Tengslanet - hvað og hvers vegna?
Grein eftir Ástu Gunnlaugu Briem, náms- og starfsráðgjafa við HÍ
Víða er talað um að gott sé að búa yfir góðu tengslaneti og sumir taka jafnvel svo djúpt í árinni að segja að það sé nauðsynlegt til að farnast vel í námi og starfi. En hvað er þá átt við með því? Hvað er tengslanet og hvernig förum við að því að byggja það upp? Hvers vegna er það eins mikilvægt og af er látið?
Við leggjum mismunandi skilning í orðið tengslanet. Sumir tala um tengslanetið sem hóp vina og kunningja eða jafnvel sem klíku sem sér um sig og sína. Ekki eru allir sammála þeirri túlkun og leggja annan og öllu jákvæðari og faglegri skilning í hugtakið. Í raun erum við að tala um hóp einstaklinga á sama vettvangi, í námi eða starfi. Vissulega geta vinir deilt sömu tengslum, búið yfir sama tengslaneti, en hugtakið nær frekar yfir fagleg tengsl sem hafa myndast á faglegum forsendum svo sem í námi eða í starfi.
Á nýliðnum Atvinnudögum 2020, þar sem Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Náms- og starfsráðgjöf tóku höndum saman, var stúdentum boðið upp á fjölbreytta fyrirlestra og viðburði, þar sem fjallað var um hvernig best væri að undirbúa sig fyrir og komast inn á vinnumarkaðinn.
Meðal annars var boðið upp á áhugavert hádegiserindi þar sem Elísabet Berglind Sveinsdóttir, sérfræðingur í markaðs- og kynningarmálum hjá Vísindagörðum Háskóla Íslands, sagði stúdentum frá því hvers vegna henni þætti mikilvægt að brýna fyrir þeim að hugsa um tengslanetið og hvaða þýðingu það geti haft, að hafa ræktað tengsl við aðra einstaklinga á sama vettvangi þegar leit að framtíðarstarfinu hefst fyrir alvöru. Elísabet lagði ríka áherslu á að beina huganum að tengslanetinu strax í upphafi náms. Hún gaf nemendum nokkur góð ráð um fyrstu skrefin í að byggja upp sitt eigið tengslanet og benti meðal annars á að nýta vísindaferðir sem nemendafélögin skipuleggja fyrir samnemendur í hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir. Slíkar heimsóknir gefa stúdentum bæði tækifæri til að kynna sig og kynnast öðrum. Góð hugmynd væri að sýna fyrirtækinu og þeim verkefnum sem það sinnir áhuga, spjalla við þann sem tekur á móti hópnum og ef til vill þakka fyrir sig með tölvupósti daginn eftir. Elísabet sagðist þekkja dæmi þess að slíkt hafi borið góðan árangur.
Það er ekki síður mikilvægt að rækta tengslanetið en að byggja það upp. Það er sama hvert litið er, sífellt er verið að minna á að efla tengslanetið. Á vefsíðu Nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins er til dæmis bent á að öflugt tengslanet sé verðmæt auðlind hvers frumkvöðuls. Ef þú ert virkur þátttakandi í öflugu tengslaneti ertu líklegri til að njóta góðs af.
Nýttu tækifærin, ágæti stúdent, og láttu sjá þig. Mættu á þá staði þar sem þér finnst umræðan áhugaverð og þér finnst þú hafa eitthvað til málanna að leggja. Vertu óhræddur við að vera þú sjálfur, hlustaðu á aðra og miðlaðu af þinni eigin þekkingu. Þú ert þegar farinn að byggja upp faglegt orðspor, líklega án þess að þú gerir þér grein fyrir því og þess vegna er mikilvægt að hugsa vel um hvernig þú kynnir þig fyrir öðrum og hvernig þú vilt að aðrir sjái þig. Gerðu það frekar markvisst en tilviljanakennt og vertu með einhvers konar áætlun um hvernig þú ætlar að gera það. Það er farsælast fyrir þig að vera trúr sjálfum þér og vita fyrir hvað þú stendur. Hugaðu að faglega orðsporinu en vertu líka óhræddur við að láta vaða!
Í Háskóla Íslands hittir þú fólk sem verður þér síðar samferða í atvinnulífinu. Rannsóknir sýna að ef þú hefur gott tengslanet í námi þá er líklegra að þér líði vel í náminu, að þú skilir betri árangri og ljúkir því. Líkur á brotthvarfi háskólanema frá námi virðast minni eftir því sem tengslanet þeirra er stærra.
Hafðu í huga, ágæti stúdent, að þú ert fljótari að mynda tengsl við samnemendur ef þú mætir í skólann, ert hluti af háskólasamfélaginu og tekur að einhverju leyti þátt í félagslífinu. Því er ekki aðeins mikilvægt fyrir stúdenta að huga að tengslanetinu þegar þeir eru í atvinnuleit, það er þeim líka mikilvægt á meðan á námi stendur.
Gangi þér vel.