Gróska - Hús hugmyndanna
Nýsköpunarvikan var haldin dagana 30. september - 7. október. Í henni voru haldnir ýmis konar viðburðir, fyrirlestrar og sýningar tengd nýsköpun, allt á netinu! Setningarathöfn hennar var haldin í Grósku, tilkomumikilli og stórri byggingu sunnan við Öskju, sem virðist smá í samanburði.
Orðið gróska merkir „kröftugur vöxtur“ skv. íslenskri nútímamálsorðabók og er það mjög lýsandi nafn, því byggingin er nýjasta viðbótin við Vísindagarða og er hugsuð fyrir frumkvöðla og nýsköpunarstarfsemi. Á Vísindagörðum höfðu áður risið hús Íslenskrar erfðagreiningar og Alvotech/Alvogen, ásamt Mýrargarði, þar sem nýjustu stúdentaíbúðirnar eru. Gróska stendur við Bjargargötu 1, nýja götu í Vatnsmýrinni, en götuheitið er kennt við Björgu C. Þorláksson, fyrstu íslensku konuna sem lauk doktorsprófi, en það var í sálfræði.
Ekki nein venjuleg skrifstofubygging
Gróska er 17.500 m2 að stærð og á fjórum hæðum. Jarðvinna tók sinn tíma en byggingarframkvæmdir hófust í byrjun ársins 2017. Fólk átti að geta hafið störf í húsinu í lok síðasta árs, en eins og oft er með slíkar tímaáætlanir, þá seinkaði þeim. Utan frá er byggingin tilbúin, en framkvæmdir eru enn í gangi innanhúss.
Gróska er fjarska falleg bygging, hvort sem er úr fjarska, eða alveg upp við. Byggingin er steinsteypt með skemmtilegri viðarklæðningu, sem gleður augað og á eftir að taka náttúrulegan lit eftir því sem hún veðrast með tímanum. Einnig vöktu svörtu ljósastaurarnir athygli mína, en þeir standa í röð með fram austur- og suðurhliðum hússins. Húsið er alsett stórum gluggum, sem svipar til þeirra á Fréttablaðshúsinu við Hafnartorg, en forsvarsfólk Grósku gefur sig út fyrir að vera ekki með skrifstofubyggingu á sínum snærum, heldur „gróðrarstöð hugmynda, þar sem öflug fyrirtæki dafna við hlið nýrri sprota“.
Mögnuð að innan sem utan
Þegar gengið er inn í port af Bjargargötunni fer athyglin um leið á flottan og flennistóran lifandi plöntuvegg sem á að vera helsta auðkennið í húsinu en í honum búa m.a. köngulær! Þessi veggur var kominn upp í byrjun árs og hefur því dafnað á meðan Kófið hefur vofað yfir öllu og í gegnum framkvæmdir innan- sem utanhúss. Þá mætir reglulega maður sem snyrtir hann!
Við inngang hússins að vestanverðu er eins konar torg, þar sem útveggurinn breiðir út faðminn og býður fólk velkomið í Grósku. Í húsinu er gert ráð fyrir hvort tveggja veitingastað og kaffihúsi, auk verslunar- og þjónusturýma. World Class er með líkamsrækt í einu horni hússins og stór fyrirlestrasalur er í miðju þess.
Elísabet Sveinsdóttir starfar fyrir Vísindagarða. Hún sagði mér frá því að Gróska hafi átt að vera auðkennileg frá hvaða sjónarhorni sem er, jafnt í eigin persónu og á myndum. Merki Grósku er myndað út frá stiganum sem liðast upp eins og tommustokkur í miðrýminu. Hann og brýrnar, sem liggja þvert yfir innganginn í vesturendanum, eiga að tákna tengsl en það er lýsandi fyrir þann anda sem vonast er til að myndist í húsinu. Þá hafi verið horft til umhverfismála við hönnun þess.
Uppbygging í miðri Covid-kreppu
Hrólfur Jónsson starfar einnig fyrir Vísindagarða, sem eiga lóðina undir Grósku. Hlutverk félagsins í húsinu er að koma á fót nýsköpunarsetri og stefnt er að opnun þess í byrjun nóvember. „Við vonumst til að um 160 frumkvöðlar verði þar að störfum auk 40 manns hjá ýmsum stofnunum m.a. HÍ og Icelandic Startups,“ segir Hrólfur, en aðrir aðilar sem munu eiga sinn stað í Grósku eru t.a.m. Ferðaklasinn og Auðna tæknitorg.
Það hefur verið sagt, að í kreppu blómstri nýsköpunin. Siðan Kófið hófst hefur uppbygging Grósku miðað nokkuð áfram, en með einstaka hindrunum. Hrólfur segir að staðið hafi á mörgu varðandi innflutning, „t.d. komu útlendingar að setja upp handriðin og það var áskorun að finna út úr því með sóttkví og tilheyrandi“.
Frumkvöðlar og frumbyggjar
Stærsti vinnustaðurinn er án efa leikjafyrirtækið CCP sem hefur alla þriðju hæðina á leigu. Fyrirtækið flutti sig af Grandanum í Vatnsmýrina nú í sumar, en upphaflega átti það að gerast í febrúar síðastliðnum. Hrólfur segir að starfsmenn hafi unnið í fjarvinnu á meðan Covid stóð sem hæst og þó einhverjir séu nú farnir að vinna innanhúss, sé lokað á allar heimsóknir. Milli HÍ og Grósku standa nú yfir viðræður um að tölvunarfræðideildin fái aðstöðu á hæðinni og yrði hún þá í tengslum við CCP, sem sýnir fram á annað hlutverk byggingarinnar, þ.e. að tengja háskólann við atvinnulífið með beinni hætti en áður.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs mun sömuleiðis eiga sinn stað í húsinu en hún er hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar sem byggir á hönnun og arkitektúr. Hún vinnur m.a. að eflingu hönnunardrifinnar nýsköpunar, en HönnunarMars er líklega eitt þekktasta verkefnið sem Miðstöðin hefur stofnað til. „Við erum mjög spennt að flytja og erum viss um að flutningurinn muni marka upphafið að nýjum og mjög spennandi kafla í okkar starfsemi,“ segir Halla Helgadóttir, framkvæmdarstjóri Miðstöðvarinnar, en stefnt er að flutningum í Grósku í lok október þegar skrifstofa þeirra verður tilbúin. Halla segir ástæðu flutninganna vera þá að Gróska er spennandi hús, þar sem Miðstöðin verður í sambýli við líflegt umhverfi frumkvöðla og nýsköpunar, „hönnun er tæki til breytinga og nýsköpunar og það er mjög áhugavert fyrir okkur að vera í þeirri hringiðu sem verður í Grósku, þar sem við getum verið í samstarfi við, miðlað og tengt á milli skapandi greina og ólíkra hópa atvinnulífs og háskólaumhverfis“ segir Halla.
Einnig mun hugbúnaðarfyrirtækið Planitor starfa í Grósku, en að því standa þeir Jökull Sólberg og Guðmundur K. Jónsson. Planitor er miðlægur grunnur og miðlun fyrir skipulags- og mannvirkjageirann. Jökull segir að þeir hafi valið Grósku, því það sé ódýrt og flott auk þess sem að það heilli að hafa World Class í sama húsnæði. Hann býst við að það muni verða stemning í húsinu, sem sé mikill kostur.
_____________________________________________________________________
Á heimasíðunni groska.is má fræðast meira um bygginguna og starfsemina, en þar er einnig hægt spyrjast fyrir um laus athafnapláss.