Mikilvægt að stuðla að fjölbreyttu samfélagi

Ljósmynd/Helga Lind Mar

Ljósmynd/Helga Lind Mar

Kolfinna Tómasdóttir er meistaranemi í lögfræði við HÍ og starfar meðfram námi sem alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs. Hún er fyrst til að gegna því embætti, en um er að ræða nýja stöðu á skrifstofu Stúdentaráðs. Hlutverk alþjóðafulltrúa felst í því að hafa yfirumsjón með þjónustu skrifstofunnar við erlenda nemendur í HÍ með það að markmiði að gæta hagsmuna þeirra og auðvelda þeim að gerast virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu. Blaðamaður Stúdentablaðsins mælti sér mót við Kolfinnu og ræddi við hana um starfið, en hún hefur sinnt því síðan í júní 2019.

„Ég er í rauninni fulltrúi allra alþjóðlegra nema sem eru hér við nám. Þetta er samtvinnað að ákveðnu leyti starfi hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs og við vinnum náið saman í ákveðnum málum. En málefni alþjóðlegra nema eru oft af öðruvísi toga en málefni íslenskra nema og það er rosalega gott að það sé manneskja sem sérhæfir sig í þeirra stöðu til að geta verið til staðar fyrir þau. Ég vinn einnig náið með Skrifstofu alþjóðasamskipta.“

Kolfinna segir það fela í sér ákveðnar áskoranir að móta stöðu alþjóðafulltrúa. „Helsta áskorunin er kannski að ég er fyrsta manneskjan til að gegna þessari stöðu og þá er ég að móta starfið að ákveðnu leyti frá grunni. Fyrsta hálfa árið til dæmis var mikið mótunarferli en mér finnst ég strax geta gert meira núna því að ákveðin mótun hefur átt sér stað. En þetta er líka áskorun sem er skemmtileg. Hver dagur er spennandi og aldrei að vita hvað gerist næst.“

 

Orðabókanotkun í lokaprófum

„Þetta er mjög góð en svolítið erfið spurning,“ segir Kolfinna aðspurð um hvort hún telji nægilega hlúð að erlendum nemum við HÍ. „Að ákveðnu leyti er mjög vel hlúð að þeim en svo eru vandamál sem eru að koma upp sem er ekki alltaf hægt að sjá fyrir. Þá til dæmis hafa komið upp nokkur mál varðandi orðabókanotkun í lokaprófum. Segjum að erlendur nemi tali íslensku, skrifi íslensku en sé ekki með akademísku íslenskuna alveg á hreinu og þurfi kannski örlitla aðstoð orðabókar í prófinu. Ef viðkomandi misskilur eitt orð í prófspurningu þá getur það haft slæmar afleiðingar. Það er leiðinlegt að sjá að það er engin ein stefna í þessu á milli deilda. Það er kannski einn kennari sem leyfir það og ekki annar. En ég er að vinna í þessu ásamt hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs og vonandi sjáum við einhverjar breytingar bráðlega.“

„Við getum ekki sett alla erlenda nema undir sama hatt.“

Kolfinna segir misjafnt hvaða leiðir séu bestar til að hjálpa erlendum nemum að aðlagast og taka þátt í íslensku háskólasamfélagi. „Við erum með mentorkerfið, sem er mjög gott kerfi en við þurfum að muna er að við erum með mjög breiðan aldurshóp á erlendum nemum. Við erum að tala um til dæmis tvítugan nema sem er hér í eina önn í BA námi á móti 30 og eitthvað ára doktorsnema sem kemur hingað með fjölskyldunni sinni. Þessir einstaklingar þurfa ekki sams konar aðhald. Við getum ekki sett alla erlendu nemana undir sama hatt. Þetta er ekki einn hópur heldur margir hópar sem hafa mismunandi áhugamál og þarfir. Þetta er ákveðið vandamál. Við viljum að þessum nemendum líði vel og ég vil halda áfram að byggja ofan á það starf sem hefur verið unnið, en það hafa margar góðar breytingar átt sér stað á síðastliðnum árum. Ef við horfum fram á við þá þarf, sem dæmi, að tryggja að upplýsingar innan háskólans séu bæði gefnar út á a.m.k. íslensku og ensku, en viðburðir háskólans og nemendafélaga geta ekki verið aðgengilegir alþjóðlegum nemum nema svo sé.“

Kolfinna segir mikilvægt að HÍ taki vel á móti erlendum nemum í skiptinám og fullt nám og geti sömuleiðis boðið íslenskum stúdentum að sækja skiptinám erlendis. „Við erum hluti af heiminum og teljum okkur vera alþjóðavæddan háskóla. Við viljum geta sent nemendur út alveg eins og við viljum taka á móti nemendum hingað. Alþjóðavæðing er af hinu góða að mínu mati. Hreyfanleiki innan námsins er dýrmætt tækifæri. Fjölbreytt samfélag er frábært og við eigum að sjálfsögðu að stuðla að því.“

 

Rafrænt skiptinám

Viðburðurinn „Umbylting háskólanáms“ fór fram þann 30. janúar síðastliðinn í Veröld - húsi Vigdísar. Kolfinna var fundarstýra á viðburðinum, en þar var fjallað um þá byltingu sem gæti átt sér stað í háskólum á næstkomandi árum. Kolfinna segir rafrænt skiptinám vera meðal þeirra breytinga sem gætu verið handan við hornið. 

„Stærstu málefnin í þessu er hreyfanleiki í námi. Að Evrópa taki höndum saman og vinni saman að því að styrkja háskólamenntun innan Evrópu og að við styrkjum flæði námsmanna á milli Evrópulandanna, en þá erum við að tala um frekari möguleika fyrir fólk til að öðlast þekkingu annars staðar frá. Þá erum við sérstaklega að tala um rafrænt skiptinám’ eða virtual exchange. Þetta byrjaði allt í Frakklandi og núna er Háskóli Íslands, ásamt átta öðrum háskólum, að sækja um veglegan styrk til Evrópusambandsins. Um er að ræða gríðarlega stór tækifæri fyrir nema til að fara í rafrænt skiptinám. Þetta er sérstaklega gott fyrir fólk sem er af einhverjum ástæðum bundið á Íslandi, en hér sjáum við alþjóðavæðinguna ná nýjum hæðum, sem er alveg frábært.“ 

Kolfinna segir misjafnt hvernig deildir innan háskólans taki í breytt námsumhverfi. „Áhættan sem myndast er að íhaldssamar deildir innan háskólans geti hunsað þetta tækifæri til frekari alþjóðavæðingar og misst þannig af fjölbreyttari nemendum. Það væri miður og hættan er sú að þær deildir missi af lestinni þegar tækifæri framtíðarinnar eru annars vegar. Stefna HÍ í alþjóðamálum er skýr, en deildirnar þurfa ekki að fara eftir stefnunni ef þær vilja það ekki.“

 

Vilji til að gera betur

Að lokum segir Kolfinna mikilvægt að háskólinn og Stúdentaráð hafi tekið skrefið og sett á stofn starf alþjóðafulltrúa. „Mér finnst frábært að þessi staða sé komin en það hefur verið þörf á henni lengi. Mótun þessarar stöðu sýnir vilja Stúdentaráðs og háskólans til þess að gera betur í málum alþjóðlegra nema og núna fljótlega mun reyna á það að hvernig vinnan er að skila sér. Ég tel að það muni taka tvö til þrjú ár að móta starf alþjóðafulltrúa Stúdentaráðs fullkomlega og ég held að fyrsta árið núna sé það erfiðasta. Næsta ár mun eflaust ná meiru fram en á þriðja starfsári mun alþjóðafulltrúahlutverkið vonandi virkilega ná að blómstra. Það hefur verið mjög skemmtilegt að byggja þetta upp og ég hlakka til að sjá hvernig starfið heldur áfram að þróast.“