Óður til kvenna Háskólans

Stúdentsárgangur Kristínar Ólafsdóttur

Stúdentsárgangur Kristínar Ólafsdóttur

Árið 1911 voru Læknaskólinn, Lögfræðiskólinn og Prestaskólinn sameinaðir í Háskóla Íslands, með viðbættri Heimspekideild. Sama ár var íslenskum konum veittur jafn réttur til náms á við karlmenn með lagasetningu á Alþingi og þetta fyrsta starfsár Háskólans stunduðu 45 nemendur í honum nám, þar af ein kona. Á þeim rúmlega hundrað árum frá stofnun skólans hafa þessi hlutföll breyst töluvert, kvenkyns nemendur hafa sótt í sig veðrið og telja nú til mikils meirihluta nemenda. En þetta gerðist ekki bara á einni nóttu.


Upphafið: Fyrsti kvenkyns nemandinn

Kristín Ólafsdóttir

Kristín Ólafsdóttir

Þessi fyrsta kona sem ég nefndi hér í efnisgreininni að ofan hét Kristín Ólafsdóttir, og var læknanemi. Árið 1917 var hún jafnframt fyrsta konan sem lauk námi frá skólanum. Kristín fæddist árið 1889 og lauk stúdentsprófi utan skóla frá Latínuskólanum árið 1911 og var þriðja konan á Íslandi til þess. Þegar hún hafði lokið námi sínu við Háskóla Íslands hélt hún til Danmerkur og Noregs í framhaldsnám ásamt eiginmanni sínum, Vilmundi Jónssyni. Árið 1931 var Vilmundur skipaður landlæknir og hjónin, sem höfðu eftir námsárin í Skandinavíu stundað lækningar á Ísafirði, fluttu sig og börnin þeirra þrjú til Reykjavíkur. Þar opnaði Kristín sína eigin læknastofu sem hún rak fram til síðustu æviáranna. Hún lést árið 1971, 81 árs. 

Ferill Kristínar er mjög merkilegur í sögulegu samhengi við Háskóla Íslands og þegar gengið er upp stigann áleiðis til Hátíðarsalar Háskólans á annarri hæð Aðalbyggingarinnar má sjá portrettmynd af Kristínu sem afhend var skólanum á 100 ára afmæli hans 2011 af þáverandi rektor, Kristínu Ingólfsdóttur.

Fyrstu áratugina var brottfall kvenna úr Háskólanum hátt. Nám þeirra var ekki tekið alvarlega og gjarnan litið svo á að það væri tímabundin iðja, áhugamál, þar til þær giftu sig og færu að halda heimili. Eftir því sem á leið tuttugustu öldina minnkaði hlutfall kvenna sem flosnuðu upp úr námi og fjöldi útskrifaðra kvenna jókst hægt og bítandi. Konur hafa verið í meirihluta útskrifaðra úr grunnnámi síðan 1988 og úr meistaranámi síðan 1998, að undanskildu árinu 2002. Þróunin er hröð, og það mætti jafnvel kalla hana byltingarkennda. En hver var arfleið Kristínar og hvar fór boltinn að rúlla?

Brautryðjendur

Björg Caritas Þorláksdóttir

Björg Caritas Þorláksdóttir

Fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi og jafnframt fyrsti Norðurlandabúinn til að ljúka slíku prófi frá Sorbonneháskóla var hálfnafna mín Björg Caritas Þorláksdóttir í sálfræði árið 1926. Frá Háskóla Íslands lauk fyrsta konan þó ekki doktorsprófi fyrr en þrjátíuogfjórum árum seinna, Selma Jónsdóttir í listfræði, 1960. Þessar konur voru tvímælalaust brautryðjendur og ultu stærðarinnar steinum í vegi íslensku námskonunnar. Inni á heimasíðu Kvennasögusafnsins, kvennasogusafn.is, er hægt að skoða lista yfir íslenska kvendoktara allt frá Björgu til ársins 2015, og umfjöllunarefni ritgerða þeirra. Þar er líka að finna lista yfir aðra brautryðjendur í baráttu íslenskra kvenna og ég tók saman nokkrar af þeim ótalmörgu konum sem hafa rutt brautina innan samfélags Háskóla Íslands.

Selma Jónsdóttir

Selma Jónsdóttir

Anna Sigurðardóttir (1908-1996), stofnandi og þáverandi forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, hlaut heiðursdoktorsnafnbót við heimspekideild Háskóla Íslands, fyrst íslenskra kvenna árið 1986.

Auður Auðuns (1911-1999) lauk prófi í lögfræði fyrst íslenskra kvenna árið 1935.

Ásta Dís Óladóttir (f. 1972) er fyrst ís­lenskra kvenna til að gegna stöðu deild­ar­for­seta viðskipta­deild­ar við há­skóla á Íslandi, ráðin 2009.

Dagný Kristjánsdóttir (f. 1949) varði doktorsritgerð sína „Kona verður til" við Háskóla Íslands árið 1997, fyrsta doktorsritgerðin sem samin er á íslensku og varin við Háskóla íslands á því sviði sem nefndist kvennafræði, eða femínisk fræði.

Geirþrúður Hildur Bernhöft (1921-1987) lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands, fyrst kvenna. Hún lét ekki vígjast til prests.

Helga Kress

Helga Kress

Helga Kress (f. 1939) var sett lektor, fyrst kvenna, við heimspekideild Háskóla Íslands árið 1970 og skipuð forseti heimspekideildar við Háskóla Íslands, fyrst kvenna til að gegna embætti deildarforseta við háskólann árið 1997.

Jóhanna Magnúsdóttir (1896–1981), lyfjafræðingur, lyfsöluleyfi fyrst kvenna árið 1928.

Karólína Sigríður Einarsdóttir (1912–1962) lauk kennaraprófi (fullnaðarprófi) í íslenskum fræðum frá heimspekideild Háskóla Íslands, fyrst kvenna, árið 1950.

Kristín Ingólfsdóttir (f. 1954) skipuð rektor Háskóla Íslands árið 2005, fyrst kvenna við Háskóla Íslands.

Margrét Guðmunda Guðnadóttir (1929-2018), veirufræðingur og fyrst kvenna prófessor við Háskóla Íslands..

Sigríður Th. Erlendsdóttir (f. 1930), brautryðjandi í rannsóknum á sögu íslenskra kvenna var gerð að heiðursfélaga Sögufélagsins árið 2008, fyrst kvenna.

Sigríður Þorgeirsdóttir (f. 1958) heimspekingur ráðin lektor í heimspeki við Háskóla íslands árið 1997, fyrst kvenna til að hljóta fasta ráðningu í heimspeki.

Sigrún Helgadóttir (f. 1937) lýkur fyrri hluta prófi í verkfræði fyrst íslenskra kvenna árið 1963.

Steinunn Anna Bjarnadóttir (1897-1991) hóf nám í norrænu við heimspekideild Háskóla Íslands, fyrst kvenna, árið 1916 og lauk námi þremur árum síðar.

Upplýsingar fengnar af heimasíðu Kvennasögusafnsins, kvennasogusafn.is.



Nokkrar staðreyndir

  • Í hundraðogníuára sögu Háskólans hefur einungis einn kvenkyns rektor verið settur í embættið.
    Kristín Ingólfsdóttir var starfandi rektor á árunum 2005 til 2015, sú 38. til að gegna embættinu.

  • Síðustu ár hefur kynjahlutfall nemenda við Háskóla verið um 2:1 konur. Þetta á við eins og staðan er núna.

  • Konur skipa formannssæti allra sviðsráða Háskólans að frátöldu Félagsvísindasviði þetta skólaárið.

  • Forseti Stúdentaráðs hefur verið kvenkyns síðustu fjögur árin í röð.

  • Sex af sjö starfsmönnum skrifstofu SHÍ eru konur.

  • Ritstjóri Stúdentablaðsins hefur verið kvenkyns fimm af síðustu sex árum.