Hvar er besta Hámukaffið?
Ég geri ráð fyrir því að það séu fleiri háskólanemar eins og ég sem drekka mjög mikið kaffi. Sjálf hef ég farið í gegnum fjölmörg kaffikort á mínum háskólaferli og eytt meiri pening í kaffi en ég kæri mig um að vita. Kaffið í Hámu hefur hjálpað mér í gegnum súrt og sætt, hvort sem það séu erfið verkefnaskil eða huggulegt spjall með vinum á Háskólatorgi. Ég hef oft orðið vitni að heitum umræðum um það hvaða Háma geymir besta kaffið, hvort að kaffistopp eigi að vera í Hámu í Odda eða á Háskólatorgi og þar fram eftir götum.
Í Stúdentablaðinu í fyrra tók ég fyrir álíka umdeilt mál sem varðaði frosnar pítsur. Þess vegna taldi ég tilvalið að taka kaffimálið í eigin hendur og skera úr um málið. Þar sem Háma er staðsett í hinum fjölmörgu byggingum Háskólans sem eru að finna víða um borgina ákvað ég að takmarka heimsóknirnar við fimm verslanir Hámu. Sömuleiðis drakk ég einungis svart uppáhellt kaffi. Svo skiptir auðvitað máli hversu lengi uppáhellingin hefur staðið og reyndi ég því eftir fremsta megni að heimsækja kaffistofurnar á svipuðum tíma dags.
Háskólatorg: Ég álykta sem svo að þetta sé sú Hámuverslun sem er best þekkt og sú sem mest er verslað við. Ég er í þeim hópi sem verslar nokkuð mikið við þau. Þessi tiltekni kaffibolli sem tekinn er fyrir þótti mér nokkuð þunnur og það mikið eftirbragð. Ég ætla samt ekki að ganga svo langt að segja að hann hafi verið vondur, en það er rými til úrbóta.
Oddi: Næst skellti ég mér í Odda. Ég hef margoft verslað við þessa kaffistofu enda í grennd við þær byggingar háskólans sem ég ver hvað mestum tíma í. Sömuleiðis er oft minni röð og umhverfið huggulegra en á Háskólatorgi, að mínu mati. Kaffið fannst mér bragðgott, það var ekki sterkt en myndi alls ekki teljast þunnt. Eftirbragðið var ágætt og ekki yfirgnæfandi. Ég var almennt nokkuð ánægð með þennan bolla.
Stakkahlíð: Ég verð að segja að í Stakkahlíðinni varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með kaffibollann minn. Hann var beiskari og þynnri en þeir sem ég hafði bragðað á undan. Það má vel vera að ég hafi komið á óheppilegum tíma og að kaffið hafi mögulega staðið lengur en venjulega. Þetta var ekki alslæmur kaffibolli og ég myndi drekka kaffi úr þessari Hámuverslun aftur, en líkt og með Hámubollann á Háskólatorgi þá tel ég að það sé rými til úrbóta.
Tæknigarður: Ég verð að viðurkenna að áður en ég gerði mér sérstaka ferð til að fá mér einn kaffibolla þá hafði ég aldrei komið hingað inn áður. Sem er svo sem skiljanlegt í ljósi þess að ég er hugvísindanemi og hef aldrei haft neina sérstaka ástæðu til þess. Kaffið sem ég fékk var ágætt. Eftirbragðið var ekki mikið og ég myndi ekki segja að það hafi verið þunnt, en ég myndi heldur ekki lýsa því sem bragðgóðu. Engu að síður var gaman að prófa eitthvað nýtt og drekka Hámukaffi í nýju umhverfi.
Eirberg: Mig langar að byrja á að taka það fram að Háma í Eirbergi minnti mig mjög mikið á Hámu í Árnagarði. Fyrir hugvísindanema sem hefur misst Hámu úr elsku Árnagarði var því súrsæt upplifun að ganga inn í Eirberg. Hvað kaffið varðar var það bragðmikið og eftirbragðið töluvert mikið, meira en ég tel óskandi. Þá verð ég samt að játa að mér fannst Eirberg huggulegasti staðurinn til að drekka kaffið mitt. Ég fann hlýja strauma þarna inni.
Niðurstaða: Samkvæmt mjög óformlegri skoðanakönnun verður að segjast að besti kaffibollinn sem ég sötraði var í Odda. Þá er vert að taka fram að það eru auðvitað margar breytur sem spila þar inn í. Til að mynda hversu lengi kaffið hefur staðið, hver hefur hellt uppá þessa tilteknu uppáhellingu, gerð uppáhellingarvélarinnar og auðvitað einungis fimm verslanir teknar fyrir. Hver veit nema að besta uppáhellingin leynist til að mynda í Læknagarði?