Sögur af Zoom
Á þessum erfiðu tímum hefur tæknin verið til staðar og gert okkur kleyft að halda náminu áfram eins vel og hægt er. Fjarfundarbúnaðir á borð við Teams og Zoom hafa því verið nýju skólastofur flestra síðustu vikurnar og gerum við öll okkar besta með það sem við höfum. En þessi breyting hafði í för með sér smá tækniörðugleika. Við höfum tekið saman nokkur eftirminnileg atvik sem áttu sér stað.
Við vorum nýkomin í fyrsta tímann okkar á Zoom, margir voru mættir 10 mín áður en tíminn sjálfur byrjaði og sátu þarna flest með mynd og hljóð af. Kennarinn bað þau okkar sem áttum eftir að slökkva á hljóðnemanum að gera það þar sem það heyrðist smá kliður í bakgrunninum. Rétt áður en tíminn byrjaði heyrðist andvarp, meiri kliður og hurð lokað. Rétt áður en kennarinn gat sleppt orðinu „vinsamlegast hafið slö...“ heyrðist buna og svo sturtað niður. Ég hef ekki séð hana í tíma síðan.
Þetta var fyrsti tíminn okkar í fjarkennslu, kennarinn var að nota Teams og vissi ekki hvernig það virkaði almennilega, hann sendi okkur beiðni en þegar við reyndum að komast inn í tímann var okkur ekki hleypt inn. Kennarinn skildi ekki af hverju eða hvað var í gangi þannig hann sendi okkur nýja beiðni en mættum sama vandamáli. Korteri seinna nennti hann ekki að standa í þessu lengur og hætti við tímann.
Til að reyna að gera fjarfundartímana vinalegri og meira líka kennslustofu er hægt að gera bakgrunninn að kennslustofu þar sem við sitjum við borð. Það hjálpaði ekki.
Tíminn var nýbyrjaður, einn nemandi kom inn í fundinn, myndavélin var á og allir sáu hann setjast upp í bíl. Ekki góð byrjun að nota símann undir stýri fyrir framan kennarann.