Stúdentalíf á umrótstímum
Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir
Kjarni háskólalífsins er Félagsstofnun stúdenta, sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð. Megnið af allri þjónustu við nemendur á háskólasvæðinu er rekin af Félagsstofnun stúdenta, t.d. Háma, Stúdentakjallarinn, Bóksala stúdenta og Stúdentagarðar ásamt þremur leikskólum. „Við reynum að auka lífsgæði háskólastúdenta eins og við getum,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, talsmaður Félagsstofnunar stúdenta.
Umbreyting á veruleikanum
Allt breyttist við tilurð COVID. „Fyrstu breytingarnar komu auðvitað í mars, þegar háskólinn ákvað að loka öllum byggingum og skella í lás,“ segir Rebekka. „Skyndilega voru allir viðskiptavinir okkar farnir. Að sjálfsögðu voru enn börn í leikskólunum og íbúar á Stúdentagörðunum, en raunveruleiki allra breyttist á einni nóttu, einnig okkar.“
Loka þurfti allri þjónustu sem staðsett var á háskólasvæðinu og leita annarra leiða til að halda starfseminni gangandi. „Þjónusta á vefsíðum hefur verið bætt mjög mikið,“ segir Rebekka, og bætir við að nemendur geti t.d. nálgast allar bækur frá Bóksölunni í gegnum netið. Aðra þjónustu er einnig hægt að nálgast á netinu, sem þýðir að meira fer fram í gegnum vefsíðuna en áður. „Við bættum einnig við heimsendingu á bókum,“ segir hún. „Ef þú pantaðir bækur fyrir hádegi, gastu fengið þær sendar heim samdægurs nú í haust.“ Undirskriftir á leigusamningum fyrir Stúdentagarðana eru nú rafrænar, og verið er að bæta aðra rafræna þjónustu til að mæta nýjum raunveruleika.
Vonarneisti
Veitingaþjónustan opnaði aftur í maí. Í júní litu hlutirnir vel út og svo virtist sem lífið myndi færast í eðlilegt horf á háskólasvæðinu. „Í enda júlí leit út fyrir að lífið í háskólanum myndi vera með eðlilegum hætti í haust,“ segir Rebekka. Starfsfólk Félagstofnunar stúdenta var áfjáð í að koma starfseminni aftur í fyrra horf.
„En þá breyttust hlutirnir aftur. Þegar kennsla hófst í enda ágúst voru viðmiðunarreglurnar þær að allir ættu að vera heima og stunda námið rafrænt eins mikið og mögulegt væri. En nýnemum var leyft að stunda nám sitt á svæðinu og kennarar hvattir til að vera með tíma fyrir þá.“ Meira en 2.000 nýnemar komu til að sækja tíma við háskólann, stór hluti þeirra voru erlendir nemendur. „Flestir þeirra sem höfðu sótt um húsnæði á Stúdentagörðunum skiluðu sér að lokum.“ Loftið var spennuþrungið.
En við vorum ekki sloppin
Þá gerðist það versta: smit kom upp á háskólasvæðinu. Félagsstofnun stúdenta brást við um leið. „Allt gerðist mjög hratt,“ segir Rebekka. Félagsstofnun stúdenta vann náið með öryggisnefnd háskólans þegar tilkynnt var um fyrsta smitið á háskólasvæðinu. „Þegar staðfest smit kom upp í Hámu, var okkur tilkynnt um það um leið af smitrakningarteyminu.“ Allt starfsfólk Hámu á Háskólatorgi var samstundis sent í einangrun og smitpróf. „Við fylgjum reglunum og leggjum okkur fram við það.“
Jafnvel áður en smitið kom upp á svæðinu var öllum hreinlætiskröfum fylgt til hins ítrasta. Nánast frá upphafi þessa árs hefur allt starfsfólk Hámu verið með grímur og hanska við störf sín, og allt er sótthreinsað mjög reglulega. Þrátt fyrir að smitið hafi verið mikil vonbrigði og í raun ákveðið áfall, var léttir að vita að öllum reglum hafði verið fylgt.
„Það góða er, að flestir sérfræðingar í samfélaginu eru nákvæmlega hér á svæðinu,“ segir Rebekka, og vísar þá í starfsfólk háskólans sem hefur unnið náið með Embætti landlæknis og öðrum stofnunum, og deCODE, sem hefur útvegað búnað og skimað fyrir veirunni síðan í mars. Nýlega bauðst deCODE til að skima alla nemendur og starfsfólk háskólans þeim að kostnaðarlausu. „Þeir vissu hvað þurfti að gera og það var tekið rétt á málunum,“ segir Rebekka. „Ég er sannfærð um að ekki er hægt að finna jafn mikinn fjölda fólks á litlu svæði sem hefur farið í COVID próf og hér á háskólasvæðinu.“
Nýr veruleiki
Þó Félagsstofnun stúdenta sé að aðlagast nýjum takmörkunum er ófyrirséð hver langtíma fjárhagsleg áhrif verða á stofnunina. Þar sem besta leiðin til að passa upp á heilsuna er að halda fjarlægð, þá eru flestir að vinna eða læra heima hjá sér, en ekki á háskólasvæðinu. „Það er stóra vandamálið sem við þurfum að glíma við eins og stendur. Það er ekkert fólk hérna og þar af leiðandi nánast engar tekjur af veitingasölu,“ segir Rebekka.
Þrátt fyrir að það séu nokkrir nemendur og eitthvert starfsfólk ráfandi um svæðið þá er lífið í háskólanum nánast óþekkjanlegt frá því sem áður var. „Sem stendur er það helst veitingahlutinn af starfsemi okkar sem líður fyrir þetta, því ef það eru hvorki nemendur né starfsfólk, þá er enginn til að borða matinn sem við framleiðum, svo þetta er mjög erfitt,“ segir Rebekka. Nemendur og starfsmenn geta auðveldlega séð hvaða áhrif þessar takmarkanir hafa á Hámu, Stúdentakjallarann, og Bóksölu stúdenta. „Venjulega er þessi tími árs mjög skemmtilegur; þú kemst varla leiðar þinnar í gegnum byggingar háskólans því það er svo mikið líf, eftirvæntingarfullir nemendur á leið í eða úr tímum, að kaupa bækur, eða að tylla sér til að borða og hitta skólafélaga, vini og samstarfsfólk.“
Mestu viðbrigðin voru ekki aðeins hve hratt ákvarðanir um fjarvinnu og fjarkennslu voru teknar, heldur einnig geta og hæfni fólks til að fylgja þessum nýju reglum. „Þó það sé gott, þá kom það mér satt að segja dálítið á óvart hvað fólk er hlýðið,“ segir Rebekka. „Þegar ég sá og las yfir leiðbeiningarnar, hugsaði ég með mér: þetta mun aldrei ganga upp, en það hefur komið mér á óvart hversu vel fólk hefur fylgt leiðbeiningum hér á svæðinu og hve hratt það gerðist.“ Hún bætir við að á sama tíma ætti það svo sem ekki að koma henni á óvart. „Þegar allt kemur til alls, þá vilja flestir leggja sitt af mörkum til að lífið komist aftur í fastar skorður eins fljótt og hægt er.“
Þótt hún beri virðingu fyrir þeim reglum sem settar hafa verið þá vonast hún eins og flestir til að hlutirnir komist aftur í eðlilegt horf sem fyrst. „Ég tel að svo stór og mikilvægur hluti af háskólalífi sé að tilheyra heild, vera í persónulegum samskiptum og í sambandi við annað fólk sem er að gera og upplifa það sama,“ segir hún. „Það er mikil áskorun að þurfa að vera heima, bæði andlega og námslega, sérstaklega fyrir nýnema og erlenda nema sem eiga hvorki vini eða fjölskyldu nálægt.“ Vonum að kúrfan fletjist fljótt út aftur.