Tíu atriði sem breyttu Háskóla Íslands
Í tilefni af 100 ára afmæli Stúdentaráðs Háskóla Íslands er hér birtur listi yfir tíu atriði sem gerðu Háskóla Íslands að því sem hann er í dag. Listinn var unnin að hluta til upp úr vefsíðu aldarafmælis Háskóla Íslands.
1911: Háskóli Íslands stofnaður. Þann 17. júní var Háskóli Íslands stofnaður. Við það sameinuðust Prestaskólinn, Læknaskólinn og Lagaskólinn.
1917: Kristín Ólafsdóttir, fyrsti kvenkyns kandídat HÍ, útskrifast. Kristín útskrifaðist með embættispróf í læknisfræði.
1933: Happdrætti Háskóla Íslands stofnað. Tilgangur happdrættisins er að afla fjár til húsabygginga, viðhalds og tækjakaupa. Yfir 20 háskólabyggingar hafa verið fjármagnaðar með happdrættisfé til dagsins í dag.
1935: Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, er stofnað. Félagið var stofnað sem svar við öðrum hreyfingum, t.d. Félagi róttækra háskólastúdenta og Félagi þjóðernissinnaðra stúdenta.
1940: HÍ tekur til starfa í Aðalbyggingu, þann 17. júní. Fram að þessu hafði HÍ starfað á neðri hæð Alþingishússins. Guðjón Samúelsson teiknaði bygginguna.
1952: Ragnheiður Guðmundsdóttir, læknir, er ráðin sem kennari við HÍ, fyrst kvenna. Ragnheiður kenndi lífeðlisfræði til ársins 1961.
1971: Fornhandrit Íslendinga færð til Árnastofnunar. Fornritin Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða voru flutt úr vörslu Danmerkur til Íslands.
1988: Stúdentahreyfingin Röskva stofnuð. Félagið var stofnað með sameiningu stúdentahreyfinganna Félag vinstri manna og Umbótasinna.
2003: Uglan opnuð í fyrsta sinn. Uglan okkar kæra var opnuð sem innra vefsvæði fyrir starfsfólk, nemendur og kennara.
2005: Kristín Ingólfsdóttir, fyrsti kvenkyns rektor HÍ, tekur til starfa. Kristín starfaði sem prófessor við lyfjafræðideild háskólans.