Ungt fólk í forystu: Viðtal við Mladen Živanović, forseta AIESEC á Íslandi

Þýðing: Stefán Ingvar Vigfússon

Aðsend mynd

Aðsend mynd


Ungmennafélagið AIESEC trúir því að leiðtogahæfileikar séu öllum nauðsynlegir og að öll geti tileinkað sér þá. Megintilgangur félagsins er auka traust til leiðtogahlutverksins og stendur það fyrir menningarskiptum í þeim tilgangi. Sem stendur starfar AIESEC í 126 löndum og er stærsta ungmennafélag heims. Við ræddum við Mladen Živanović, forseta Íslandsdeildarfélagsins, í gegnum samskiptaforrit.

 

Gaman í sjá þig í gegnum rykfallinn skjáinn. Áður en við byrjum vil ég spyrja þig hvernig þú hefur það.

Ég hef það fínt. Ég hélt að vísu að faraldurinn yrði styttri og að ég myndi þola hann betur, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Í fyrstu bylgju var aðeins léttara yfir öllu, en núna veit ég hversu einmanalegt þetta getur orðið. Ég er frekar kvíðinn og ákvað að fara til Möltu að heimsækja fjölskylduna mína. Það hafði góð áhrif á heilsuna, í ljósi þess að ég er ekki búinn að hitta fjölskylduna mína í tæpt ár.

 

Auk þess að vera forseti AIESEC ertu stúdent við Háskóla Íslands. Er auðvelt að finna jafnvægi milli þessara skuldbindinga?

Það er heljarinnar vinna þar sem ég ber höfuðábyrgð á þessum félagasamtökum, en ég er líka að setja námið í forgang. Það er erfitt að halda jafnvægi, ég lýg því ekki. Það sem er þægilegt, allavega þessa önnina, er að geta horft á upptökur af fyrirlestrum. Það léttir undir. Ég hef verið að vinna í verk- og tímaskipulagi frá því að ég tók við starfinu í júlí. Ég þurfti að hafa góða stjórn á hlutunum til þess að þeir færu ekki að flækjast hver fyrir öðrum, en eins og við vitum, þá getur það gerst. Þetta er mjög mikilvægur eiginleiki og AIESEC hefur hjálpað mér við að tileinka mér hann.

 

Hvers vegna ættu nemendur að taka þátt í starfi AIESEC? Hvað býður AIESEC nemendum á Íslandi?

Tilgangur AIESEC er að móta unga leiðtoga og hjálpa þeim að stuðla að jákvæðum breytingum.  Það er hreinlega það sem við gerum. Ég og samstarfsfólk mitt ákváðum, hvað Ísland varðar, að við vildum bjóða meðlimum upp á einstaka upplifun í ár. Við bjóðum upp á vettvang fyrir þau til þess að tileinka sér alls kyns hæfileika, læra að verða lausnamiðaðir og meðvitaðir heimsborgarar, og læra hvernig þau geta aðstoðað aðra.

 

Hvernig verkefni og ungmennaskipti skipuleggið þið?

Eitt stærsta verkefnið okkar eru Framadagar, sem við höfum staðið fyrir undanfarin 26 ár. Það er mjög áhugavert fyrir stúdenta, en ekki síður fyrir fyrirtækin sem fá tækifæri til þess að hitta þá og kynna vörur sínar. Hitt verkefnið, sem er í gangi allt árið, eru sjálfboðaliðaverkefni fyrir ungt fólk um allan heim, en við vinnum það í samstarfi við Veraldarvini. Þau vinna að verkefnum sem snúa að sjálfbærnismarkmiðum. Eitt markmiða AIESEC er að búa til vettvang fyrir fólk sem vill komast út fyrir þægindarammann sinn og kynnast sjálfu sér. Það er ótrúlegt hversu mikil áhrif þessi skipti hafa, þótt þau standi yfirleitt bara í 2-3 mánuði.

 

Þú talaðir um áhrif COVID á heilsu þína. Hvernig stendur AIESEC í þessu ástandi?

Aðsend mynd

Aðsend mynd

Rekstur félagasamtaka er ruglandi og erfiður þessa stundina. Almennt eru plön félagasamtaka svipuð frá ári til árs. AIESEC er að jafnaði virkara á vissum tímabilum, en vegna faraldursins virðist það vera komið í rugl. Plönin okkar breyttust fyrst í ágúst og hafa haldið áfram að breytast aðra hverja viku. Upp á síðkastið höfum við snúið okkur að því að vera alfarið á netinu. Það er frekar skrýtið. Ég er búinn að vera í samstarfi við aðra forseta félagsins í Evrópu og víðar, og við erum búin að finna góðan farveg að vinna og hanga saman á netinu.

 

Hverjar eru helstu breytingarnar við skipulagningu AIESEC fyrir árið 2020?

Í ár þurfum við að gera flest stafrænt. Núna er allt orðið 100% stafrænt, en þegar COVID-19 smitum fækkaði gátum við hist aðeins í eigin persónu. Við erum að reyna svara þörfum stúdenta. Til dæmis var mikil eftirspurn eftir leiðbeiningum við notkun stafrænna miðla, að kenna, halda utan um hópinn sinn og að halda kynningar á netinu. Einn hópurinn, sem er að skipuleggja Framadaga, er til dæmis að læra hvernig best er að skipuleggja viðburði á netinu og þau eru að þróa hæfileika í sölu, stafrænum samskiptum og markaðssetningu á netinu.

Sérðu fram á samstarf milli AIESEC og Háskóla Íslands?

Já, við erum að vinna að samstarfi við Háskóla Íslands og aðra evrópska háskóla til þess að virkja hæfileikaríkt fólk alls staðar að. Þetta er tækifæri fyrir nemendur að fá fjölþjóðlega reynslu með evrópsku fyrirtæki. Á næstu önn verðum við með tæmandi lista yfir starfsnám og nemendur Háskóla Íslands geta sótt um, farið í „skipti“ og unnið með evrópskum fyrirtækjum. Markmið háskólans er að meta þessi skipti eins og lokaverkefni - telja þau til eininga. [...] Meira en 50 aðilar frá HÍ hafa tekið þátt í starfi AIESEC sem meðlimir, sjálfboðaliðar eða með því að taka þátt í alþjóðlegum skiptum. Takk [HÍ] fyrir að vera til staðar fyrir okkur og hjálpa okkur í þessu ferli.

 

Að lokum vil ég benda á að SHÍ á 100 ára afmæli daginn sem þetta blað kemur út. Viltu bæta einhverju við?

Ég vil óska SHÍ til hamingju með afmælið! Við bjóðum ykkur í 60 ára afmæli okkar á næsta ári, stór tala okkar megin.


Takk fyrir það, við sjáumst í afmælisveislu AIESEC árið 2021!