Fyrrum forsetar SHÍ: Afturhvarf til fortíðar
Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar aldarafmæli í ár. Í ráðinu er fólk sem berst fyrir hagsmunum stúdenta; stórs hóps sem stundum er litið fram hjá, og ljær honum rödd í samfélagslegri umræðu. Í forsvari þess er manneskja sem er andlit stúdenta út á við; forseti SHÍ. Á hinum langa lista fyrrum forseta má finna þekkt fólk á borð við Dag B. Eggertsson borgarstjóra og Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa. Blaðamaður Stúdentablaðsins hafði samband við nokkur af þessum lista og forvitnaðist um hvað þau hefðu gert á sínum tíma og hvað þau væru að fást við í dag.
Viðhaldsleysi og lág námslán
Einn elsti núlifandi forsetinn er Ólafur Egilsson, en hann sinnti embættinu skólaárið 1958-59. Hann starfaði í 40 ár í utanríkisþjónustunni og var sendiherra víða; allt frá Englandi og Danmörku í vestri til Rússlands og Kína í austri. Ólafur hefur sinnt ýmiss konar félagsstörfum eftir starfslok sín, t.d. í kínversk-íslenska menningarfélaginu. „Mikil vanþekking á sögu, menningu og lífi þessara þjóða þykir mér að óþörfu spilla eðlilegum samskiptum við þær,“ segir Ólafur um Rússa og Kínverja.
Aðspurður um helstu baráttumálin í hans tíð segir hann að helst hafi borið á slæmu viðhaldi stúdentagarða í Gamla og Nýja garði. „Þessi staða kæfði tal um byggingu Hjónagarðs sem orðin var þörf fyrir, ljóst mætti vera að ekkert fé væri til nýbygginga. Við stigum því fyrsta skrefið til að að stúdentar tækju sjálfir yfir rekstur sumarhótelsins fyrir ferðamenn, sem garðarnir höfðu verið leigðir út fyrir.“ Ólafur segir að hann hafi verið forseti á viðburðaríkum tímum: „Stúdentar fylgdust vel með alþjóðamálum á þessum árum. Þegar Sovétstjórnin bannaði rithöfundinum merka Boris Pasternak að taka við Nóbelsverðlaunum sendi SHÍ frá sér harðorða ályktun til stúdentasambanda um allan heim.“
Í formannstíð Ólafs tókst Stúdentaráð á við menntamálaráðuneytið um hvort halda mætti áramótafagnað stúdenta í anddyri háskólans, sem ráðuneytið kom í veg fyrir. Þá kom Stúdentablaðið oftar út en venja var; fimm tölublöð voru gefin út. Í því síðasta kemur m.a. fram að í fyrsta sinn hafi átta vikna námskeið í íslenskri tungu og bókmenntum fyrir norræna stúdenta verið haldið á vegum Stúdentaráðs.
Einnig voru lánamálin ofarlega á baugi. „Stúdentar núna yrðu hissa á fjárhæðunum. Minnir að þær hafi svarað til eins eða tveggja mánaðarlauna og fjarri því að allir fengju. Gleðimenn og gárungar í hópi stúdenta sögðu að þetta rétt nægði fyrir góðri helgi!“ segir Ólafur, en þá voru tæplega 800 stúdentar í HÍ, miðað við rétt um 15.000 í dag.
Átök um námslán - eilífðarmál
Líkt og í lok sjötta áratugarins voru lánamál einnig stærsta mál Stúdentaráðs á síðari hluta þess níunda. Björk Vilhelmsdóttir var í ráðinu 1985-87. „Námslánin voru þá sem nú grundvöllur þess að fólk gæti stundað nám, óháð fjárhagslegri stöðu þeirra. Jafnrétti til náms var leiðarstefið sem allt snerist um,“ segir Björk sem tók við stöðu forseta eftir að meirihlutinn í Stúdentaráði sprakk í byrjun árs 1986, vegna átaka um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). „Nokkrir mánuðir Stúdentaráðs og hinna námsmannahreyfinganna; BÍSN (Bandalag íslenska sérskólanema) og SÍNE (Samband íslenskra námsmanna erlendis) fór í að verja námslánin og koma í veg fyrir fyrirhugaðar breytingar,“ segir Björk. Þá mættu yfir 1000 námsmenn í Háskólabíó á fund sem hreyfingarnar héldu. „Þangað kom menntamálaráðherra og fann fyrir gríðarlegri samstöðu stúdenta um þáverandi kjör námslána. Allar hugmyndir sem ríkisstjórnin vann að fengu engan hljómgrunn. Þessi samstaða varð held ég til þess að ekki var frekar átt við námslánin fyrr en með breyttri lagasetningu árið 1992.“
Eftir háskólanám vann Björk við félagsráðgjöf. Árin 1998-2002 var hún formaður Bandalags háskólamanna og eftir það tóku við 13 ár í borgarstjórn Reykjavíkur. Eftir pólitíkina bætti Björk við sig MA-námi í félagsráðgjöf og starfar nú sem félagsráðgjafi í þverfaglegri starfsendurhæfingu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði.
Skemmtilegar staðreyndir:
Vaka (stofnað 1935) hefur átt forseta í 40 skólaár, en Röskva (stofnað 1988) í 17 skólaár (þetta meðtalið), þar af 11 í röð (1991-2002), sem er lengsta samfellda tímabil einnar hreyfingar á forsetastóli.
Hörður Sigurgestsson er sá eini, hingað til, sem hefur verið forseti í tvö skólaár (1960-1962).
Arnlín Óladóttir var fyrst kvenna til að verða forseti Stúdentaráðs (1974-75). Nú hafa fjórar konur í röð verið forseti SHÍ, sem er met! Isabel Alejandra Diaz er sextánda konan og 101. í röðinni yfir forseta frá upphafi.
Dósasöfnun stúdenta
Guðmund Steingrímsson þekkir fólk líklega vegna pistlaskrifa sinna og tíma hans á alþingi, en hann stofnaði stjórnmálaflokkinn Bjarta framtíð. Færri vita að hann var forseti SHÍ 1995-96, en námslánin voru þá enn sem oftar bitbein ráðsins og stjórnvalda. „Við vorum að berjast í því að afnema eftirágreiðslur námslána og fyrir fleiri umbótum á námslánakerfinu, og við vildum hærri framlög til Háskóla Íslands á fjárlögum,“ segir Guðmundur, sem nefnir einnig að ráðið hafi komið á aðstoðarmannakerfi, en það byggir á því að kennarar fái hjálp frá stúdentum við kennslu eða rannsóknir. Þá var barist fyrir lengri opnunartíma á Þjóðarbókhlöðunni; „[við] vöktum athygli á þessu með því að efna til dósasöfnunar handa Þjóðarbókhlöðunni. Settum gám við Hringbraut þar sem við söfnuðum dósum handa ríkinu. Hann fylltist aðallega af drasli, en skilaboðin komust áleiðis.“
Eftir að tíma hans í HÍ lauk fór Guðmundur út í heimspekinám, var viðriðinn fjölmiðla og var í tónlist. Í dag er hann rithöfundur og ritstjóri útivistartímarits, en sömuleiðis meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði. „Þannig að ég er að koma aftur í háskólapólitíkina,“ segir Guðmundur að lokum.
Góð stemning og nýjar byggingar
„Heilt yfir var bara góð stemning held ég, eins og í samfélaginu almennt á þessum tíma,“ segir Dagný Aradóttir Pind, forseti SHÍ 2007-08, um stúdentalífið á hápunkti góðærisins. Samt sem áður urðu stúdentar að berjast fyrir sínum hag og klassísk baráttumál voru í forgrunni: „Biðlistar eftir stúdentagörðum voru t.d. mjög langir á þessum tíma og vorum við að berjast fyrir að fá lóðir t.d. við Gamla garð, og það er ánægjulegt að það sé byrjað að byggja þar núna,“ segir Dagný.
Að frátaldri sameiningu Kennaraháskólans við Háskóla Íslands var opnun Háskólatorgs stærsta breytingin þetta ár, að mati Dagnýjar. „Háskólatorg var samt held ég stærsta breytingin á lífinu í Háskólanum í áratugi. Það var strax byrjað að halda tónleika og viðburði þar, og svo auðvitað breyttist margt við að fá Hámu og Bóksöluna allt á sama stað. Lifnaði einhvern veginn yfir öllu. Ég held að stúdentar í dag átti sig ekki á því hvernig lífið í HÍ var fyrir Háskólatorg, þetta er algjörlega hjartað í samfélaginu, eins og Páll Skúlason heitinn sá fyrir sér,“ segir Dagný.
Með fram lögfræðináminu vann hún hjá markaðs- og samskiptasviði HÍ. „Það var mjög skemmtilegt og reynslan frá stúdentapólitíkinni skilaði sér vel þar inn. Svo kláraði ég lögfræðina og fór fljótlega að vinna hjá verkalýðshreyfingunni,“ segir Dagný, en í dag starfar hún hjá BSRB. Stytting vinnuvikunnar er aðalverkefni hennar þessa dagana, sem er mjög spennandi að hennar sögn.
Jólapróf í júní?
Forsetar Stúdentaráðs hafa líklega aldrei verið jafn áberandi og síðastliðinn áratug, en Internetið og samfélagsmiðlar hafa auðveldað ráðinu að koma málefnum stúdenta í umræðuna. Fyrir fimm árum var Aron Ólafsson forseti SHÍ og undir hans stjórn kom hann ýmsu af stað sem stúdentar í dag taka kannski sem gefnum hlut. „Eitt af okkar helstu baráttumálum var að færa sjúkra- og endurupptökuprófin fyrir haustönn á Verkfræði- og Náttúruvísindasviði sem voru eftir vorönnina fram og hafa þau fyrir vorönnina. Það er glórulaust að nemandi sem var veikur í jólaprófunum og ætti rétt á sjúkraprófi að það væri 6 mánuðum seinna,“ segir Aron og bendir á að þá hafi Stúdentaráð einnig komið Tengslatorgi á laggirnar og tryggt stúdentum lóð á Vísindagörðum: „Það var smá puð því þetta er verðmætt byggingarland í Vatnsmýrinni og um tíma þá virtist Háskólinn vera tvístíga hvort það ætti að láta okkur fá þá lóð. En eftir gott samtal við Borgaryfirvöld og Háskólann þá fór það verkefni í gegn og nú búa stúdentar þarna, það er magnað hvað Stúdentaráð hefur mikil áhrif á Háskólasamfélagið!“
Aron er í dag framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtaka Íslands. „Það er fátt skemmtilegra en að vinna við eitthvað sem maður hefur brennandi áhuga á,“ segir Aron og bætir við „svo nú er maður að styðja við öll þau sveitarfélög, menntastofnanir, ungmennahús og íþróttahreyfingar sem vilja bjóða upp á skipulagt starf í rafíþróttum með fræðslu og þjálfun fyrir verðandi rafíþróttaþjálfara.“
______________________________________________________________________________________________________________
Það má sannarlega segja að án SHÍ og forsetanna, þá væri líf stúdenta erfiðara en ella. Hamingjuóskir með aldarafmælið, megi næsta öld stúdentabaráttu vera enn blómlegri!