Fávitar - átak gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi: Viðtal við Sólborgu Guðbrandsdóttur
Sólborg Guðbrandsdóttir hefur haldið úti Instagram síðunni Fávitar, en hún hefur vaxið mikið á seinustu misserum. Sólborg fékk nóg af því hversu eðlilegt taldist að fá óviðeigandi skilaboð og óumbeðnar myndir af kynfærum sendar til sín á samfélagsmiðlum, og stofnaði þá síðuna og samfélagsverkefnið Fávita. Hún vildi sýna að það væri ekki eðlilegur hluti af því að vera á samfélagsmiðlum að lenda í stafrænu kynferðisofbeldi né annars konar kynferðisofbeldi.
Sólborg gaf nýlega út bók tengda Fávitum. Bókin byggist á raunverulegum spurningum frá fylgjendum Fávita, sem að í dag telja rúmlega 32 þúsund. Spurningarnar eru ýmis konar, allt frá spurningum um sjálfstraust til spurninga um hvert sé hægt að leita eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og hvert megi leita til þess að fá hjálp við að vinna úr reynslu af ofbeldi ásamt því að svara spurningum um t.d. kynlíf og ofbeldi.
Bókin er hugsuð sem leiðarvísir fólks á öllum aldri en hún svarar spurningum, opnar umræðu og hún getur reynst foreldrum og forráðamönnum gagnleg við kynfræðslu barna sinna. Svör við spurningum sem að mörgum þætti ef til vill óþægilegt að bera upp eru auðveldlega aðgengileg í bókinni.
Fávitar byrjaði sem átak gegn normalíseringu stafræns kynferðisofbeldis og öðru ofbeldi, en það sem að Sólborg hefur komið af stað, tekið þátt og vakið athygli á umræðum eins og heilbrigð samskipti og sambönd, virðingu og mörk, ofbeldi, fjölbreytileika, traust og margt fleira. Fæstir gera sér grein fyrir því hversu algengt það er að börn og unglingar verði fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi á samfélagsmiðlum, en yngsta barnið sem hefur sent skilaboð til Fávita varðandi slíkt ofbeldi var 11 ára. Fólk hefur meðal annars leitað til Fávita með spurningar um hvað sé eðlilegt, og hvort að tilfinningar sem maður upplifir séu eðlilegar.
Sólborg myndi vilja koma markvissri kynfræðslu inn í aðalnámskrá grunnskóla, en munur getur verið á því hversu mikla kynfræðslu er boðið upp á eftir einstaka skólum. Með markvissri kennslu og opnum umræðum um samskipti og mörk má koma í veg fyrir kynferðisofbeldi en fræða þarf bæði þolendur og gerendur um grunnatriði eins og ofbeldi og mörk.
Aðspurð um hvað mætti gera betur, segir Sólborg að hún myndi vilja sjá innleiðingu frekari úrræða og meðferða fyrir gerendur ofbeldis og eflingu opinskárrar fræðslu almennt. Hún segir einnig mikilvægt að stytta biðtíma brotaþola sem ákveða að kæra gerandann. Eftir að gerandi hefur verið kærður tekur oft við langur biðtími þar til að rannsókn málsins er lokið, en biðtíminn getur verið brotaþolum erfiður.
Í vinnu Sólborgar síðastliðin ár hefur hún fengið aðstoð frá ýmsum sérfræðingum sem að starfa m.a. hjá Píeta samtökunum, Stígamótum, Samtökunum 78, Hinseginleikanum og fleiri einstaklingum sem vinna á sviði kynlífsráðgjafar, kynfræði og kynjafræði ásamt fleiri sviðum. Nokkrir einstaklingar innan þessa sviða aðstoðuðu við svör í yfirlestri bókarinnar. Nú vinnur Sólborg að fræðslu ungmenna með fyrirlestrum sem hún hefur haldið í grunnskólum, félagsmiðstöðvum, menntaskólum og foreldrafélögum. Seinasta árið hafa hún og Þorsteinn V. Einarsson kynjafræðingur, sem heldur út Instagram-reikningnum Karlmennskan, haldið fyrirlestra saman.
Nýlega var ákall til Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um að auka kynfræðslu í skólum en tugir tölvupósta frá einstaklingum, ungmennaráðum, félagsmiðstöðvum, foreldrum og forráðamönnum og fleirum voru sendir til ráðherra með ósk um bætta fræðslu. Í framhaldi af því óskaði ráðherra eftir fundi með Sólborgu og Sigríði Dögg, kynfræðing sem hefur sinnt kynfræðslu lengi vel og gefið út bækur um það efni. Sólborg og Sigríður voru skipaðar í starfshóp sem mun sjá um úttekt á framkvæmd kynfræðslu í skólum, en starfshópurinn er ekki farinn af stað þó að hann sé brýnt samfélagslegt verkefni að sögn ráðherra.
Nú hafa margir skorað á Lilju að sópa þessum óskum ekki undir teppið og bæta úr því sem bæta má varðandi frekari kynfræðslu á aðalnámskrá. Það nægir ekki að tala, það þarf líka að framkvæma hlutina.
––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––––
Bókin Fávitar fæst nú í Eymundsson, hjá Forlaginu, á heimkaup.is, á blush.is, í Hagkaup, í sunnlenska bókakaffinu á Selfossi, hjá kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki og hjá bóksölu stúdenta.