„Geðveikt álag“ á stúdentum

gedveikt_alag_facebook_auglysing_1200x628px_Alexander_uppfaert.jpg

Landssamtök íslenskra stúdenta standa um þessar mundir fyrir átakinu „Geðveikt álag“. Samtökin hafa sett af stað undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að geðheilbrigðisþjónusta innan háskólakerfisins verði bætt til muna, úrræðum fjölgað og að minnsta kosti einu stöðugildi sálfræðings verði komið á innan hvers háskóla fyrir sig. Í yfirlýsingu frá LÍS segir að kröfu stúdenta um fjölgun sálfræðinga innan íslenskra háskóla hafi ekki verið mætt í alþingiskosningum árið 2017 og stór hluti stúdenta geti enn ekki sótt geðheilbrigðisþjónustu til sinnar háskólastofnunar. 

Vilja úrræði í öllum háskólum landsins

Í átakinu er áhersla lögð á að allir háskólar landsins geti boðið upp á fjölbreytta geðheilbrigðisþjónustu innan sinna veggja, ekki einungis HÍ og HR. Sigrún Jónsdóttir, forseti LÍS, segir fagnaðarefni að þessir tveir skólar hafi aukið við sín úrræði fyrir tilstuðlan stúdenta en enn sé langt í land. „Listaháskóli Íslands hefur einn starfandi sálfræðing sem stúdentar við LHÍ geta leitað til nokkra daga í viku, en efla þarf þá þjónustu enn fekar,“ segir Sigrún. „Eftir eru fjórir háskólar sem bjóða einungis upp á persónulega ráðgjöf og stuðning hjá náms- og starfsráðgjöf. Stærsta krafa herferðarinnar er að hver háskóli bjóði upp á sálfræðiþjónustu og sé þá með að minnsta kosti eitt stöðugildi sálfræðings. Þessu munum við vinna að í nánu samstarfi við aðildarfélög okkar og vonandi yfirvöld allra háskólanna.“  

Stúdentar útsettir fyrir áhættuþáttum

Í yfirlýsingu LÍS er bent á að flestir stúdentar hefji háskólanám á þeim aldri sem geðsjúkdómar komi oft fyrst fram. Þá séu stúdentar útsettir fyrir ýmsum áhættuþáttum sem geti ýtt undir þróun geðsjúkdóma. Sigrún segir forvarnir og snemmtæka íhlutun í nærumhverfi stúdenta skipta öllu máli. „Í grunnin er álag að vera í námi. Nám er full vinna en í ofanálag bætast við hlutastörf, félagsstörf, skuldbindingar gagnvart fjölskyldu og vinum og svo mætti lengi telja. Oftar en ekki verður til geðveikt álag.“ Þá bendir Sigrún á að í rannsókn frá 2017 sem kannaði einkenni þunglyndis og kvíða meðal háskólanema á Íslandi hafi komið í ljós að þriðjungur háskólanema glímdi við einkenni þunglyndis og fimmtungur við kvíða. „Þetta eru sláandi tölur og við verðum einfaldlega að setja geðheilbrigðismál í forgang innan háskólakerfisins. Við viljum tryggja stúdentum blómlegt nærumhverfi þar sem heilsa og vellíðan stúdenta er í forgrunni. Umhverfi sem gerir stúdentum kleift að vaxa og dafna, ekki bara lifa af.“

Fleiri stúdentar glíma við andleg veikindi á Íslandi

Niðurstöður Eurostudent VI könnunarinnar sýna fram á að tvöfalt fleiri íslenskir stúdentar glíma við andleg veikindi en stúdentar á hinum Norðurlöndunum. Sigrún segir könnunina hafa gefið dýrmætar upplýsingar um líðan stúdenta og að niðurstöður hennar styðji við kröfur stúdenta. „Eurostudent könnunin er yfirgripsmikil könnun sem er lögð fyrir stúdenta í 28 löndum og nær til fjölda félagslegra þátta,“ segir Sigrún. „Við þurfum að nýta þessar upplýsingar við að sníða og skapa viðeigandi þjónustu og stuðning við stúdenta. Niðurstöður Eurostudent VI styðja án efa við kröfu okkar um að efla þurfi geðheilbrigðisþjónustu innan háskólakerfisins í heild sinni.“

Hér er hægt að skrifa undir átak LÍS:

https://www.change.org/p/ríkisstjórn-íslands-við-krefjumst-geðheilbrigðisúrræða-fyrir-stúdenta