þeir færu í fjósið og við stelpurnar í skólabílinn. Þannig fékk mamma stundum að sofa aðeins lengur á morgnana. Hann fór að ganga meira í heimilisstörfin og benda á það sem ekkert réttlæti var í og þá einkanlega gagnvart mömmu. Þetta viðhorf bróður míns hafði mikil áhrif á okkur stelpurnar og mömmu og sennilega alla á heimilinu.

Í Menntaskólanum að Laugarvatni 1974 eru hipparnir að deyja út og rauðsokkurnar að lifna við. Ég lærði að sitja hokin með sítt hár og hárband, með fæturna í kross, en ári síðar að labba um bíspert í gallabuxum, gallavesti og með stutt hár. Til að tekið væri mark á okkur sem vitsmunaverum töldu rauðsokkurnar okkur þurfa að neita okkur um öll kvenlegheit og jafnvel að afneita okkur sem kvenverum, eða þannig upplifði ég það. Og ég gerðist eini femínistinn í skólanum.  Ég talaði um að við ættum ekki að vera að rembast við að vera eins og karlmenn en ættum að berjast fyrir því að tekið væri mark á okkur sem konum. Þetta féll í ekkert sérstaklega góðan jarðveg þó seinna meir hafi sumar sagt mér að þeim hafi fundist vit í þessu, en þær hafi bara ekki trúað því að þessi aðferð bæri nokkurn árangur.

Mér fannst fáránlegt að við borguðum jafnmikið í mötuneytið og strákarnir en flestar stelpurnar vildu sýna að þær tækju ábyrgð jafnt og strákarnir. Samt var gerð könnun á launum strákanna og stelpnanna um sumarið og kom í ljós að stelpurnar höfðu helmingi minni laun. Í einu tilfelli voru tvö að vinna í sama frystihúsi, hann á lyftara en hún að flaka. Launin voru nákvæmlega helmingi minni hjá henni. Mér fannst við ekki eiga að fórna okkur fyrir málstaðinn og borga hlutfallslega miklu hærra gjald. Þar fannst mér líka verið að skerða jafnrétti til náms því sumar stelpur áttu þá kannski ekki fyrir skólavistinni fyrir vikið.

Rauðsokkahreyfingin gat út tímaritið Forvitin rauð

Rauðsokkahreyfingin gat út tímaritið Forvitin rauð

Sameinaðar stöndum við…

Það var magnað að mæta á fyrsta Kvennafrídaginn á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október 1975. Farið var með rútu frá Laugarvatni og við mættum auðvitað ekki í skólann. Það voru ekki allir hressir með þetta uppátæki en samt voru margir kennarar mjög skilningsríkir. Þá voru kennarar í miklum meirihluta karlmenn, en ég man bara eftir einni konu sem kenndi mér alla menntaskólagönguna. Þá segir það ýmislegt um stöðu kvenna á þessum tíma. Ég hafði aldrei séð svona marga samankomna en þrátt fyrir mannfjöldann rakst ég á mömmu þarna, en hún hafði komið með kvenfélaginu úr sveitinni. Já, þarna voru allar konur, ungar sem aldnar og úr öllum stéttum þjóðfélagsins.  

Ég hélt áfram að vera femínisti þegar ég kom til Reykjavíkur og fór í Háskólann. Ég taldi mig reyndar vera rauðsokku með aðeins öðruvísi viðhorf til baráttunnar. Það er bara eftir á að ég sé að ég hef alltaf verið femínisti í þeim skilningi að ég vildi að konur yrðu metnar á sínum forsendum. Kvennalistinn var að verða til, en hann var stofnaður 1983 og mér fannst konurnar oft breytast í karlmenn þegar talað var við þær. Þær reyndu að temja sér takta og tilsvör karlanna og urðu stífar og ofur-rökfastar. Þær klæddu sig gjarnan eins og karlmenn og voru með stutt hár. Ég studdi samt þessar konur í einu og öllu og var sammála flestu sem þær börðust fyrir. Það var bara þessi karlorka sem ég átti erfitt með. Og mér fannst þær stundum gera lítið úr kvennamenningunni og kvenlægum gildum. Þá samdi ég þetta ljóð:

 

KONA

 

Ég vil ekki þurfa að vera

eins og karlmaður

til þess að fá sama rétt og hann

 

Ég vil ekki þurfa að hugsa

eins og karlmaður

til að vera ekki fyrirlitin

 

Ég vil ekki þurfa að tala

eins og karlmaður

til að tekið sé mark á mér

 

Ég vil ekki þurfa að vera,

hugsa og tala

eins og karlmaður

 

Því ég er kona

og ég vil vera kona

 

Seinna samdi Bergþóra Árnadóttir lag við þetta ljóð sem gefið var út á plötu.

 

Breytum ekki konum

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Kvennalistinn var og hét en samt er jafnrétti ekki náð. Eftir á held ég að kannski hafi konur þurft að koma inn í pólitíkina á forsendum karlanna eða með þeirra aðferðum og orku. Oft þarf öfgar til að hlustað sé á fólk, sérstaklega þegar verið er að ögra viðteknum gildum. Rauðsokkurnar hristu verulega upp í þjóðfélaginu og sýndu fram á fáránleika þess að stilla konum upp sem skrauti og ætlast á sama tíma til að þær ynnu myrkranna á milli við heimilisstörf og barnauppeldi. Það taldist reyndar ekki vinna í þá daga og enn í dag er sú vinna ekki metin að verðleikum. Viðhorf til kvenna hefur samt verið litað af gömlum viðhorfum og mörg bakslög hafa komið í þessa baráttu. Þar má helst nefna klámbyltinguna sem tröllreið öllu á tímabili. Eftir #metoo byltinguna er ég samt aðeins bjartsýnni. Þegar ég heyri kjörorð kvennafrídagsins 2018, Breytum ekki konum breytum samfélaginu, hugsa ég: „Þetta sagði ég og skrifaði fyrir u.þ.b. 40 árum.“