En hvað er í bíó?
Eftir langan og erfiðan lærdómsdag, er fátt betra en góð kvikmynd. Í kvikmyndahúsum eru þægileg sæti, sem láta þig gleyma skólanum um stund. Það er mikilvægt að geta leyft sér slíkt endrum og eins. Stundum koma stórmyndir í Háskólabíó, sem er þægilega nálægt ef þú vilt fara beint eftir skóladaginn.
Mörgum kvikmyndum hefur þurft að fresta vegna Covid-19 og því eru sumar þeirra að koma út núna eða seinna í haust. Um þessar mundir ættu sýningar á Wonder Woman ´84 og The French Dispatch að vera hafnar. WW84 var þó því miður frestað fram á annan í jólum og hin myndin tekin af dagskrá án nokkurra skýringa og óvíst hvenær hún fer loksins á hvíta tjaldið. Sömu sögu má segja um nýjustu og 25. kvikmyndina um James Bond, No Time to Die. Henni var fyrst frestað frá apríl 2020 til nóvember 2020 og er nú áætluð í apríl 2021, ári eftir upphaflegan útgáfumánuð.
Ef þér finnst hamfarakvikmyndir skemmtilegar...
… þá mæli ég með Greenland. Hún er kannski aðeins frábrugðin flestum kvikmyndum af sama toga, þar sem hamfarirnar sjálfar eru í aðalhlutverki.. Í Greenland er ljósinu hins vegar beint að þeirri mannlegu hegðun sem birtist í ýmsum myndum við þessar heimsendaaðstæður sem steðja að fólki. Aðalpersóna myndarinnar er burðarvirkisverkfræðingur sem reynir að koma fjölskyldu sinni í öruggt skjól, en segja mætti að kvikmyndin sé í ætt við myndina 2012 frá árinu 2009. Vísindalega nákvæmni læt ég liggja milli hluta, enda er hún sjaldan aðalatriði í svona myndum. Gott hljóðkerfi og stór skjár gerir mikið fyrir upplifunina, nema fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir óvæntum hljóðum.
Ef þér finnst indie-heimildamyndir upplífgandi...
… þá mæli ég með Þriðja pólnum. Í þessari mynd, í leikstjórn Anníar Ólafsdóttur og rithöfundarins góðkunna Andra Snæs Magnasonar, fá áhorfendur smá innsýn í hugarheim fólks með geðhvarfasýki (e. bi-polar). Hún fjallar um íslenska konu, Önnu Töru Edwards, sem býr í Nepal og fær Högna Egilsson tónlistarmann til að koma og spila á tónleikum, en þeir eru liður í vitundarvakningu almennings í landinu gagnvart geðsjúkdómum. Áhorfandinn fær um leið að sjá áhugavert myndefni frá landinu, sem og gamlar upptökur úr lífi Önnu og fjölskyldu hennar. Tónlistin í myndinni er í höndum Högna sjálfs og passar hún vel við. Þessi mynd er hugljúf og fær þig til að hugsa. Þó verður að taka fram að einstaka sinnum koma blikkandi ljós og óskýrar myndir á mikilli hreyfingu, sem getur valdið óþægindum eða flogaköstum. Einnig veltir höfundur fyrir sér hvort setja mætti út á að setið sé ofan á fílum og hvernig aðstæður heimamanna sem vinna fyrir hvíta fólkið séu.
Ef þér finnst gaman að horfa á myndir sem valda heilabrotum...
… þá mæli ég með Tenet. Leikstjóri hennar, Christopher Nolan, er hvað þekktastur fyrir Batman-þríleikinn (2005, 2008, 2012) og Inception (2010). Tenet líkist einna helst Inception þar sem báðar reyna að snúa upp á sjálfan tímann, en Tenet er aðeins margslungnari hvað það varðar. Myndin er nokkuð löng (2 klst 30 min), en ef þú ert vel inni í söguþræðinum skiptir tíminn ekki öllu máli; þar hjálpar spennuþrungin tónlist hins sænska Ludwig Göransson til. John David Washington (Denzelsson) leikur aðalhlutverkið; njósnara sem fær annað tækifæri eftir misheppnaða aðgerð. Einnig á Robert Pattinson góða innkomu sem félagi Johns, en Robert hefur verið að hífa sig aftur upp á Hollywood-stjörnuhimininn upp á síðkastið. Venjulegir áhorfendur, eins og ég og þú, eru jákvæðari í garð myndarinnar en sumum gagnrýnendum sem finnst leikstjórinn reyna of mikið og lýsa myndinni á þann hátt að fyrri kvikmyndum hans ægi saman í eina. Skýringin gæti verið sú að miklar væntingar eru gerðar til Nolan og því auðvelt að koma með aðfinnslur, eða þá að leikararnir þurfa að ná sumum senum í fyrstu töku, því filman sem myndin er tekin upp á er mjög dýr og leikurinn gæti því virst óeinlægur.
Ef einhver þessara kvikmynda vekur áhuga þinn, þá ættir þú lesandi góður að klæða þig í útifötin og fara í bíó! Virðið þó fjöldatakmarkanir og persónulegar sóttvarnir!