Uppruni jólanna

Jólin eru á næsta leiti með allri sinni dýrð, en aðdragandi jólanna er ekki síður mikilvægur, undirbúningur hátíðarinnar hefst og allir fara að hlakka til. Þetta er tími ljóss og friðar, umhyggja, náungakærleikur og gleði barnanna er ríkjandi. Við hugsum um boðskap þeirra og hefðir og rifjum upp minningar frá æsku okkar. Margar jólahefðir eru enn í fullu gildi en einnig koma nýjar hefðir með nýjum kynslóðum. Gaman er að velta fyrir sér hvaðan hátíðin kemur og frá hverju hefðirnar eru dregnar.

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Vetrarsólstöðuhátíðir voru haldnar víða á norðurhveli jarðar löngu áður en kristni kom til sögunnar. Ætla má að skammdegið hafi verið erfiður tími fyrir fólk og ástæða til þess að fagna með hækkandi sól. Orðið jól og yule á ensku voru til löngu fyrir Krist og notuð yfir skammdegishátíðina sem þekktist víða. Á Norðurlöndunum þekktist að blóta „til árs og friðar“ en ár þýddi árgæska. Menn strengdu heit um afrek næsta sumars í ölæði sínu og reyndu svo að standa við þau. Tilgangur jólanna var mannfögnuður í vetrarmyrkrinu, tilefni til að drekka öl og eta. Þekkt var að bændur héldu miklar veislur þar sem allir fengu að vera með, þrælar jafnt sem aðrir og enginn skilinn eftir út undan.

Svipuð hátíð var haldin á sama tíma á suðurhveli jarðar en þar fögnuðu menn heiðnum sólarguðum áður en kristni var tekin upp. Rómverjar höfðu þann sið að gefa hver öðrum gjafir 17.-23. desember. Þegar Rómverjar tóku upp kristni festist 25. desember sem fæðingardagur Jesú en dagurinn er einnig kenndur við fæðingardag keisarans. Þar sem Jesú var hinn eini sanni keisari fékk hann sína fæðingarhátíð og tók sæti sólarguðs og keisara.

Undirbúningur hátíðarhaldsins er aðfangadagur en eins og nafnið gefur til kynna eiga öll aðföng að vera komin í hús. Um miðaftan 24. desember er heilagur tími og jólin koma með aftansöng kirkjunnar. Upprunalega er stuðst við gyðinglegt tímatal þar sem dagurinn byrjar við sólsetur eða kl 18:00 og er því 25. desember runninn upp þegar hátíðin hefst með veislumat og lýkur með gjöfum. Sums staðar er miðað við miðnætti eins og tímatalið okkar er í dag en á árum áður mátti heyra kirkjuklukkur hringja inn sunnudaga og aðra hátíðisdaga kl 18:00.


Heimildir

Árni Björnsson. (2005, 12. desember). Hvernig fóru heiðin jól fram? Vísindavefurinn. Sótt (2020, 6. nóvember) af http://visindavefur.is/svar.php?id=5478

Einar Sigurbjörnsson. (2000, 7. nóvember). Hvers vegna er hátíðlegast hjá okkur á aðfangadag þegar við opnum pakkana, en á jóladag víða annars staðar? Vísindavefurinn. Sótt (2020, 6. nóvember) af http://visindavefur.is/svar.php?id=1101

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2000, 15. desember). Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar? Vísindavefurinn. Sótt (2020, 6. nóvember) af http://visindavefur.is/svar.php?id=1241

Sigurjón Árni Eyjólfsson. (2000, 1. nóvember). Af hverju höldum við jólin í desember ef sagt er að Jesús hafi fæðst í júlí? Vísindavefurinn. Sótt (2020, 6. nóvember) af http://visindavefur.is/svar.php?id=1071