Tunglskinssónatan

Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Grafík / Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir

Árið í ár markar 250 ára afmæli Ludwig van Beethoven. Hann fæddist í desember árið 1770 í Bonn í Þýskalandi. Upphaflega ætlaði ég að skrifa grein um „snillinginn frá Bonn“, en ákvað þess í stað að leyfa verkum Beethovens að tala. Því hef ég sett saman lagalista af verkum sem ég mæli með. 

Fyrsta tónsmíðin á listanum mínum er hin svokallaða Tunglskinssónata. 

Píanó sónata nr. 14 í cís-moll (Sonata quasi una fantasia í cís-moll Ópus 27, Tunglsskinssónatan)

Fyrsti þáttur – Adagio sostenuto, cís-moll
Annar þáttur – Allegretto, Des-dúr
Þriðji þáttur – Presto agitato, cís-moll

Tunglskinssónatan er eitt þekktasta verk Ludwig van Beethovens. Sónatan er rómantískt verk sem fylgir ekki hefðbundinni formgerð klassísku sónötunnar, þar sem hún byrjar á hægum kafla. Hún er ekki einungis tónsmíð, hún er hluti af sál Beethovens.

Beethoven lauk við sónötuna árið 1801 og árið 1802 tileinkaði hann ítölsku greifynjunni, Giulietta Guicciardi, hana. Snillingurinn frá Bonn skýrði sónötuna „Sonata quasi una fantasia” á ítölsku, en það merkir „Sónata, næstum fantasía“. Árið 1801 varð Beethoven píanókennari Giuliettu. Hann heillaðist af henni og varð fljótlega ástfanginn. Hann bauð Giuliettu en faðir hennar var á móti þeim ráðahag þar sem Beethoven var „án tignar, auðs og atvinnu“.

Í fyrsta þætti sónötunnar er dulúð og depurð. Þar finnast engin vegsummerki þess bráðlyndis eða ofsa sem kemur með stormasömum, sláandi óðum og gáskafullum þriðja þætti, presto agitato. Byrjun sónötunnar er draumkennd og sem úr öðrum heimi en hún flytur hlustendur inn í friðsæla miðsumarnótt. Þýski tónlistargagnrýnandinn Ludwig Rellstab skrifaði að við hlustun á byrjun sónötunnar kæmi í hugann mynd af tunglsljósi sem endurkastaðist á Luzern-vatni. Síðan þá hefur verkið verið þekkt sem Tunglskinssónatan. Svikin koma hins vegar í ljós eftir nokkra takta; tónlistinni svipar til útfararsálms.

Hver sá sem skilur tónlistina mína mun vera frjáls undan þeirri eymd sem aðrir menn draga á eftir sér
— Ludwig van Beethoven

Líkja má fyrsta þætti sónötunnar við tónlistina sem Mozart skrifaði fyrir Don Giovanni, þar sem Don Giovanni stingur höfuðsmanninn til dauða í einvígi. Í huga píanistans Edwin Fischer var enginn vafi á því að Beethoven hafi samið fyrsta þátt sónötunnar með því að flytja hluta úr óperu Mozarts yfir í cís-moll. Einangrun, andvörp, vonleysi og melankólía einkenna fyrsta þátt Tunglskinssónötunnar. Er það ómöguleg ást - eða kannski forboðin ást? Eða jafnvel vangaveltur um dauðann? Í þriðja þætti spilar hann hraða brotna hljóma eins og hann sé að létta á blæðandi hjarta og virkar mjög ákafur. Var hann reiður út í föður greifynjunnar? Eða reiður út í heiminn? Þó kemur logn á eftir storminum. Í lok þriðja þáttar virðist reiði Beethovens dvína. En hvað varðar annan þátt? Franz Liszt lýsti honum sem „blómi milli tveggja hyldjúpa“. Skilningurinn er sá að þessi tvö „hyldjúp“ séu fyrsti og þriðji þáttur.

Á þessum tíma var Beethoven farinn að sýna merki um heyrnarleysi og leit á líf sitt sem röð af kíkótískum blekkingum og tálbrigðum, en hann gerði sér grein fyrir því að tónlistin væri hjálpræði sitt, leið til þess að frelsast. 


Afmælislagalisti Beethovens

  1. Píanósónata Nr. 14 í cís-moll,  Op. 27 (Tunglskinssónatan)

  2. Píanókonsert Nr. 3 í c-moll, Op. 37 

  3. Píanókonsert Nr. 5 í Es-dúr, Op. 73

  4. Sinfonía Nr. 3 í Es-dúr, Op.55 (Einnig kölluð Hetjuhljómkviðan. Á ítölsku: Sinfonia Eroica)

  5. Sigur Wellingtons Op. 91 (Á þýsku: Wellingtons Sieg)

  6. Egmont, Op. 84, Forleikur

  7. Sinfonía Nr. 5 í c-moll, Op. 67

  8. Rómansa fyrir fiðlu og hljómsveit (Á þýsku: Romanzen für Violine und Orchester) Nr. 2 í F-dúr, Op. 50

  9. Píanósónata Nr. 30 í E-dúr, Op. 109

  10. Píanósónata Nr. 31 í As-dúr, Op. 110

  11. Píanósónata Nr. 32 í c-moll, Op. 111

  12. Sinfonía Nr. 9 í d-moll, Op. 125

  13. Stóra fúgan (Á þýsku: Große Fuge) (e. The Great Fugue / The Grand Fugue), Op. 133

  14.  Strengjakvartett Nr. 16 í F-dúr (1826), Op. 135



MenningMaicol Cipriani