Hvaða bækur verða í jólapökkunum í ár?
Það er gott að leggja frá sér skólabækurnar öðru hvoru og lesa sér til gamans, desember er tilvalinn til þess að kúra með góða bók undir teppi og sötra heitt kakó. Íslendingar eru þekktir fyrir það að vera mikil bókaþjóð og mig langar að fara yfir bækur sem voru á topplista yfir mest seldu titlana árið 2019 og mína uppáhalds höfunda í tilefni af því að bókaflóð þessara jóla er farið að skella á okkur. Fyrir áhugasöm er hægt að fylgjast með nýjum og væntanlegum bókum inn á síðum forlaganna og skoða topplista yfir mest seldu bækurnar. Einnig vil ég minna á Bóksölu stúdenta sem hefur verið rekin af Félagsstofnun stúdenta frá stofnun fyrirtækisins árið 1968. Bóksalan er opin öllum, jafnt stúdentum sem og öðrum, en þar er gott úrval bóka, allt frá barnabókmenntum til skáldsagna fyrir fullorðna en einnig fræðibækur og ljóð. Notalegt andrúmsloft og kaffisala stúdenta skapa huggulegan stað til þess að setjast niður og fletta bókum eða blöðum.
Höfundar í uppáhaldi
Ár hvert bíðum við eftirvæntingarfull eftir nýja jólabókaflóðinu og mörg eiga sér uppáhalds höfund sem fer alltaf á óskalistann fyrir jól. Sjálf hef ég til dæmis lesið allar bækurnar eftir þau Arnald og Yrsu en er einnig dyggur aðdáandi spennubókaflokks Lee Child, þar sem aðalsöguhetjan Jack Reacher lendir í ýmsum uppákomum á ferðum sínum um Bandaríkin. Fyrir hugljúfari lestur mæli ég með Jenny Colgan, en bækur hennar eru rómantískar og gerast í sveitum Bretlands, sumar þeirra skrifar hún með jólin í aðalhlutverki.
Ég er frekar vanaföst á höfunda, en breytti til og las Kokkál eftir Dóra DNA. Því miður get ég ekki mælt með henni, eins og hann getur verið frábær í öðru sem hann tekur sér fyrir hendur. Ég kann heldur ekki alveg við bækur Stefáns Mána, en vinkona mín mælir hins vegar með honum, svo misjafn er smekkur manna og það er ekki hægt að fara eingöngu eftir meðmælum fólks.
Barnabókmenntir
Leikritið Mamma klikk eftir bók Gunnars Helgasonar var drepfyndið, en mér þykir hann skemmtilegur barnabókahöfundur og bækurnar hans hafa oft komist á topplista yfir mest seldu bækurnar. Átta ára sonur minn og samnemendur hans hafa verið heppnir í nestistímunum að fá upplestur frá kennaranum þeirra. Sonur minn hefur einnig lesið bækur eftir Ævar vísindamann og haft ánægju af, en í uppáhaldi hjá honum eru ráðgátubækurnar um Spæjarastofu Lalla og Maju eftir þau Martin Widmark og Helena Willis. Ég las Bláa hnöttinn sem barn og á ennþá bókina eftir Andra Snæ, ég hlakka til þess að lesa meira eftir hann þótt ég hafi ekki komið því að ennþá. Það er líka vert að minnast á barnabækur Bergrúnar Írisar sem eru mjög fallega myndskreyttar og með góðan boðskap um hluti eins og vináttu.
Hvaða titlar verða á topplistum fyrir árið 2020?
Það er gaman að spá fyrir um hvaða höfundar lenda á topplistanum fyrir árið 2020. Höfundarnir sem ég les hvað mest tróna yfirleitt á toppnum, þau Arnaldur og Yrsa, og munu án efa halda því áfram. Ég ætla að minnsta kosti að ná mér í nýjustu bók Arnalds, Þagnarmúr, í forsölu hjá Bóksölu stúdenta. Colgan og Child voru inni á topplistanum yfir þýdd skáldverk, og ég vona að nýju bækurnar verði þýddar fljótlega. Colgan hefur gefið út mun fleiri bækur en hafa verið þýddar samkvæmt heimasíðunni hennar, jennycolgan.com. Bókaflokkur Child er til að mynda kominn upp í 25 bækur, þótt íslenskir lesendur hafi enn bara fengið 20 bækur þýddar. Það væri að vísu gott að æfa sig í ensku og lesa bækurnar á upprunalega tungumálinu.
Topplistar yfir mest seldu titlana
Á síðu Forlagsins má skoða topplista yfir mest seldu bækurnar og í fyrsta sæti vikuna 22.-28. október var Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Þau sem hafa gaman af Íslendingasögunum ættu að kunna vel við þessa, en Vilborg skrifar um raunir kvenna á tímum landnáms. Einhver kunna að þekkja bók hennar, Korku saga, sem sameinar sögurnar Við Urðarbrunn og Nornadóm sem komu út á árunum 1994-1995.
Fyrir ljóðaunnendur er komin út ljóðasaga sem ber nafnið Guðrúnarkviða eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur. Bókin var á metsölulista ljóðabóka vikuna 21.-27. október hjá verslunum Eymundsson og fjallar um Guðrúnu sem vaknar í líkkistu í eigin jarðarför.
Bókabúðir taka reglulega saman lista yfir mest seldu titlana en það er sniðugt að skoða topplistana frá síðasta ári til þess að spá fyrir um hvaða höfundar munu eiga mest seldu titlana árið 2020. Listana hér að neðan fékk ég af vefsíðunni lestrarklefinn.is, en þar má lesa umfjallanir, skoða leslista og fylgjast með fréttum af jólabókaflóðinu svo fátt eitt sé nefnt.