Hvaða hæfileika geturðu ræktað í samkomubanni?

Með hertari samkomutakmörkunum er upplagt að nýta auka tímann sem gefst í að finna leynda hæfileika eða læra eitthvað nýtt. Hér að neðan eru sex góðar hugmyndir sem geta stytt þér og þínum stundir. 


1.   Hvernig skal láta skeið sitja á nefinu

ok skeið á nebba.jpg

Fyrsta skrefið er að finna skeið í réttri stærð. Bæði te- og matskeiðar geta koma til greina enþó mæli ég með teskeiðum fyrir nef sem tilheyra Homo sapiens, þar sem þau eru nokkuð fíngerðari. Matskeiðar gætu svo verið hentugar fyrir nef af stærri gerðinni, eins og á nef hins langnefja Proboscis apakötts. Galdurinn er að draga djúpt inn andann og leyfa öllum áhyggjum að svífa á brott um leið og skeiðin er sett á nefið. Munið að æfingin skapar meistarann og gangi ykkur vel.



2.    Hvað hægt er að gera með einnota hönskum 

Einnota hanska má nota í margt annað en að verja hendur þínar frá sýklum. Greinarhöfundur mælir þó ekki með því að nota plast að óþörfu, svo að vinsamleg tilmæli eru einn hanski á mann til að leika með. Hægt er að blása þá upp í blöðrur, eða þá að leyfa sköpunargáfunni að ráða og gera ísskúlptúra. Ísskúlptúrarnir verða til með því að fylla hanskann af vatni og setja hann svo í frysti. Skúlptúrinn getur meðal annars tekið á sig mynd friðarmerkisins eða jafnvel er hægt að láta aðeins löngutöng standa upp í loftið. Þú getur svo stillt skúlptúrnum upp á svölunum fyrir aðra til að njóta með þér.

 

3.    Að herma eftir dýrahljóðum

Með góðri æfingu er hægt að gefa frá sér hljóð sem líkjast hinum ýmsu dýrum. Það er ekki í venjulegum orðforða meðal manneskju að gefa frá sér dýrahljóð, en ef áhugi er fyrir hendi er möguleiki á því að tala við endurnar á tjörninni, flugurnar í sveitinni og fleiri dýr. Einnig má nefna páfagauka sem geta gefið frá sér svipuð hljóð og mennskir eigendur þeirra. Macaw fuglar eru þekktir fyrir að geta hermt eftir mannfólki á nokkuð raunverulegan hátt og geta þeir jafnvel haldið uppi samræðum. Þær samræður eru reyndar nokkuð einsleitar þar sem orðaforði þeirra er yfirleitt ekki mikill, en möguleikinn er samt sem áður fyrir hendi. 

 

4.    Að skrifa með vinstri hendi ef þið eruð rétthent

Það krefst heilmikillar einbeitingar að reyna að skrifa með þeirri hendi sem þú skrifar ekki venjulega með. Þetta getur verið góð æfing til að virkja bæði heilahvelin og mynda nýjar taugatengingar. Það fylgir því einnig góð tilfinning að ná stjórn á fínhreyfingum beggja handa og getur komið sér mjög vel ef önnur höndin er óvinnufær. Það getur líka verið sniðugt að prófa að bursta tennurnar með þeirri hendi sem vaninn er ekki að nota, svo er tilvalið að æfa þá hendi sem er minna notuð í puttastríði til þess að styrkja hana.

 

5.    Læra á blokkflautu 

Áttu gamla blokkflautu niðri í geymslu? En sú heppni! Er ekki tilvalið að rifja upp gamla takta sem smjúga ljúflega inn í eyrun og æra mannskapinn í kringum þig af gleði? Það er algjör óþarfi að spila lög eftir nótum, láttu hjartað ráða för um töfraheim blokkflaututónanna. Ef áhugi er fyrir hendi í vinahópnum er hægt að eiga saman ljúfa kvöldstund og spila saman á Zoom. Því meiri fjölbreytileiki hljóðfæra, því betra.

 

club penguin.jpeg

6.    Club Penguin

Margt fólk á líklegast góðar minningar af því að spila leikinn Club Penguin. Fyrir þau sem kannast ekki við hann er þetta leikur þar sem hægt er að bregða sér í líki mörgæsar. Hægt er að velja lit, föt og hús fyrir mörgæsina. Tilgangur leiksins er fremur óskýr, en þrátt fyrir það er skemmtanagildi hans stórkostlegt. Hvort sem þú vilt skella þér á sleða eða spreyta þig í karate, er það allt hægt í Club Penguin.