DIY jóla-dálkurinn

Minnkum jólastressið og sleppum því sem okkur þykir leiðinlegt. Galdurinn er að byrja snemma, skipuleggja sig og safna í baukinn. Jólasveinarnir byrja oft strax á haustin að fylla pokana sína, jólagjöfum má safna yfir árið og bros kosta ekki neitt. Einnig má útbúa heimagerðar jólagjafir sem ýta undir samveru með fjölskyldunni. Ef skortur er á peningum má alltaf útbúa falleg skilaboð um inneign upp á hjálpsemi, pössun, boð í mat eða hvað sem þú getur lagt til. Í þessum pistli tek ég saman lista yfir jólaföndur, skógjafir og samveru.

Mynd / Unnur Gígja ingimundardóttir

Mynd / Unnur Gígja ingimundardóttir

Myndir / Unnur Gígja Ingimundardóttir

Myndir / Unnur Gígja Ingimundardóttir

Jólaföndur

Það þarf ekki að vera flókið föndur, tilgangurinn er að hafa gaman. Föndur er góð samvera og getur orðið að fallegu jólaskrauti eða jólagjöf. Einnig er gaman að nostra aðeins við pakkana og gera þá einstaka. Þetta eru hugmyndir fyrir fólk sem hefur tíma.

  • Búa til tröllaleir. Það er hægt að móta hendur barnanna og gefa í jólagjöf

  • Föndra kortin sem fara á gjafirnar

  • Mála krukkur og nota sem kertastjaka

  • Það þarf ekki alltaf að kaupa dýrt jólaskraut. Klósettrúllur, lím og sprey koma þér ansi langt. Á Pinterest er fullt af hugmyndum!

  • Handavinnufólk getur búið til fallegar jólagjafir. Það dýrmætasta sem ég á eru prjónaflíkur frá móðurömmu og saumaður fatnaður frá föðurömmu

  • Til eru alls konar tilbúnir föndurpakkar með leiðbeiningum

  • Jólakrans sem hangir á hurð eða úti í glugga

  • Aðventukrans eða skreyting á bakka með skrauti og kertum

  • Hægt er að spara póststressið með því að senda út rafræn kort, þá er líka gaman að láta fjölskyldu-annál og fullt af myndum fylgja með fyrir þau sem þú hittir sjaldan. Ef þú ert tæknisinni getur þú nýtt þér forritin Canva eða Photoshop


Skógjafir

Við viljum gera jólahátíðina sem eftirminnilegasta fyrir börnin. Jólasveinar sem ganga á glugga og gefa litlar gjafir í skó þurfa að muna að öll börn eru jöfn en skógjafir eru lítið ljós í skammdeginu og töfrar sem birtast í skóm barnanna. Hér eru nokkrar hugmyndir sem ég vona að jólasveinarnir skoði:

  • Eitthvað lítið sem tengist áhugamáli barnsins

  • Litlir Lego eða Playmo pokar

  • Leir eða töfrasandur, hægt að fá í litlum einingum

  • Slím vekur oft lukku, eða slímugt dót

  • Perlur í litlum pokum og/eða perluspjöld

  • Skartgripir eða hárskraut

  • Litabækur og litir

  • Litlar bækur fást víða og er t.d. hægt að grípa þær með matarinnkaupunum

  • Lítil leikföng. Sumar gjafir má búta niður í smærri einingar og gefa í nokkrum pörtum

  • Jólasería eða jólaskraut, oft er gaman fyrir börnin að eiga sitt eigið til að skreyta herbergin sín

  • Sokkar, nærföt og tannbursti eða annað sem „vantar.“ Sniðugt er að lauma nammi með

  • Kakóprik (súkkulaði á priki sem er hrært ofan í heitri mjólk) eða kakóduft, nammistafur og sykurpúðar í skemmtilegum umbúðum

  • Spil sem hvetja til samveru með fjölskyldunni (sniðug gjöf frá Kertasníki þar sem gjafirnar hans stytta oft stundirnar á aðfangadag)

Samvera

Myndir / Unnur Gígja Ingimundardóttir

Myndir / Unnur Gígja Ingimundardóttir

Börnin vilja njóta samverustunda með fjölskyldunni og þeim má einnig blanda við annað sem þarf að gera fyrir jólin. Njótum aðdraganda jólanna, þegar jólaljósin birta upp skammdegið, kökuilmur berst á milli húsa og náungakærleikurinn er í hávegum hafður. Hér hef ég tekið saman lista yfir ódýrar hugmyndir og sumar ókeypis:

  • Baka og/eða skreyta smákökur

  • Drekka heitt kakó yfir jólamynd

  • Hlusta á jólalög og syngja með

  • Renna sér á sleða

  • Leika í snjónum, gera snjókarl eða hús

  • Föndra jólaskraut, jólagjöf eða jólakort.

  • Fara í göngutúr og skoða jólaljósin

  • Gera góðverk (t.d. moka stéttina, skafa af bíl nágranna eða lauma fallegum skilaboðum í póstkassa)

  • Spila

  • Leita að jólasveinum (gott að vera búin að finna út hvar þeir eru á vappi áður en leit hefst)

  • Hitta jólasveinana á Þjóðminjasafninu (þeir mæta í sinni röð 13 daga fyrir jól)

  • Fara á skauta

  • Gefa öndunum

  • Gera fuglamat og setja út (hér er internetið vinur þinn)

  • Skreyta húsið og jólatréð saman 

  • Skoða jólaþorpið í Hafnarfirði, Blómaval eða Jólahúsið á Akureyri

  • Skrifa jólasveini bréf

  • Pakka inn gjöfum (auðvitað til þeirra sem eru ekki að hjálpa til við innpökkunina)

  • Vasaljósaganga (hægt að hafa með nesti; heitt kakó í brúsa og smákökur)

  • Halda aðventuboð eða mæta með gotterí í heimsókn

  • Lesa/segja jólasögu

  • Fara á bókasafnið (stundum eru uppákomur í desember)

  • Gera teppavirki/hús inni í stofu (jólasería sem ljós)

  • Eyða deginum saman á náttfötunum og hafa það huggulegt


Ef þig vantar fleiri hugmyndir og áminningu um boðskap jólanna heldur höfundur úti Instagram síðu sem heitir sveinka.is