Múmínbollar: söfnunarárátta, kaupæði, ást og hatur

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Þú átt múmínbolla, ekki satt? Einhvers staðar inn á milli glasanna og bollanna í eldhússkápunum leynast tveir til þrír múmínbollar. Þú átt einn uppáhalds. Er það Mía litla? Eða Morrinn? Þú safnar kannski vor og vetrarbollum. Þú fékkst kannski einn eða tvo í tækifærisgjöf eða mögulega hefur þú látið sérútbúa hillu sem spannar allan eldhúsvegginn þar sem þú kemur fyrir fjörutíu mismunandi tegundum af múmínbollum. Fólk er mis söfnunargjarnt, en múmínbollar virðast vera komnir til að vera í lífi margra. Þú getur ekki lifað heila íslenska mannsævi án þess að komast í snertingu við þetta undur. Þessir látlausu, fínlegu (og umfram allt, sætu) bollar eiga hlutdeild í íslensku þjóðarsálinni. Bollarnir geta vakið upp hlýju og kátínu, þeir geta vakið upp fuss og hneyksli en einnig dregið fram verstu hliðar fólks. Fólk sér þess vegna hvers megnugir þeir eru, bollarnir. Fólk berst um sjaldgæfustu bollana á múmínsölusíðum, vill kaupa þá fyrir sem best verð og reynir eftir fremsta megni að selja ekki bollana sína ódýrari en þeir voru keyptir. 

Grunntilgangur bollanna hefur minna vægi. Þeir eru ekki einungis notaðir til þess að drekka kaffi, te eða hvaðeina úr, heldur eru þeir stöðutákn, þeir eru lífstíll. Bollarnir hafa skrítinn og þráhyggjukenndan tilgang fyrir fólk sem er tilbúið að gera allt fyrir þá: fara óvenjulegar leiðir til að eignast þessa einu sértæku týpu sem vantar upp á í safnið og láta jafnvel svindla á sér í blindri trú um að fá nýjan bolla sem reynist svo á endanum ekki vera til. Hvað er þetta fyrirbæri sem öll eiga? Af hverju eru þeir svo vinsælir og óvinsælir á sama tíma? Hvernig virka múmínbollar sem stöðutákn fyrir sumt fólk en ekki annað? 


Við Íslendingar elskum hluti og við elskum líka drama. Við erum hjarðdýr, og það sem er vinsælt verður því eftirsóknarverðara. Við viljum fylgja straumnum og samsama okkur öðrum. Neysluhyggjan blandast hjarðhegðuninni, við kaupum og kaupum og teljum okkur trú um að við þurfum hlutina, að við þurfum nýjustu gerðina af sumarbollanum. Við getum líka talið okkur trú um að við þurfum ekki hlutina. Sum vilja ekki fylgja múmínálfastraumnum. Sumum þykir það allt í einu ekki töff að eiga múmínbolla. Hjarðhegðunin og fjöldaframleiðslan getur haft fælingarmátt. Bollarnir þykja ekki jafn frumlegir og þeir þóttu þegar þeir komu fyrst á markað því nú á önnur hver manneskja svona bolla. Þeir lifa samt sem áður góðu lífi og þykja staðgóðar tækifærisgjafir.

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Myndir / Sædís Harpa Stefánsdóttir

Ég vissi ekki að múmínbollar væru hallærislegir. Ég var mjög sein að átta mig á því, mér fannst þeir alltaf krúttlegir og sniðugir. Ég hef keypt einn bolla fyrir sjálfa mig, en til þess að réttlæta fyrir sjálfri mér og öðrum að ég væri ekki að fylgja þessari hallærislegu hjarðhegðun (að mér fannst) þá sagðist ég hafa keypt hann í Finnlandi (sem er dagsatt). Ég taldi mér trú um að bollinn sem ég hafði keypt væri sérstakari þar sem múmínálfarnir koma nú einu sinni frá Finnlandi. Ég gat verið stolt af því að hafa ekki keypt minn bolla í Húsgagnahöllinni heldur í finnskri stórverslun.

Það er eitthvað við bollana sem heltekur fólk. Þeir glansa, hafa persónuleika og geta sagt til um hvaða eiginleika þú hefur að geyma. Þeir endurspegla veðurperrana í okkur. Við veljum vorbollann þegar fer að vora, Morrann þegar það er skafrenningur og myrkur úti, og vetrarbollann þegar snjórinn fellur fallega til jarðar og það er friður yfir öllu. 

Ég held því fram að Íslendingar elski múmínbolla inn við beinið. Það er kannski einungis neyslumenningin í kringum þá sem er fráhrindandi, því ég held að við endurspeglum okkur öll í múmínkarakterum. Við erum öll Mía litla, Morrinn, Múmínmamma, Múmínpabbi, Snabbi, Snúður, Hattífattar, Snorkstelpan, Ósýnilega stelpan og svo lengi mætti telja. Við tengjum við mismunandi eiginleika þeirra. Þið afsakið væmnina, en ég tel að þessir karakterar eigi hlut í hjarta og sál okkar allra. Við elskum múmínbolla sama hvort við söfnum fjörutíu eintökum eða fáum þá „óvart“ að gjöf.