Hvað meinum við þegar við tölum um „jólaandann“?
Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir
Hvað meinum við þegar við tölum um „jólaandann“? Við gætum verið að tala um jólin sem einhvers konar skyni gædda veru sem skyndilega féll frá og rotnar nú í björtum ljóma og gefur frá sér grenilykt á leið inn í snæviþakinn handanheiminn. Eða við gætum verið að tala um jólasögu: fúlir jólahatarar, fullir fyrirlitningar sem uppgötva hinn eina sanna „jólaanda“ eftir raðir atburða sem breyta lífi þeirra og kenna þeim að elska þessa hátíð. Hugsanlega erum við að tala um vinalega litla álfa sem taka sér bólfestu í garðinum okkar, klæddir jólagrænum og jólarauðum og valhoppa um af gleði í kuldanum. Í þessari grein ætla ég að tala um mína persónulegu reynslu af jólunum og hvernig sú reynsla hefur haft áhrif á skilning minn á jólaandanum.
Perúsk jól
Ég ólst upp í Perú, sólríku, hlýju Perú. Jólin sem ég upplifði þar voru þess vegna mjög frábrugðin þeim jólum sem ég sá í sjónvarpinu eða á sjálfu jólaskrautinu, og í rauninni hvar sem er. Til dæmis eyddum við jólunum okkar á ströndinni, íklædd stuttbuxum og sandölum, hvergi snjór í augsýn, hvorki á götunum né á þökum húsanna. Hugmynd okkar um jólin var ekkert tengd vetrarfríum, mun frekar langþráðu sumrinu. Fyrir okkur börnunum voru jólin sá tími ársins þar sem allra besta gjöfin var frelsið sem við fengum í sumarfríinu frá skólanum. Það er hugsanlega ástæðan fyrir því að við horfðum ekki á jólin með lotningu og hátíðleika, fyrir okkur voru þau bara upphafið á því sem við vonuðum að yrði langt, hlýtt sumar fullt af ævintýrum og óvæntum uppákomum. Við vorum reglulega ávítt fyrir skeytingarleysi okkar gagnvart jólunum: „hvar er jólaandinn?“. Á þeim tíma fannst mér þetta bara krúttleg spurning, meira eins og það væri einhver óskrifuð jólaregla að spurja hennar. Þegar ég varð nógu gamall til að flytja til útlanda og eyddi jólunum fjarri ströndinni fór spurningin hins vegar að ásækja mig aftur.
Jól í útlöndum
Ég hafði minn eigin skilning á jólaandanum eins og annað fólk. En eftir því sem ég eltist og pirringur og óstöðugleiki unglingsáranna herjuðu á mig varð ég hrokafyllri og fór að efast um allt og ekkert, í leiðinni reyndi ég á þolinmæði minna nánustu. Þegar jólin nálguðust fór ég að draga hugmyndir mínar og annarra um þau í efa. Ég úthúðaði jólunum sem vel smíðaðri kerfisbundinni lygi hverrar eini tilgangur væri að auka neyslu hins almenna borgara. Það er hins vegar auðséð að við þurfum ekki pirraðan ungling til að segja okkur þetta. Við vitum öll hver táknmynd jólasveinsins er. Og þetta fór óendanlega í taugarnar á mér þegar ég upplifði fyrstu hvítu jólin mín. En eftir því sem árin liðu þróaðist þessi gremjutilfinning í mánaðarlega höfuðverki. Ég fór að velta fyrir mér annarri spurningu. Allt fólk virtist vita hvað jólin snúast virkilega um, og jafnvel sú vitneskja virtist ekkert angra þau... hvað þýðir það þá þegar þau tala um jólaandann? Ég vissi svo sem svarið við þessari spurningu þá, en gelgjan í mér þráaðist við að mála veröldina svartari af ástæðulausu. Mig skorti því miður ennþá smá skammt af þroska til að sættast við svarið sem faldi sig innra með mér.
Um hvað snúast jólin?
Í ljósaskiptum gelgjuskeiðisins gafst ég upp á þessum flóknu vangaveltum sem virtust ekki koma mér nær neinni niðurstöðu, heldur ollu mér þvert á móti vansæld. Ég slakaði aðeins á og fór hægt og rólega að taka hlutina í sátt eins og þeir voru frekar en það sem ég vildi að þeir væru. Þetta leiðir okkur að jólaandanum. Hefur þú einhvern tímann spurt þig, eins og ég, hver tilgangurinn með þessu öllu saman sé, af hverju feiti maðurinn í rauðu fötunum hendir sér niður strompa og flýgur um svartan vetrarhimininn á jólanótt á sleða sem dreginn er af hreindýrum, af hverju er allt þetta umstang, öll ljósin, maturinn, gjafirnar, tréð og lögin? Af hverju við eyðum svona miklum tíma og erfiðismunum í þennan eina dag þegar flest öll nenna ekki einu sinni að komast að uppruna og tilganginum með þessu öllu? Hefurðu einhvern tíma spurt þig að þessu? Svarið mitt er ekki uppljómun og það mun hvorki betra jólin né gera þau verri. En ég get sagt þér að líkt og þú hefur gert á einhverjum tímapunkti, spurði ég mig að því hvert trixið bak við jólaandann væri. Og mín uppgötvun var einfaldlega: hvers vegna að ómaka sig?
Jólaandinn
Jólin eru ekki endilega hefð sem nauðsynlegt er að skilja. Þau eru tilfinning, lykt í loftinu, garður nágrannans. Þau eru ljósin og skrautið og maturinn og lögin og allir hinir gleðilegu hlutirnir sem ætlað er að upplifa, að finna. Það skilar engu að reyna að útskýra jólaandann. Hann er lifnaðarháttur, að taka fjölskyldu, vinum, litadýrðinni, ljósunum og lögunum opnum örmum. Hann er trú í ævintýralegum, trúarlegum og persónulegum sögum sem kveikja von. Jólaandinn er kærleikurinn og ástin sem mannkynið gefur frá sér á ákveðnum degi, og minnir okkur á að ef ekki nema einn dag á ári getur lífið verið fullt af gleði, klukknahljóm og meiri kátínu en okkur getur dreymt um.
Það er það sem við meinum þegar við tölum um „jólaandann“.