Malbik og margarítur

Kolfinna Tómasdóttir / Aðsend mynd

Kolfinna Tómasdóttir / Aðsend mynd

Síðasta vetur rættist langþráður draumur minn. Umsókn mín um framhaldsnám við Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna í Kosta Ríka, UPEACE, var samþykkt fyrir skólaárið 2020-2021. Þar ætlaði ég að nema alþjóðalög og úrlausn deilumála (e. International Law and the Settlement of Disputes), en þetta framhaldsnám var stór ástæða þess að ég ákvað að læra lögfræði við HÍ til að byrja með. Tilhlökkunin var mikil og planið var að taka pásu frá meistaranáminu hér heima meðan á dvölinni úti stæði, koma svo heim aftur til að ljúka meistaragráðunni í HÍ. Í byrjun 2020 fannst mér sem ég væri strax komin með frosna margarítu í hönd og Hawaiian Tropic túbuna í hina á meðan ég æfði mig í spænskunni og heimsótti mismunandi strendur hverja helgi, þess á milli sem ég nam fræðin af kappi. Ég ætlaði mér að ferðast um Mið- og Suður-Ameríku þar sem ég myndi læra tangó í Buenos Aires, ganga Inkaslóðina til Machu Picchu, sigla niður Amazon og svo margt fleira. Ævintýrin voru endalaus. 

image3.jpeg
image4.jpeg

Það leið ekki á löngu þar til þessi langþráðu plön urðu fjarlægir draumar þar sem margarítunum var skipt út fyrir hvítan Monster og sólavörninni fyrir kuldakrem og sprittbrúsa. COVID-19 kom og á svipstundu breyttust framtíðarplönin, nýr veruleiki var í mótun og við þurftum öll að aðlagast hratt. Næstu mánuðina var allt í lausu lofti og ég vissi ekki hvað var framundan, í hvaða heimsálfu ég myndi búa, hvort ég ætti að fresta náminu úti um ár og þá við hvorn skólann ég myndi læra á komandi skólaári. Sumarið fór í að skipuleggja plan A, B og C en rúmum 2 vikum fyrir áætlaða brottför varð ljóst að af henni myndi ekki verða. Búið var að úthluta öðrum íbúðinni minni á Stúdentagörðunum og í stað þess að kveðja dásamlegu Lindargötuna með vegabréfið í hönd var ferðinni heitið heim til mömmu. Tekjulaus, sólarlaus og óviss um hvað væri klókast að gera ákvað ég að hefja nám við UPEACE í fjarnámi og klára samhliða þá áfanga sem ég átti eftir við HÍ. Ég áttaði mig á því að önnin yrði strembin, en með þessu móti gæti ég teygt dvölina í Kosta Ríka í hinn endann ef ég þyrfti ekki að drífa mig heim til Íslands til að mæta í tíma haustið 2021. Þetta var hið fullkomna plan, þar til önnin hófst og ég áttaði mig á því hversu þung hún myndi verða.

Það er svo merkilegt hvernig fastmótuð plön virðast sjaldnast verða eins og við héldum í upphafi. Lífið grípur inn í og breytir aðstæðum eða stýrir okkur jafnvel í allt aðra átt sem við höfðum aldrei hugleitt, átt sem kennir okkur jafnvel meira. Ég veit ekki enn hvernig ég á að melta þetta ár, en mér er svo sannarlega ljóst hversu heppin ég er að hafa þak yfir höfuðið í þessum heimsfaraldri.

image1.jpeg

Lagadeildin úti telur um 20 einstaklinga frá 14 löndum. Til að byrja með átti ég erfitt með að skipuleggja hvenær ég ætti að sinna hvorum skóla en stundatöflurnar röðuðust nokkurn veginn þannig að ég hef sinnt HÍ flesta daga fyrir hádegi og UPEACE eftir hádegi, þar sem kvöldin hafa farið í þau verkefnaskil sem eru handan við hornið og helgarnar í að vinna upp og vinna mér í haginn hin ýmsu verkefni. Tímamismunurinn hafði meiri áhrif en ég hafði gert mér grein fyrir, en Ísland er 6 klukkutímum á undan Kosta Ríka. Fyrst um sinn fannst mér óþægilegt að mæta í tíma alla eftirmiðdaga og fram á kvöld þegar síðdegisþreytan fór að segja til sín á meðan helmingurinn af bekknum var á fyrsta kaffibollanum og nýbúinn að nudda stýrurnar úr augunum í kennslustofunni í Kosta Ríka. Tempóið var ekki það sama þvert á hópinn en ég varð þakklát fyrir mitt tímasvæði þegar ég áttaði mig á því að Julietta frá Finnlandi missir af kvöldmatnum með meðleigjendum sínum og borðar afganga öll virk kvöld, og félagi minn Toru frá Japan er kominn í svefngalsa í miðjum tíma því klukkan er komin yfir miðnætti hjá honum og að nálgast þrjú um nótt í lok kennslustundar þegar nemendurnir í Kosta Ríka fara saman í hádegismat og ræða fyrirlestur dagsins.

UPEACE / af heimasíðu þeirra

UPEACE / af heimasíðu þeirra

Það er ekki bara tímamismunurinn sem hefur einkennt nemendahópinn frá mismunandi svæðum heimsins, en það að nema úrlausn deilumála með jafn fjölbreyttum hópi hefur verið ómetanleg upplifun. Ég áttaði mig snemma á því að á þessu ári mun ég ekki einungis læra mikið í krefjandi námi á öðru tungumáli, heldur hversu mikið ég mun læra af samnemendum mínum frá öðrum menningarheimum. Það varð ljóst fyrstu vikuna í náminu, þegar nemendur áttu að nefna helstu deilumálin í fjölmiðlum heima hjá sér þar sem nemandi frá Cameroon talaði um mánudagsútgöngubannið og nemandi frá Nígeríu lýsti mótmælum sem voru orðin verulega ofbeldisfull – á sama tíma var helsta deilumálið í fjölmiðlum á Íslandi um hvort það ætti að malbika veg í Öskjuhlíðinni eða ekki. Á svipstundu bliknuðu deilurnar sem ég upplifði í samanburði við daglegt brauð samnemenda minna. Til að byrja með átti ég mjög erfitt með fjalla um deilumál innan Íslands, en eftir því sem líður á námið finn ég styrk í því að Ísland sé friðsælt og að hér á landi ríki mesta jafnrétti í heimi, þrátt fyrir að við eigum enn langt í land.

Hópavinnan hefur hingað til gengið þokkalega smurt fyrir sig þar sem tímamismunurinn er ekki óyfirstíganlegur, en ég væri svo gjarnan til í að skipta ullarsokkunum og heimaæfingunum á stofugólfinu heima hjá mömmu út fyrir sandala og hádegismat með samnemendum, þrátt fyrir grímuskyldu á skólalóðinni. Að vera í rafrænu námi er, eins og við þekkjum eflaust öll, gríðarlega mikið álag og það er mikilvægt að muna eftir daglegum göngutúrum og að þetta er tímabundið ástand. Áhyggjurnar eru miklar, fjölbreyttar og sumir dagar eru erfiðari en aðrir, og það er bara allt í lagi. Þetta er erfitt, en við komumst í gegnum þetta saman. 

Kolfinna - en nota þessa ef hin er í vondum gæðum (hún er af facebook).jpg




Námið við UPEACE hefur verið gríðarlega gefandi og undir lok fyrstu annarinnar get ég með sanni sagt að þetta nám mun hafa mikil áhrif á sýn mína á heiminn og hvernig ég mun leysa úr hinum ýmsu deilumálum í starfi og einkalífi í framtíðinni. Ég er sannfærð um að þessi óvænta reynsla haustannarinnar muni gera mig sterkari og þakklátari fyrir lífið og tilveruna, og ég hlakka til að læra meira, en allra mest hlakka ég til að fá margarítuna í hönd með þykku lagi af sólarvörn í lok ársins 2020.