Mýrargarður tekinn í notkun
Mýrargarður, nýr stúdentagarður við Sæmundargötu, var tekinn í notkun í janúar og fyrstu íbúar hússins eru byrjaðir að koma sér fyrir. „Byggingin er tekin í notkun í tveimur hlutum,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta. „Það er búið að úthluta fyrri hlutanum og fólk er að tínast inn.“ Á nýja stúdentagarðinum eru þrjár tegundir af húsnæði, paríbúðir, stúdíóíbúðir og svokallaðir vinaklasar. Í klösunum eru 8 til 9 herbergi með sér baði en íbúarnir deila sameiginlegri aðstöðu. „Núna um miðjan febrúar fáum við seinni hlutann af húsinu afhentan. Það er búið að úthluta öllum stúdíó- og paríbúðum en enn er verið að úthluta í klasana, þannig að það er laust þar fyrir þá sem hafa áhuga á að sækja um.“
Fullbúið sameiginlegt rými
Rebekka segir vinaklasa vera nýtt form á Stúdentagörðunum. „Þetta eru í rauninni 8 til 9 herbergja íbúðir. Þú býrð í þessari íbúð með hópi fólks þannig að þegar þú stígur út úr herberginu þínu ertu kominn í sameiginlegt svæði.“ Aðstaðan sem íbúarnir deila samanstendur af fullbúnu eldhúsi, forstofu og stofu. „Það eina sem þú þarft í raun og veru að koma með eru tölvan þín og fötin,“ segir Rebekka. „Í hverju herbergi er rúm og í sameiginlega rýminu er allt til alls. Í eldhúsinu er leirtau og allt sem þarf til eldamennsku eða til að bera fram mat. Í stofunni er borðstofuborð með stólum fyrir alla íbúana og fleiri til. Svo er þægilegur sófi og sjónvarp í hverjum klasa.“ Það getur verið dýrt að flytja úr foreldrahúsum og koma upp eigin heimili, en Rebekka segir vinaklasana vera lið í því að draga úr þessum kostnaði. „Fyrir utan öll húsgögnin er fólk að fjárfesta í leirtaui og borðbúnaði fyrir fjölda manns en það er bara ákveðið oft á ári sem fólk er að bjóða heim í mat eða heimsókn.“
Annað sem er nýtt við vinaklasana er að nú gefst stúdentum tækifæri til að óska eftir að búa í klasa með vinum sínum. „Yfirleitt er ekki hægt að óska eftir því sérstaklega hverjir nágrannar manns eru. Það er ómögulegt að gera það vegna þess að við erum með svo mikinn fjölda af fólki,“ segir Rebekka. Þær íbúðir á Stúdentagörðum sem eru með fleiri en einu herbergi hafa hingað til aðeins verið ætlaðar pörum eða barnafólki að undanskildum tvíbýlum, en þar hafa vinir ekki getað sótt um. „Núna er hins vegar komin upp sú staða að við getum boðið fólki að sækja um að vera í klasa með vinum og ættingjum ef þeir eru skráðir í HÍ. Það er einfaldlega hægt að hengja umsóknirnar saman í umsóknarferlinu.“
Í miðjum Mýrargarði er þó langstærsta sameiginlega rýmið, en það er stór salur sem íbúar hússins hafa aðgang að. „Þetta er ofboðslega flottur salur,“ segir Rebekka. „Þessir tæplega 300 íbúar sem búa í byggingunni hafa allir aðgang að honum sér að kostnaðarlausu. Þarna er örugglega hægt að halda ættarmót því þetta er svo rúmgott og nóg pláss fyrir alla.“ Á fleiri Stúdentagörðum FS hefur einnig verið unnið að endurbótum á sameiginlegum veislusölum, til dæmis á Gamla Garði, Hjónagörðum og Vetrargarði.
Aukið samneyti íbúa
Á undanförnum árum hefur stefna FS í húsnæðismálum meðal annars falist í því að bregðast við einangrun stúdenta. „Fyrir um það bil 10 árum síðan vorum við á ráðstefnu í Mið-Evrópu þar sem við sáum sláandi tölur um líðan ungs fólks. Þrátt fyrir að sams konar rannsóknir hefðu ekki verið gerðar hér þá gerðum við ráð fyrir að þær ættu líka við á Íslandi. Í byrjun árs 2018 sáum við svo fyrstu kannanirnar sem voru gerðar á líðan háskólanema og þær kölluðust algjörlega á við þessar tölur.“ Í kjölfarið segir Rebekka að FS hafi lagt áherslu á aukið samneyti íbúa á Oddagörðum sem voru í byggingu við Sæmundargötu á þeim tíma. „Þegar við sáum þessar tölur áttuðum við okkur á því að við þyrftum að bregðast við með því að endurhugsa hönnunina á húsnæðinu okkar. Hvað varð að gera til að stuðla að vellíðan íbúa og auka líkur á að þeir ættu í samskiptum við nágranna sína?“
Í tveimur húsum á Oddagörðum var farin sú leið að hafa sér svefnherbergi og baðherbergi en sameiginlega setustofu og eldhús. „Það er smá hótel-stemning í þessu, því þú kemur inn á stigagang og þaðan er gengið inn í séraðstöðu hvers og eins en sameiginlega svæðið er staðsett þannig að það sé í sjónlínu frá flestum herbergjum. Það er afmarkað með gleri þannig að það sést inn af ganginum og garðmegin sérðu yfir í önnur sameiginleg rými í húsinu. Við vildum búa til samfélag þar sem fólk sér hvert annað. Ef þú ert einn inni í þínu eldhúsi og enginn af þeim sem deila með þér eldhúsi er á svæðinu þá geturðu farið út í glugga eða út á svalir og séð hvort vinir þínir úr öðrum sameiginlegum rýmum eru á svæðinu.“ Að sögn Rebekku voru inngangar á Oddagörðum og síðar á Mýrargarði einnig hannaðir með aukið samneyti í huga. „Í stað þess að hafa marga innganga eru fáir. Það eykur líkurnar á því að fólk mætist og hitti nágranna sína.
Rebekka segir það hafa tekið dálítinn tíma að sannfæra fólk um kosti þess að deila sameiginlegu rými. „Við upplifðum að sumir voru hræddir við þetta til að byrja með. Þeim fannst óþægileg tilhugsun að búa með ókunnugu fólki en ekki út af fyrir sig. Þegar við vorum að úthluta á Oddagörðum í byrjun voru margir á biðlista eftir stúdíóíbúð sem voru alveg klárir á því að þeir vildu búa einir og út af fyrir sig. En við sögðum: „Við getum úthlutað þér herbergi með sameiginlegri aðstöðu. Ef þér líkar það ekki þegar þú ert fluttur inn geturðu sótt um milliflutning.“ Það var oftar en ekki þannig að fólki líkaði svo vel að það dró umsóknina um milliflutning til baka eða hafnaði milliflutningi þegar það bauðst.“ Rebekka bætir við að það geti verið dýrmætt fyrir fólk utan af landi og erlenda nemendur að eiga kost á að deila rými með öðrum. „Þau eru ekki endilega með tengslin í borginni og fyrir þessa hópa er mikilvægt að vera partur af samfélagi.“
Styttri biðlistar
„Biðlistarnir hafa verið á bilinu 600 og alveg upp í 1100, en fyrir þremur árum voru þeir í algjöru hámarki,“ segir Rebekka. „Eftir úthlutunina í haust voru rúmlega 600 manns eftir á biðlista og við höfum náð að vinna listann vel niður.“ Auk opnunar Mýrargarðs er stytting biðlista til komin vegna byggingar Skjólgarðs í Brautarholti og endurbóta á Gamla Garði sem var lokaður á meðan á þeim stóð en tekinn aftur í notkun fyrir nokkrum árum. Rebekka segir styttri biðlista bjóða upp á sveigjanlegri úthlutunarreglur fyrir nemendur Háskóla Íslands. „Til að mynda erum við að breyta reglunum núna þannig að nýnemar sem hefja nám í haust geta sótt fyrr um herbergi í vinaklösum.“ Hingað til hafa nýnemar ekki átt kost á að sækja um húsnæði á Stúdentagörðum fyrr en í júní en nú býðst þeim að sækja um herbergi um leið og opnar fyrir skráningu í HÍ í mars 2020. „Fólk hefur stundum verið í miklu óvissuástandi af því að úthlutun er kannski ekki fyrr en í júlí eða ágúst. Við vitum jafnvel til þess að fólk hafi hætt við að koma í nám vegna þess að það hafi ekki verið með húsnæði. En með þessu nýja húsi opnast meiri möguleikar.“
Rebekka segir að nú sé einnig tækifæri fyrir núverandi nemendur HÍ, sem hafi ekki talið sig eiga möguleika á að fá úthlutað, að sækja um á Stúdentagörðum. „Það sem gerist þegar svona mikill fjöldi fær úthlutað á sama tíma er að það opnast glufa fyrir fólk sem hefur áhuga á að búa á Stúdentagörðum en taldi sig ekki eiga séns á úthlutun áður. Núna er að skapast sú staða að við getum einfaldlega sagt við fólk að það eigi raunverulega möguleika þegar það sækir um.“