Viðbrögð leikhússtjóra við banni á sviðslistum
Stuttu eftir að kynning okkar á komandi leikári með yfirlýsingum um tilhlökkun og áætlunum um margar leikhúsferðir á næstu vikum voru samkomutakmarkanir hertar og blátt bann lagt á við sviðslistum á landsvísu. Vitaskuld sáu flestir í hvað stefndi eftir því sem smitum fjölgaði en við héldum samt í vonina. Nú er þó útlit fyrir að við komumst ekki í leikhús fyrr en í fyrsta lagi í janúar, febrúar, ef þá, en við látum það ekki stoppa okkur frá því að skaffa lesendum Stúdentablaðsins sínum skammti af leikhústengdri umfjöllun. Við ákváðum þess vegna að heyra aðeins í leikhússtjórum landsins, kanna hvernig ástandið væri á þeirra vinnustað og hvað væri fram undan. Við náðum tali af Brynhildi Guðjónsdóttur, leikhússtýru Borgarleikhússins, Friðriki Friðrikssyni framkvæmdastjóra Tjarnarbíós og Mörtu Nordal, leikhússtýru Leikfélags Akureyrar. Viðtölin fóru ýmist fram á fjarskiptaforriti, í síma eða í gegnum tölvupóstsamskipti.
[Viðtalið birtist í 2. tölublaði Stúdentablaðsins sem kom út 4. desember.]
Fyrst vildum við fá að heyra hvort ákvörðun stjórnvalda hafi komið þeim að óvörum og þau höfðu öll svipaða sögu að segja: ,,Eins og allir þá áttum við von á áframhaldandi og hertari takmörkunum, en þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum í þessari reglugerð, að mig minnir, að sviðslistir eru óheimilar,“ segir Friðrik en hann telur að megináhyggjuefnið sé hvort leikararnir megi æfa sig. ,,Þá getum við haldið framleiðslunni áfram og átt verkefni til.“ Brynhildur tekur fram að eins og staðan er núna þá komi bannið henni ekki á óvart: ,,Það er ekki eitt, það er allt og undantekningar eru flóknar í framkvæmd þegar fólk fylgir illa tilmælum.“ Hún segir að með 2 metra reglunni sé ósköp lítið hægt að gera innan veggja hússins og Borgarleikhúsið hefur, líkt og önnur leikhús verið lokað síðan í október. Marta segir afdráttarleysi bannsins hafa komið á óvart en þau hafi þó haft tækifæri til þess að vinna innan settra reglna og munu gera það áfram. ,,Þó það sé erfitt að æfa án nándar þá treystum við okkur til að vinna með það í sumum tilfellum og halda áfram,“ segir hún.
En hvað þýðir áframhaldandi lokun leikhússins fyrir þær sýningar sem setja átti upp?
,,Sem stendur gerum við ráð fyrir sýningum á minni sviðunum í janúar og jafnvel ekki á stóra sviðinu fyrr en í febrúar,“ segir Brynhildur og segir Borgarleikhúsið búa svo vel að þau eigi mikið til af tilbúnum sýningum sem þyrftu ekki nema fimm daga til að keyra í fullan gang. ,,Allt sem við eigum verður væntanlega sett upp að lokum, en hins vegar hefur leikárið frá því sem við áætluðum í júní breyst töluvert,“ bróðurparturinn af nýju framleiðslunni hefur verið færður yfir á næsta leikár.
Sömu sögu er að segja í Tjarnarbíói, ekki verður hætt við neinar sýningar heldur verður þeim frestað: ,,Búið er að leggja mikla vinnu í þetta og fólk er bara að bíða eftir að sýna afrakstur hennar. Sýningarnar verða lagðar til hliðar og settar í kælinn og æfðar upp aftur þegar verður létt á,“ segir Friðrik, vongóður um að leikhúsið komi sterkt til baka.
Á Akureyri hefur tekist að sýna sviðslistaverkið Tæringu sem fjallar um sögu berklasjúklinga og unnið var í samstarfi við Hælið á Kristnesi, í allt haust með takmörkuðu aðgengi og aðeins tíu grímuklæddum áhorfendum hleypt í sal. ,,Við erum búin að vera að færa til og breyta alveg frá því í vor. Við munum bara halda áfram að vinna með þær reglur sem gefnar eru upp og leita lausna til að miðla listinni.“
Aðspurð hvort leikhúsin muni skoða aðrar leiðir til að koma sviðslistum til landsmanna á borð við streymi og upptökur líkt og í vor, virðist það ekki liggja fyrir að þessu sinni. ,,Það er ansi dýrt og til að slíkt gangi upp þarf einhvers konar tekjuflæði,“ svarar Friðrik. Hann segist ekki sjá það að á meðan fólk sé með Netflix heima hjá sér langi það að horfa á leikhús í sæmilega lélegu streymi.
Brynhildur og Marta segjast þó vera að skoða hvaða möguleikar eru í boði og hvernig hægt sé að miðla viðburðum í gegnum streymi á nýjan og spennandi hátt. ,,Þetta er veruleiki sem leikhúsið þarf að fara að tileinka sér með einhverjum hætti því heimurinn er svo sannarlega að breytast og þróunin hröð,“ tekur Marta fram. En Brynhildur er sammála því að það vanti tekjumyndun: ,,Við héldum úti einhverju streymi frá leikhúsinu í tvo mánuði nánast upp á hvern einasta dag. Þetta er viðleitni okkar til að sýna fram á að það er líf í lokuðu húsi. En þetta gefur okkur ekkert til baka og við getum ekki haldið því áfram út í hið óendanlega.“
Hvernig sjáið þið fyrir ykkur framtíð leikhússins, nú þegar ljóst er að samfélagið þarf að lifa með veirunni í einhvern tíma áfram?
,,Það er nú það. Hvert förum við?“ spyr Brynhildur sjálfa sig. ,,Það mun hjálpa okkur að finna út úr því hvernig við getum haldið áhuganum á okkur, hvernig við getum miðlað upplýsingum og staðið vörð um áhorfendur okkar, til að missa þá ekki.“ Brynhildur telur leikhúsið einnig vera uppeldisstofnun og þegar börn fái að koma í leikhús ung, þá ánetjist þau og skilji. ,,Finna tilfinninguna í brjóstinu, bara hvað þetta er.“
Að mati Friðriks er silfurröndin í þessu öllu saman að gallar sviðslistarinnar hafa verið opinberaðir sem hefur ,,þjappað fólki saman hvað varðar listina sjálfa.“ Hann segir ástandið kalla fram einhverja endurskoðun á sviðslistum en hann telur þó að eðli þeirra muni ekki breytast: ,,Þær hafa lifað allt af og það er eilíft í eðli þeirra, þörfin að tengjast einhverjum og upplifa í rauntíma, hlátur og grátur, og það allt saman í sameiginlegu átaki.“ Hann telur að fólk muni átta sig meira á þeim sannleik hvað leikhúsið er og hvaða gildi það hefur.
Marta telur ljóst að hugsa þurfi um fleiri miðlunarmöguleika en áður, hvort sem það er í gegnum streymi, setvissar (e. site specific) nálganir eða eitthvað annað. ,,Við þurfum að vera frjó og nota þetta sem tækifæri til nýsköpunar.“ Marta heldur að spennandi hlutir geti komið út úr þessu öllu ,,ef við leyfum okkur að hugsa stórt og vera bjartsýn.“ En það er samt mikilvægt að muna að þó svo að nýjar miðlunaraðferðir birtist þá er ekkert sem getur komið í staðinn fyrir þá upplifun að sitja í sal eða rými með öðru fólki og upplifa list augnabliksins. ,,Þú getur ekki búið til þetta einstaka samband á milli leikara og áhorfenda með öðrum hætti en í raunveruleikanum.“
Öll telja þau framtíð leikhússins bjarta, fólk muni hafa þörf fyrir ákveðna tengingu og þá ekki síst eftir alla þessa einangrun. Þrátt fyrir ,,faraldsþreytuna“ finna þau fyrir samheldni í leiklistargeiranum og eru vongóð um að við enda ganganna séu samkomur og leiksýningar, þó svo að ljóst er að um færri áhorfendur verði að ræða, fyrst um sinn.
Að lokum slógum við botninn í þessar þungu umræður á léttu nótunum og spurðum: Hvað langar leikhússtjóra landsins í jólagjöf? ,,Veirulausan heim, bjartsýni og gleði,“ svarar Brynhildur á meðan Friðrik biður um bóluefni og Marta spyr hvort besta jólagjöf allra tíma væri ekki ef ,,við höfum náð að yfirbuga veiruna?“