Nemendur vs. heimsfaraldur

Þýðing: Ragnhildur Ragnarsdóttir

Meðan augu heimsins beinast að læknisfræðilegum og pólitískum hliðum heimsfaraldursins sem nú geisar, höfum við, þótt það rati ekki í fjölmiðla, þurft að aðlaga daglegt líf okkar, að alveg nýjum reglum. Þegar vírusinn sneri heiminum á hvolf, var sem fólk reyndi að finna nýtt norm, til að öðlast jafnvægi og stuðning. En fyrir ákveðna hópa, eins og nema, og þá sérstaklega erlenda nema, er það háð mörgum hindrunum að finna jafnvægi í þessari nýju tilveru. 

Grafík/Margrét Aðalheiður Önnu-Þorgeirsdóttir

Grafík/Margrét Aðalheiður Önnu-Þorgeirsdóttir

 

Engar atvinnuleysisbætur fyrir nemendur.

Það má segja að það sé kaldhæðni örlaganna að framhaldsneminn John kom til Íslands til að leita að friði. „Hvaða annað land í heiminum er betur til þess fallið?“ spyr hann. Eftir að hafa ferðast í nokkur ár um mið-Austurlönd og klárað starfsnám í Istanbul, þá ákvað hann að setjast að í Reykjavík og byrjaði að vinna á gistiheimili. Í janúar, rétt áður en faraldurinn braust út í Evrópu, sótti hann um framhaldsnám við háskólann. Í september, þegar ferðageirinn barðist í bökkum vegna ferðatakmarkanna, stóð hann uppi án atvinnu og þar sem hann er nemi á hann engan rétt á atvinnuleysisbótum. Meðan margir samnemendur hans hafa áhyggjur af miklu vinnuálagi í skólanum, þá sér hann reikningana hlaðast upp og upplifir óvissu um hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Þrátt fyrir að John hafi verið að leita að vinnu núna í þó nokkurn tíma, mætir honum einungis þögn. Fyrir metnaðarfullan framhaldsnema er þetta mjög erfið staða og hann leiðir hugann að því að kannski sé eini möguleikinn að yfirgefa Ísland. Hann vonar að Erasmus styrkur til skiptináms í Þýskalandi muni koma til með að duga fyrir grunnþörfum, eins og mat og húsnæði, en það þýðir að hann þurfi að flytja aftur. Upplifun einangrunar og einmanaleika í þessu ástandi leiðir af sér stanslausa streitu og, eins og hann segir sjálfur, til þunglyndis á tímum. „Baráttan er raunveruleg,“ bendir hann á, „sérstaklega vegna óvissunnar. Ég veit ekki hvort prófin verða rafræn eða haldin í skólanum, þannig að ég get ekki farið og klárað önnina í mínu heimalandi. Ástandið heldur mér hér, án vinnu og með enga aðra möguleika en að taka lán.“ Beðinn um að lýsa tilfinningum sínum í einu orði, segir hann að það sé einfaldlega, „gremja“.



Erfiðleikar við að finna vinnu

 Erfiðleikarnir á vinnumarkaði hafa undanfarið verið aukin áskorun fyrir marga nemendur. Einn nemandi, sem vill ekki koma fram undir nafni, lifir af sparnaði sínum og reiðir sig að hluta til á stuðning fjölskyldu sinnar. Hún segir að þetta sé alltaf að verða erfiðara. Hún hefur verið að sækja um vinnur þar sem ekki er krafist þess að umsækjendur tali reiprennandi íslensku, en þar sem flestir slíkir vinnustaðir reiða sig á erlenda gesti þá eru margir þeirra að hætta rekstri og segja upp sínu fólki, eða eru að bíða eftir að ástandið lagist áður en þeir ráða nýtt fólk. Fyrir fólk eins og hana sem er nýkomið til landsins eru möguleikarnir mjög takmarkaðir og nánast ekki fyrir hendi. Hún viðurkennir að aðstæðurnar skapi mikinn kvíða hjá sér. „Það er ekki möguleiki fyrir mig að halda áfram í námi án nægjanlegs fjármagns. Ég hugsa einnig um framtíð mína hér á Íslandi - og hvort hún sé yfir höfuð einhver.“ Hún lýkur námi eftir eitt ár, og hún er hrædd um að það sé ekki nægur tími til þess að ástandið batni og tryggi henni vinnu, jafnvel eftir útskrift. En hvað er hennar aðferð til að komast gegnum þessa erfiðu tíma? „Einbeita mér enn meira að náminu.“

 

Flutnings martraðir

 Jazmin var ekki einu sinni viss fyrr en á síðustu stundu hvort það væri möguleiki að hefja nám á þessu námsári. Draumanámið hennar, norrænt meistaranám í víkinga- og miðaldafræðum er aðeins kennt við Háskóla Íslands, og hún þurfti að flytja fjöll til að láta það gerast, þar sem hún kemur alla leið frá Mexíkó og inn í miðjan faraldur. „Þessi þrjú flug sem ég þurfti að taka tóku mest á taugarnar þegar ég var að flytja til Íslands. Ég þurfi ekki bara að borga helmingi meira en það kostar venjulega, heldur lifði ég í stöðugum ótta um að festast á einhverjum landamærum í millilendingu.“ Það varð ekkert auðveldara þegar hún lenti loks á Íslandi. „Ég þurfti að leggja fram ákveðin skjöl á tilsettum tíma til að vera lögleg í landinu og til að mega stunda nám hér, en vegna COVID, eru allar skrifstofur í heimalandi mínu lokaðar. Nú er mánuður liðinn og allt er enn í ferli.“ Hún getur ekki beðið þar til þessi áhyggjuþáttur er yfirstaðinn og hún getur virkilega farið að njóta alls þess sem Ísland hefur upp á að bjóða. Gífurleg festa hennar leiddi hana bókstaflega þvert yfir heimin, en Jazmin segir að það hafi allt verið þess virði. „Ég er mjög þakklát fyrir að fá að vera hérna á Íslandi. Þrátt fyrir að það hafi verið stressandi í byrjun, þá er ég mjög örugg hérna og mér líður eins og það sé hugsað vel um mig bæði af starfsfólki og stjórnendum.“ Hún lítur björtum augum á framtíðina og vonar að aðstæður batni fljótlega. Þegar öllu er á botninn hvolft segir hún, „Ísland er frábært land að vera í“. 

 

Nýr veruleiki vinnu og náms 

 Hins vegar hefur vírusinn og þær takmarkanir sem útbreiðslu hans fylgja einnig haft áhrif á nám nemenda. Frá upphafi námsársins hafa flestir tímar farið fram rafrænt til að lágmarka smit. Meiting, sem er að læra um endurnýtanlega orku, sér bæði kosti og galla í þeirri ráðstöfun. „Þetta býður upp á sveigjanleika sem er löngu tímabær, sérstaklega fyrir marga samnemendur mína sem margir hverjir eiga fjölskyldur og eru með vinnuskyldur. Þótt það geti verið erfitt að sitja allan daginn fyrir framan tölvuskjáinn, þá held ég að rafrænt nám sé framtíðin. Þetta gefur fólki meiri möguleika og þar af leiðandi betra aðgengi að háskólanámi.“ Fyrir henni er „öryggið í forgrunni“. Meiting segir að undanfarið sé hún virkilega farin að meta vinsældir streymis, þar sem að þrátt fyrir samkomutakmarkanir hefur hún getað haldið áfram vinnu sinni fyrir Nordic China Startup Forum, alþjóðleg frjáls félagasamtök sem er að hluta til byggð á samskiptum. Þrátt fyrir að samtökin standi fyrir meira en 80 viðburðum á ári í mismunandi borgum um allan heim, þar á meðal á háskólasvæðum, viðurkennir hún að það sé áskorun að ná eins góðu sambandi við alla meðlimi samtakanna, á rafrænan hátt.