Sigrar Stúdentaráðs í 100 ár

Myndir: Úr myndasöfnum SHÍ og HÍ

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur tekið að sér verkefni af ýmsum toga síðastliðin hundrað ár. Baráttumál stúdenta hafa verið mörg og mismunandi í gegnum árin og ótrúlegt að sjá hvað Stúdentaráð hefur gert margt fyrir háskólasamfélagið. Þegar litið er á þau fjölmörgu verkefni sem ráðið hefur tekið sér fyrir hendur, liggur það í augum uppi að baráttuandinn í stúdentum hefur alltaf verið til staðar. Hér er stiklað á stóru yfir þá sigra sem Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur unnið síðustu 100 ár.

Frekari upplýsingar má finna á nýrri vefsíðu Stúdentaráðs, student.is.

1920: Stúdentaráð stofnað: Þann 11. desember árið 1920 fóru fram fyrstu kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

1924: Fyrsta tölublað Stúdentablaðsins kom út.

1928: Félag háskólakvenna og kvenstúdenta stofnað.

1933: Hlutbundnar og leynilegar kosningar til Stúdentaráðs teknar upp. Sérstakir listar voru boðnir fram í kosningum til ráðsins og þá fóru að myndast pólitísk samtök sem sáu um slík framboð. Fyrstu samtökin, Félag róttækra háskólastúdenta, voru stofnuð sama ár.

1934 Gamli garður

1934 Gamli garður

1934: Fyrstu Stúdentagarðar teknir í notkun. Í fyrstu Stúdentagörðunum var pláss fyrir 37 nemendur sem og garðprófast. Þar var einnig lestrarsalur, bókaherbergi og íþróttasalur í kjallara.

1940 Gamli Garður Herspítali

1940 Gamli Garður Herspítali

1940: Stúdentar mótmæla hernámsliði á Stúdentagörðum. Breskir hernámsliðar lögðu undir sig Stúdentagarða. Stúdentar mótmæltu því harðlega enda áttu margir stúdentar við húsnæðisvanda að stríða. 

1943: Nýi-Garður tekin til notkunar og stúdentar flytja inn. Garðurinn var fullbúinn í september 1943, tæplega hálfu öðru ári eftir að byggingaframkvæmdir hófust. Í Nýja-Garði voru 63 herbergi og fyrsta veturinn fengu 90 stúdentar þar inni, en tveir bjuggu í mörgum einbýlisherbergjum vegna húsnæðisvandræða stúdenta.



1956: Stúdentaráð samþykkir tillögu að ráðast í byggingu Hjónagarða.



1957: Stúdentar fá fulltrúa í háskólaráð. Með lögum settum þetta ár fengu stúdentar einn fulltrúa í háskólaráði. Frá árinu 1978 fjölgaði síðan fulltrúum stúdenta í fjóra en auk þeirra áttu sæti í ráðinu háskólarektor, deildarforsetar og tveir fulltrúar Félags háskólakennara. Með breyttum lögum um Háskóla Íslands frá 1999 fækkaði aftur í ráðinu en fengu þá stúdentar tvo fulltrúa sem kosnir voru beint af stúdentum.



1959: Fjármagn til Stúdentaráðs. Fjármagnið gerði Stúdentaráði kleift að ráða fastan starfsmann. 

1968: Félagsstofnun Stúdenta stofnuð. Háskólaráð og Stúdentaráð stóðu að stofnun FS sem tók við rekstri Stúdentagarðanna, kaffistofu stúdenta í Aðalbyggingunni, Bóksölu Stúdenta, Ferðaþjónustu stúdenta og barnaheimilisins Efri-Hlíðar.

1969: Stúdentar taka fyrst þátt í kosningum til rektors.

1972 Mótmæli hjá Árnagarði

1972 Mótmæli hjá Árnagarði

1972: Stúdentar mótmæla komu William Rogers. Stúdentar stóðu fyrir mótmælum í Árnagarði vegna heimsóknar William Rogers, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mótmælendum tókst jafnframt að koma í veg fyrir heimsókn ráðherrans.

1974: Fyrsti kvenkyns formaður Stúdentaráðs kjörin. Arnlín Ólafsdóttir læknanemi var kjörin formaður Stúdentaráðs í mars 1974. Hún var fyrsta konan til að sinna því starfi og gerði hún kvenréttindi að baráttumáli stúdenta.

1975: Verkfall stúdenta. Stúdentar fóru í tveggja daga verkfall í október árið 1975 til að mótmæla skerðingu námslána.

1975 Stúdentakjallarinn tekur til starfa

1975 Stúdentakjallarinn tekur til starfa


1975: Stúdentakjallarinn tekur til starfa á vegum Félagsstofnunar stúdenta. Stúdentakjallarinn var mjög vinsæll samkomustaður stúdenta og er það enn í öðrum húsakynnum.

1976 LÍN mótmæli

1976 LÍN mótmæli

1976: Stúdentar mótmæla. Þann 15. nóvember mótmæltu stúdentar nýrri tilhögun og reglum um námslán með því að safnast saman í menntamálaráðuneytinu. Meðal þeirra var Össur Skarphéðinsson, sem síðar varð alþingismaður og ráðherra.

1987 fleiri konur en karlar í háskólanum

1987 fleiri konur en karlar í háskólanum

1987: Fleiri konur en karlar í háskólanum. Þetta ár urðu konur í fyrsta sinn fleiri en karlar á meðal stúdenta og hafa síðan verið í meirihluta. Konur voru í miklum minnihluta á meðal stúdenta Háskóla Íslands fyrstu árin en á 20 ára afmæli skólans voru aðeins 8 konur skráðar til náms eða um 5% stúdenta. Fjöldi kvenstúdenta jókst hægt en í kringum 1970 fjölgaði þeim hraðar og fór úr 25 í 39% af heildarfjölda nemenda.

1994: Stúdentaráð aflar fjár til ritakaupa í Þjóðarbókhlöðu. Stúdentaráð hóf þjóðarátak til söfnunar fjár til ritakaupa í Þjóðarbókhlöðu. Þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, var verndari átaksins sem gaf af sér 22,5 milljónir króna.


1998: Nám á nýrri öld. Stúdentar sem og Hollvinir Háskóla Íslands réðust í söfnunarátak fyrir bættum tölvukosti innan háskólans. Yfirskrift söfnunarinnar var Nám á nýrri öld og voru vonir bundnar við að safna um 20 milljónum í fjárframlögum og vél- og hugbúnaði.

2004: Mótmæla skólagjöldum. Í marsmánuði 2004 söfnuðust nemendur Háskóla Íslands fyrir utan Aðalbyggingu skólans til að mótmæla að skólagjöld yrðu sett á. Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsti yfir andstöðu við þessar hugmyndir og töldu að hægt væri að finna aðrar lausnir á fjárhagsvanda skólans. Stúdentaráð hóf undirskriftarsöfnun meðal nemenda skólans en þar söfnuðust yfir 3000 undirskriftir.

2007: Félagsstofnun stúdenta flytur á Háskólatorg. FS flytur alla starfsemi sína í Háskólatorg og opnar þar Bóksölu stúdenta og Hámu.

2012: Stúdentakjallarinn endurreistur. Stúdentakjallarinn opnar á ný og verður aftur einn helsti veitinga- og samkomustaður nemenda við skólann.

2013: Stúdentaráð stefnir íslenska ríkinu vegna LÍN. Stúdentaráð stefndi Lánasjóði Íslenskra Stúdenta sumarið 2013 vegna breytinga á útlánareglum sjóðsins. Breytingarnar földu í sér að auka lágmarkskröfu námsframvindu úr 18 einingum í 22 á önn. Stúdentaráð hafði betur þegar dæmt var í málinu í lok ágústmánaðar sama ár. Þetta var í fyrsta skipti sem Stúdentaráð hefur stefnt íslenska ríkinu. 

2019 Loftslagsverkföll

2019 Loftslagsverkföll

2019: Stúdentar hefja loftslagsverkföll. Í febrúar 2019 hóf Stúdentaráð, í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta og Samband íslenskra framhaldsskóla, loftslagsverkföll á hverjum föstudegi. Krafa verkfallanna er sú að stjórnvöld lýsi yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála og að þau ásamt fyrirtækjum grípi til aðgerða til að stemma stigu við loftslagsvánni. Verkföllin voru innblásin af verkföllum Gretu Thunberg, Fridays for future. 

Loftslagsverkfallið hlaut viðurkenningu frá Reykjavíkurborg og var valin maður ársins hjá fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.
Sama ár tók alþjóðafulltrúi stúdenta til starfa í fyrsta sinn á skrifstofu Stúdentaráðs.

2020: Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar aldarafmæli. Stúdentaráð fagnar aldarafmæli, öflugra en aldrei fyrr. Meðal mála á borði ráðsins voru nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna, áframhaldandi barátta fyrir aðgerðum í loftslagsmálum, afleiðingar og áhrif kórónuveirufaraldursins m.a. á stöðu stúdenta í námi sem og á vinnumarkaðnum. Á starfsárinu náðust ýmsir sigrar. Uppbygging stúdentagarða við Gamla Garð hófst eftir langa baráttu, og tanngreiningum á börnum og ungmennum á flótta var hætt innan veggja háskólans.