Hvernig gerirðu pakkanúðlurnar þínar meira sexí?
Við höfum líklega allflest tekið einhver tímabil þar sem pakkanúðlur eru helsta uppistaða mataræðisins. Það þýðir samt ekki að þær þurfi alltaf að vera eins og það þýðir heldur ekki að við getum ekki gert þær aðeins girnilegri. Stúdentablaðið hefur tekið saman nokkrar aðferðir til þess að gera pakkanúðlur aðeins meira sexí.
Góður grunnur
Þú hitar vatn í potti á hellu. Þú setur innihald kryddpakkans sem fylgir með núðlunum út í vatnið ásamt teskeið af smjöri áður en þú bætir núðlunum við. Bættu endilega við smjöri, smjör gerir allt betra. Allt.
Fyrir auðveldar lúxusnúðlur getur þú notað soð í stað vatns til þess að gefa núðlunum meira bragð. Hrærðu bragðkrafti út í heitt vatn. Það er líka gott að bæta við smá vorlauk, hvítlauk, chili og pipar eða bara jurtum og kryddum sem þér finnst góð. Síðan bætirðu núðlunum út í og þær munu draga í sig bragðið úr kraftinum, kryddunum og grænmetinu.
Bættu kókosmjólk út í og jafnvel smá fiskisósu, sykri og karrípaste. Þá verða núðlurnar verulega seðjandi og mjúkar.
Grænmeti
Bættu við frosnu grænmeti eða afgangsgrænmetinu sem er í skápnum. Þú getur meðal annars bætt við spínati, maís, kúrbít, blómkáli, papriku, gulrótum, sveppum, edamame baunum eða hverju öðru sem leynist í ísskápnum. Hentu því á pönnu og brúnaðu það eftir smekk.
Sósur
Ég veit ekki með þig en ég á alltaf alls kyns sósudollur í skápunum. Pakkanúðlur hafa mjög gott af því að fá smá slettu þaðan. Hvort sem það er sriracha, ostrusósa, hoisin sósa, pestó, soyasósa, fiskisósa, hnetusmjör, miso eða bara annað sem þú átt til. Þú getur hrært þær út í eða bætt þeim við eftir á.
Prótín
Pakkanúðlurnar verða veglegri og matarmeiri ef þú bætir einhvers konar prótíni út í þær. Það getur til dæmis verið tófú, kjúklingur, oomph, tempeh, edamame baunir, rækjur eða fiskur. Auðveldasta viðbótin er líklega egg. Það skiptir ekki máli hvernig eggið er matreitt, sumir fá sér soðið egg, aðrir eggjahræru eða steikt egg. Einnig er hægt að brjóta eggið beint út í heitt núðluvatnið og gæða sér á núðlunum þegar eggið er tilbúið. Allt eftir því hvað hentar þér hverju sinni.
Smiðshöggið - Lokaskrefið
Svo er það kirsuberið á ísinn, sem er reyndar núðlur og kirsuberið er ekki kirsuber heldur hnetur, fræ og smá niðurskorinn vorlaukur, graslaukur eða basilíka. Einnig er gott að kreista smá sítrónu eða limesafa yfir réttinn. Þú getur líka notað annars konar núðlur eða pasta eins og fettuccini eða linguini ef þú ert í stuði og vilt aðeins fínni núðlurétt.
Jæja, þá ert þú vonandi komin/n/ð með einhverjar hugmyndir um það hvernig þú getur gert pakkanúðlurnar þínar meira sexí. Við látum fylgja með tvær uppskriftir fyrir þau sem vantar smá hjálp við að komast af stað eða komast ekki af án leiðbeininga.
Fljótlegar hvítlaukssmjörsnúðlur
1 pakki af núðlum
2-3 teskeiðar af smjöri
1-2 hvítlauksrif (söxuð eða rifin)
½ - 1 tsk. ferskur engifer (afhýddur og rifinn niður eða fínsaxaður)
Hálf teskeið af hvítu miso paste (valkvætt)
Lítill eða miðlungsstór kúrbítur (skorinn í ræmur)
2 tsk. af soyasósu2 tsk. af ferskri basilíku (fínskorin)
1 egg (soðið eftir smekk)
Ristuð sesamfræ
Settu vatn í pott og bíddu þangað til það sýður. Slepptu kryddpakkanum sem fylgir núðlunum en settu núðlurnar út í vatnið og leyfðu þeim að sjóða í svona 2-3 mínútur. Taktu þær af hellunni og helltu vatninu af þeim. Settu smjör og hvítlauk á pönnu í 3-5 mín við miðlungshita. Passaðu að brenna ekki hvítlaukinn, þú vilt brúna hann í smjörinu. Bættu við engifer og miso og hrærðu saman. Bættu við kúrbít og eldaðu hann í 2-3 mínútur. Taktu pönnuna af hellunni, settu núðlurnar, soyasósu og basilíku saman við og veltu öllu saman. Settu núðluréttinn í skál, bættu við soðnu eggi, sesamfræjum og smá basilíku. Ekki hafa áhyggjur ef þú átt ekki einhver af hráefnunum og verði þér að góðu.
Hnetusmjörsnúðlur með sesamfræjum
1 pakki af núðlum
2 tsk. sesamolía
1-2 tsk. af hnetusmjöri
2 tsk. hunang
2 tsk. soyasósa1
½ tsk. af hrísgrjóna ediki
1 hvítlauksrif (saxað eða rifið)
½ tsk engifer (afhýða og rífa eða fínsaxa)
Sesamfræ
Eldaðu núðlurnar eins og pakkinn segir til um og helltu svo öllu vatninu af þeim. Á meðan þú ert að matreiða núðlurnar getur þú gert sósuna. Náðu þér í skál og hrærðu vandlega saman sesamolíu, hnetusmjöri, hunangi, soyasósu, hrísgrjónaediki, hvítlauk og engifer þangað til úr verður sósa. Bættu núðlunum út í og veltu þeim vel saman við sósuna, þú vilt þekja þær alveg. Skelltu smá sesamfræjum út á og þá eru þær tilbúnar. Ég mæli með að bæta líka við soðnu eggi og vorlauk. Ef þú vilt gera þær ennþá matarmeiri geturðu bætt öðru prótíni og grænmeti við.