Lífið á tímum veirunnar
Aðsend grein
Liðið er skammt á skynlausa öld
menn skjálfa í veiruheimi,
lamar grár óttinn atgervið
þó yndi margt fólkið dreymi,
veirur fitna og fjölga sér
ef forvörn um stund ég gleymi,
faðmlög bönnuð og blíða sýnd
í bláskini af tölvustreymi.
Fátt hefur komið þjóðinni jafn mikið úr jafnvægi á síðari tímum og Kórónuveiran. Þessi ósýnilegi vágestur gerist boðflenna víða og er nú svo komið að engin geta talið sig óhult. Framtíðin hefur sjaldan verið mörkuð jafn mikilli óvissu og nú. Mun líf okkar breytast til frambúðar eða munum við vinna bug á óværunni innan tíðar og allt verður sem áður? Margt fólk hefur misst vinnuna og hefur kannski lítið við að vera. Annað fólk lagar sig að nýjum aðstæðum og kemur auga á ný tækifæri. Sjóndeildarhringurinn hefur brenglast og öll reynum við að fóta okkur í óljósum kringumstæðum.
Því hefur verið haldið fram að skáld séu samviska heimsins og að þeim beri að kljást við samtíð sína. Eflaust eru ekki öll á einu máli um það en einn er sá maður sem hefur gengið til móts við veiruna með ljóðið að vopni. Í nýútkominni ljóðabók, sem nefnist Veirufangar og veraldarharmur, yrkir Valdimar Tómasson mikinn kvæðabálk um lífið á tímum veirunnar. Grein þessi hefst á upphafserindinu en þar er sleginn tónn sem einkennir bókina. Hún fékk töluverða athygli þegar við útkomu, enda ekki á hverjum degi sem skáldin bregðast jafn snöfurmannlega við ástandi líðandi stundar. Raunar hafa ljóðabækur skáldsins einatt fengið góðar viðtökur en Valdimar hefur um árabil verið þekkt stærð í bókmenntaheiminum.
Útgáfusaga Valdimars er þó ekki ýkja löng. Hann gaf út sína fyrstu bók árið 2007 og eru bækurnar nú orðnar fimm, auk ljóðasafnsins Ljóð 2007-2018. Var það vonum seinna, því Valdimar varð snemma þekktur meðal ljóðaunnenda fyrir einstaka þekkingu sína á íslenskri ljóðlist. Óhætt er að segja að hann hafi fljótlega vakið athygli eftir að hann flutti í bæinn unglingur að aldri, en hann ól manninn í fásinni sveitarinnar með Mýrdalsjökul gnæfandi yfir sér. Tungutak hans og hugðarefni voru önnur en fólk átti að venjast hjá ungdómnum.
En hver er hann, þessi maður sem yrkir svo kjarnyrt og háttbundið að hann minnir á höfuðskáld síðustu aldar? Valdimar hefur ævinlega kunnað best við sig meðal eldri manna sem kunnu skil á kveðskap, þjóðlegum fróðleik og fágætum bókum. Hann lagðist í mikla bókasöfnun og safnaði einkum ljóðabókum í frumútgáfu. Kynntist hann fljótlega mörgum af helstu skáldum þjóðarinnar og sat reglulega til borðs með valinkunnum andans mönnum á Hressingarskálanum og síðar Café París. Þar var hann æskuforseti því borðfélagar hans voru allir fæddir fyrir seinna stríð. Nú eru þeir menn horfnir yfir móðuna miklu og má segja að þar með hafi Valdimar orðið viðskila við sína helstu samferðarmenn.
Valdimar varð snemma fastur liður í bæjarlífinu. Það mátti sjá hann á spjalli í Pylsuvagninum þar sem hann stóð við pott og fylgdist með mannlífinu fyrstu árin eftir að hann flutti í bæinn. Hann var einnig tíður gestur í fornbókabúðum bæjarins, en þær voru nokkuð margar á þessum árum. Og oft mátti sjá hann stika um götur miðbæjarins en þeim vana hefur hann haldið fram á þennan dag. Það er aldrei asi á skáldinu þar sem það gengur í hægðum sínum Laugarveginn og Kvosina. Valdimar virðist ævinlega hugsi, kannski eru ný ljóð að verða til. En svo er allt eins líklegt að mannlífið hafi vakið áhuga hans, því manneskjan og tilvist hennar er honum ofarlega í huga. Iðulega má sjá Valdimar á tali við einhvern en hann er málkunnugur mörgum sem hafa miðbæinn fyrir fastan viðkomustað, oftar en ekki er það fólk sem einnig fæst við skáldskap eða unna þjóðlegum fræðum. Valdimar virðist aldrei þurfa að flýta sér; ætla mætti að hans hlutverk sé ekki hvað síst að minna okkur á að best sé að fara sér hægt og njóta líðandi stundar á afslappaðan hátt með það að fororði að maður sé manns gaman.
Valdimar hefur verið kallaður götuskáld og er það vel við hæfi. Skáldið er daglegur gestur á götum miðborgarinnar og þar með fastur punktur í tilveru þeirra sem þar halda til. Líf hans er skáldskapur út af fyrir sig og mörg ljóð koma fyrst á varir hans þar sem hann fer um götur og torg. Þar nemur hann æðaslátt lífsins.
Veiran hefur orðið Valdimar yrkisefni. Ljóðabókin Veirufangar og veraldarharmur er hans nýsköpun. Megi hún vera okkur hvatning til að ganga til móts við veiruna með opnum huga. Hver veit nema við eigum eftir að standa sterkari á eftir? En Valdimar er ekki ginnkeyptur fyrir ódýrum lausnum. Fáfengileiki mannsins er honum eilíft viðfangsefni og er við hæfi að ljúka þessari grein með ljóði úr fyrrnefndri bók.
Þá ungur ég horfði á heiminn
var hugur saklaus og dreyminn.
En moldrunnin mannlífsstraumur
er mörgum svo þungur taumur.
Við lifum í lostugum sora
sem litar æ göngu vora.